13.05.1933
Neðri deild: 73. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2554 í B-deild Alþingistíðinda. (4131)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég get ekki sagt, að ég sé sérstaklega kunnugur þessu máli, en það eru á því svo margar hliðar, sem grípa inn í viðskiptalífið yfirleitt, að það er vel hægt að taka afstöðu til þess út frá almennum hugleiðingum og skoðunum í þeim efnum. Það er því í raun og veru ekki nauðsynlegt að vera nákvæmlega kunnugur þessari sérstöku grein viðskiptanna, mjólkursölunni, til þess að ákveða sig með eða móti þessu frv.

Ég hlustaði með mikilli gaumgæfni á ræður þeirra tveggja hv. þdm., sem mæltu með frv. Og öll rök þeirra eru nákvæmlega hin sömu og koma fram hjá þeim mönnum, sem hafa trú á því, að hægt sé að laga viðskiptin með ýmiskonar höftum eða lagafjötrum og skattaálögum. Þessir blessaðir lagaþrælar, sem aldrei hafa trú á, að hægt sé að koma nokkrum sköpuðum hlut áfram, nema hoppað sé í hafti. Í umr., sem fóru fram í útvarpinu í vetur um bæjarmál Rvíkur, bar einn ræðumaðurinn það á Sjálfstæðisflokkinn eða fulltrúa hans í bæjarstj., að hann ætti meginsökina á því, hvað mjólkurverðið væri óafsakanlega hátt í bænum. Þetta var bara eins og hver önnur vitleysa, að mjólkurverðið kæmi nokkuð við einum pólitískum flokki í landinu. En þá í umr. kom greinilega fram þessi almenna skoðun, að mjólkin væri of dýr og dýrari en hún þyrfti að vera. Það er náttúrlega mjög gott, ef hægt er að gefa vonir um lægra mjólkurverð. En mér finnst nú, að þessum lögum sé fremur ætlað að auka öfgarnar á hinn bóginn og að þau séu talin nauðsynleg af því að framleiðendur mjólkurinnar þurfi að fá hærra verð fyrir hana. Niðurstaðan verður vitanlega hin sama hér eins og alstaðar annarsstaðar, að hverskonar hindrun frjálsrar samkeppni leiðir til hækkunar á vöruverðinu. — Annars fannst mér nokkuð mikið bera á ósamkvæmni og mótsögnum í ráðum hv. frsm. Annað veifið hélt hann því fram, að það vekti fyrir framleiðendum mjólkurinnar og flm. frv. að lækka mjólkurverðið fyrir neytendur, en á hinn bóginn taldi hann, að framleiðendur fengju of lágt verð fyrir mjólkina, af því að þeir byðu það niður hver fyrir öðrum. (BÁ: Þeir sprengja söluverðið upp hver fyrir öðrum). Þess vegna á með lögunum að skipulagsbinda þessar mannskepnur til að selja mjólkina dýrara. Ef hægt verður að lagfæra þetta með því fyrirkomulagi, sem stungið er upp á í þessu frv., þá er nú ekki annað eftir en milliliðirnir. Og því atriði ætti nú að vera hægt að kippa í lag til þess að framleiðendur fái meira fyrir mjólkina og kaupendur geti fengið hana fyrir lægra verð handa sér og sínum börnum. Þessari stórvægilegu hagsbót á nú að koma í framkvæmd með fækkun sölustaðanna. Þessu atriði er alltaf hampað hér í umr., að ef útsölustöðum mjólkurinnar verði fækkað, þá á allt að vera í blóma. Þá eiga framleiðendur að fá meira verð fyrir mjólkina, og neytendur að borga minna fyrir hana. Ég get nú ekki séð, að með þessu frv. séu gerðar stórfelldar ráðstafanir í þessa átt. Það er að vísu opnuð leið til að skipuleggja mjólkursöluna, en þeir möguleikar hafa verið fyrir hendi og eru það enn, án sérstakrar lagasetningar. Það er enginn, sem bannar framleiðendum og neytendum mjólkurinnar að skipuleggja söluna á henni. Ég get ekki séð, að í þessu frv. séu lagðar línur fyrir gagngerðum ráðstöfunum í þessu efni. Það má kannske segja, að það létti eitthvað undir, en meira er það heldur ekki.

