15.05.1933
Neðri deild: 74. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2523 í B-deild Alþingistíðinda. (4078)

191. mál, mjólkurbúastyrk og fl.

Bernharð Stefánsson:

Það eru nú orðnar nokkuð langar umr. um þetta mál, enda skal ég ekki lengja þær nema örlítið. Tveir af flm. þessarar till. á þskj. 676 hafa svarið og sárt við lagt, að henni væri ekki stefnt gegn Eyfirðingum, langt frá því. Hv. l. þm. Skagf. mótmælti því kröftuglega, að svo væri, og mér fannst á honum og hv. þm. N.-Þ., að það væri einhver sérstök ósvífni af mér að láta mér detta slíkt í hug. En það er nú svo, að ég er ekki sá fyrsti, sem nefni þetta hér í þessari hv. d. Eins og hv. þm. N.-Þ. vék að í sinni ræðu, þá voru það einmitt að nokkru leyti orð frá honum við 1. umr. þessa máls, sem gáfu það til kynna, að þetta væri það, sem fyrir vekti. Og það, sem kom mér til þess að tala um þetta atriði málsins, var einmitt það, að hv. þm. Borgf. hafði fundið þetta líka, og hann skoraði á mig að segja mitt álit um það, hvort ég teldi, að mjólkursamlag Eyfirðinga gæti komizt af án þessa styrks.

Svo var hv. l. þm. Skagf. að tala um það, að ég hefði borið till.mennina brigzlum. Ég veit ekki til þess, að ég hafi haft í frammi nein brigzl við þá né talað um illar hvatir þeirra. Ég þekki ekki hjörtun og nýrun, og veit ekki, hvaða hvatir búa með þeim, en ég sagði bara, að þetta líktist óþægilega einni alþekktri tilfinningu mannanna. Það eru þessir hv. till.menn sjálfir, sem eru að tala um öfund, en ekki ég. „Hver er að tala um mig?“ sagði maðurinn í kirkjunni forðum.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að þetta ætti ekki að vera fátækrastyrkur samkv. þeirra till., heldur til þess að rétta heilbrigðum atvinnurekstri hjálparhönd, sem ekki væri hægt að reka á heilbrigðum grundvelli vegna kreppunnar. En jafnan áður þegar slíkum framkvæmdum hefir verið veittur stuðningur frá ríkinu, þá hefir það gengið jafnt yfir, án tillits til efnahags eða slíks.

Það er dálítið hæpið, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði um það, hvort væri dýrara mjólkurbúin eða frystihúsin, miðað við umsetningu þeirra. Það var eitt fyrir sig, að hann talaði um frystihúsin á þá leið, eins og þar væri ekki um neina umsetningu að ræða, nema aðeins kjötið. Það er máske svo í sumum frystihúsum, en vitanlega er um meiri umsetningu að ræða en kjöt í mörgum frystihúsum, þannig að það kemur ýmislegt fleira til greina í þessu efni. En ég ætla ekki að tefja tímann með því að fara nánar inn á það.

Hvað viðvíkur því, sem hv. þm. sagði um hina góðu afkomu mjólkursamlags Eyfirðinga, og hvað það geti goldið fyrir mjólkurkg., þá býst ég við, að þau ummæli hans geti valdið misskilningi. Þarna þarf að draga frá allan flutningskostnað mjólkurinnar, og það er nokkuð mikið, sem dregst frá í hinum fjarlægari sveitum.

Hv. þm. N.-Þ. sagði, að þessi orð þeirra í till. um „heilbrigðan grundvöll“ væru tekin eftir öðru frv., sem hér hefði verið samþ. Það má vel vera, að þetta sé rétt. En það gegnir öðru máli þar en hér. Í frv. um kreppulánasjóð er um að ræða hjálp með lánum og öðru beint til framleiðendanna, til bændanna sjálfra, til þess að þeir geti rekið bú sín á heilbrigðum grundvelli. En hér í þessu máli er ekki um það að ræða, heldur um stuðning við samvinnufyrirtæki bænda. Það var út af þessu, að ég spurði, hvað þeir ættu við með „heilbrigðum grundvelli“. Samvinnufélag eins og t. d. mjólkursamlög geta verið rekin þannig, ef forstöðumennirnir eru starfinu vaxnir, að fyrirtækið beri sig vel sem slíkt, þó atvinnurekstur hinna einstöku félagsmanna beri sig illa. Því þó eitt slíkt samvinnufyrirtæki standi sig vel fjárhagslega og starfi að því leyti á heilbrigðum grundvelli, þá er engin sönnun fyrir því, að afkoma þeirra manna, sem að því standa, sé góð, m. ö. o., að framleiðsla þeirra beri sig. Er það þetta, sem hv. flm. till. kalla heilbrigðan atvinnurekstur? Mér hafði skilizt, að aðalatriðið í þessu máli væri ekki fyrirtækin sjálf, heldur félagsmennirnir, framleiðendurnir, að gera þeim mögulegt að reka atvinnuveg sinn og leggja til hráefni til þessarar starfsemi.

Það væri náttúrlega vert að fara út í fleira, sem fram hefir komið, en ég ætla nú að sleppa því, og þá meðfram fyrir það, að þessir hv. þm., sem flytja þessa till., eru nú farnir að draga saman seglin og virðast nú vera gengnir inn á brtt. við sína till., sem a. m. k. gerir hana miklu aðgengilegri en hún var frá þeirra hendi í fyrstu.