08.05.1933
Neðri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2540 í B-deild Alþingistíðinda. (4122)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Flm. (Ólafur Thors):

Ég sé ekki ástæðu til að svo stöddu að gera að umræðuefni þessi ummæli hv. 2. þm. Rang. Þau hafa sjálfsagt, a. m. k. að sumu leyti, við rök að styðjast. N., sem fær frv. til meðferðar, mun taka þetta til athugunar.

En að því er snertir tilmæli hv. 4. þm. Reykv. um það, að frv. verði sent bæjarstjórnum Rvíkur og Hafnarfjarðar til umsagnar, þá get ég ekki tekið undir þau, því það mundi sennilega aðeins tefja fyrir framgangi málsins. En nú eru tilmæli hv. þm. svo sanngjörn, að ég mundi ekki setja mig á móti þeim, ef ekki væri svo ástatt, að í báðum d. þingsins eru einhverjir áhrifamestu mennirnir innan bæjarstjórnarinnar, eins og t. d. hv. 4. þm. Reykv., hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. landsk., borgarstjórinn sjálfur. Það gefst því fyllsta tækifæri hér á þingi til að koma fram með þær skoðanir, sem bæjarstjórn hefir á þessu máli, og ég vænti þess, að þær verði málinu ekki að neinu leyti til falls eða miska.