Annars verð ég að segja, að þó að ég hafi ekki í höndum skýrslur um sölukostnað mjólkurinnar hér í bænum og efist ekki um, að sölustaðirnir séu margir, þá hygg ég, að hið fyrirhugaða sölufyrirkomulag muni gleypa álíka mikinn sölukostnað og nú tíðkast. Það má e. t. v. spara einhvern skilding, en ég á bágt með að trúa, að það muni nema nokkru verulegu. Mér er ekki vel kunnugt um, hvernig mjólkurbúðirnar eru reknar, en ég hefi hugsað mér, að greitt sé ákveðið gjald fyrir hvern lítra í sölulaun. Og ef svo er, þá virðist það ekki skipta neinu máli, hvort mjólkin er seld í 1 búð eða 10 búðum. Kostnaðarauki, sem stafar af minni umsetningu, kemur niður á þeim, sem taka að sér útsöluna, en skiptir engu fyrir framleiðendurna, sem borga jafnt útsölugjald fyrir lítra, hvort sem mjólkin er seld á einum stað eða á 2—3 stöðum. Ég get ekki reiknað þetta dæmi öðruvísi. En því verður náttúrlega ekki neitað, að það stafar nokkur aukakostnaður af hinum mörgu búðum; aftur á móti gera þær kaupendum léttara fyrir, og ég hygg, að með fækkun mjólkurbúða verði ekki náð þeim árangri, sem nokkru nemi.

Ýmsir hafa mjólkursölu samhliða öðrum verzlunarrekstri, og bætir það nokkuð úr.

Það heyrist oft talað um, hvað það sé dýrt og óhentugt að hafa þessar mörgu verzlanir, og það má vel vera, að svo sé í ýmsum tilfellum. En hin almenna reynsla er nú samt sem áður sú, að það er hægt að reka verzlun alveg eins ódýrt í mörgum og smáum búðum eins og í fáum, stórum útsölustöðum. Það er t. d. talsvert erfitt að reka matvöruverzlun í stórri sölubúð, nema að vissu takmarki, eins og verzlunarfróðum mönnum er kunnugt um, þannig að því fylgi ekki meiri kostnaður en í smærri búðum. Og það mætti nefna mörg önnur dæmi hliðstæð þessu. Hvernig stendur á því, að smáskip geta keppt við stór flutningaskip um vöruflutninga og í mörgum tilfellum með meiri hagnaði? Hvers vegna getur smávegis heimilisiðnaður keppt við verksmiðjuiðnað, sem rekinn er í stórum stíl? Ástæður fyrir því geta verið margvíslegar. Það getur m. a. stafað af því, að heimilisiðnaðurinn sé unninn í aukavinnu og fyrir miklu lægra kaup en tíðkast í verksmiðjunum.

Það er ábyggilegt, að sú staðhæfing hv. frsm. getur ekki staðizt, að hægt sé að fækka mjólkurbúðunum um helming í Rvík og lækka sölukostnað mjólkurinnar um helming. Þessi fullyrðing stenzt ekki rökstudda gagnrýni; það getur verið, að sölukostnaðurinn lækki eitthvað, en alls ekki um helming.

Hv. þm. G.-K. sagði, að tilgangur þessara löggjafar væri sá, að vernda sameiginlega hagsmuni allra mjólkurframleiðenda á því svæði, sem henni væri ætlað að ná til. En mér finnst tilgangurinn vera einungis fjárdráttartilraun og jafnframt kúgunartilraun gegn vissum flokki mjólkurframleiðenda. Það á með þvingunarlögum að jafna aðstöðu allra mjólkurframleiðenda á svæðinu til mjólkurmarkaðsins í Rvík, með því að leggja jafnháan skatt á þá alla, er renni í svo kallaðan verðjöfnunarsjóð. Úr honum á svo aftur að úthluta stærri upphæðum til verðuppbótar handa nokkrum mjólkurframleiðendum. Þetta er blátt áfram fjárdráttartilraun og ekkert annað. Mér sýnist, að þar sem talað er í 3. gr. frv. um verðjöfnunarsjóð, sé tilgangurinn með honum ekki annar en sá, að taka gjöld af öllum mjólkurframleiðendum og afhenda þau fáum mönnum í hópnum til eignar. Ef þetta er ekki fjárdráttur, ja, hvað er það þá annað en leikur með peninga? Og kúgunartilraun er það. Í ákvæðum 3. gr. frv. er þetta ákaflega meinleysislega orðað. Þar er sagt, að verðjöfnunarsjóður skuli stofnaður fyrir hvert sölusvæði. „Í hann skal renna ákveðið gjald af hverjum mjólkurlítra, sem seldur er sem neyzlumjólk á sölustað eða sölustöðum samtakanna“. Síðan er ákveðið gjald til sjóðsins o. s. frv. Þetta fannst mér í sjálfu sér vera ákaflega meinleysislegt ákvæði við fyrsta lestur. Og sömuleiðis ákvæði 2. málsgr. 3. gr. frv., þar sem gengið er lengst í þessari fjárdráttarherferð á hendur framleiðendum hér innan takmarka bæjarfélagsins. Þar stendur: „Skylt er þeim, er mjólk framleiða innan takmarka sölusvæðis, sem samþykkt er gerð fyrir, og selja hana þar beint frá heimilum sínum til neytenda, að greiða sama gjald til verðjöfnunarsjóðs af hverjum mjólkurlítra, sem ákveðið hefir verið í samþykkt, og skal þá miðað við 2500 lítra ársnyt úr hverri kú“.

Svo kemur úthlutunin í 4. gr. Það á ekki aðeins að leggja þetta gjald á þá, sem eru í samtökunum, heldur líka á þá, sem eru utan samtakanna, en rétt til þess að fá hlutdeild í þessu fé hafa ekki aðrir en þeir, sem í samtökunum eru. Þetta er einskonar tilraun til þess að kúga menn til að ganga í eitthvert slíkt félag, þó að það sé þeim stórkostlega í óhag og þeir eiga að fá að borga þennan skatt án þess að hafa beinlínis gagn af honum. Nei, mig skal ekkert furða, þó að hv. 4. þm. Reykv. vilji ekki fallast á það hjá hv. flm. og hv. frsm., að það sé beinlínis verið að hjálpa þessum mönnum með því að leggja á þá 5% af útsöluverði gerilsneyddrar mjólkur! Og þó að þeir selji hana ógerilsneydda, á samt að miða við gerilsneydda mjólk. Það á að taka þetta gjald af þeim og úthluta því milli keppinautanna, sem eru í „fullkomnum mjólkurbúum“.

Ég er hissa á því, að hv. þm. G.-K. skuli ekki vera glaður yfir háum tekjuskattsfrv., sérstaklega ef þá á nú að leggja skattinn á fyrir þá, sem eiga að greiða skattinn! Nei, það er ómögulegt að neita því, að tilgangurinn með þessu frv. er ekki sá, sem þessir hv. þm. hafa lýst yfir, að jafna hag allra framleiðendanna, heldur á að leggja á suma, til þess að ívilna öðrum. (ÓTh: Ég vil leggja á alla!). Ég hefi ekki athugað, hvorum megin Korpúlfsstaðabóndinn er. (ÓTh: Korpúlfsstaðabóndinn er ekki í þeim flokki). Mér finnst sennilegt, að þessi hv. þm. láti það ekki hafa áhrif á sig, þó að hann sé skyldur einum eða öðrum bónda hér eða þar. — Þessar reglur lenda svo náttúrlega á neytendum mjólkurinnar að lokum. Annars er reglan yfirleitt sú, að þeir, sem bezta hafa aðstöðuna, hafa mest áhrif á verðið, vegna þess að þeir undir samkeppninni ákveða verð sinnar vöru nokkurnveginn eins lágt eins og þeir geta framleitt vöruna fyrir, og neyða svo aðra svo og svo langt niður á eftir sér, eins langt og þeir treysta sér til að fylgja þeim. Með þessu frv., er verið að taka þessa beztu aðstöðu af þeim, sem hana hafa nú, og er þá þessi ástæða til verðlækkunar burtu fallin, því að þetta verður óhjákvæmilega til þess að verðið á vörunni í heild hækki. Ég held, að það sé ekki ástæða til þess að knýja menn til að ganga í félagsskap til þess að hækka þá vöru, sem er jafnhá í verði eins og mjólkin er hér í Rvík. Ég skal játa, að þegar ég hefi verið eindregið með því að hafa samtök um sölu á vöru og jafnvel getað dregizt með í að veita einskonar lagavernd, hefir það kannske verið af of litlum mannkærleika, en þá hefir verið um vöru að ræða, sem við seljum öðrum fjarlægum þjóðum, og þá hefi ég ekki verið eins viðkvæmur fyrir því, þó að verð vörunnar hækkaði. Tilgangurinn er sá, að verð vörunnar hækki. Ástæðan er að mínu viti burtu fallin, þegar um innlenda menn er að ræða, bæði sem framleiðendur og neytendur. Ég býst við, að næst á eftir þessu frv., ef samþ. verður, myndi koma frv. um að jafna á sama hátt verð ýmissa annara vara, t. d. kjötverðið. Þá ætti að láta þau félög, sem eru næst búðamarkaðinum, t. d. Sláturfélag Suðurlands og Kaupfélag Borgfirðinga, greiða í sjóð, til þess að jafna upp verðið fyrir þeim, sem eru lengra í burtu, eins og þeim, sem framleiða þetta ágæta kjöt frá Kópaskeri. Í raun og veru væri enginn munur á þessu tvennu. Fyrst eru menn kúgaðir til þess að ganga í sölusamlag og svo þarf ekki annað en að láta fjarlægðina vera 500 km. í staðinn fyrir 50, því að þá ná samtökin yfir allt landið. Þetta væri jafnsanngjarnt og skynsamlegt og það, sem hér er stungið upp á. Í þessu sambandi vil ég minna á, að allt, sem leiðir til verðhækkunar á vöru, lítur að vísu í fljótu bragði þannig út, að það komi seljendunum beinlínis að gagni, en þetta er ekki, ef litið er betur á málið. Vitaskuld er ákaflega misjafnt notað af vörum eins og mjólk og kjöti, eftir því, hvað verðið er hátt. Veruleg verðhækkun á þessum vörum leiddi til þess, að markaðurinn myndi dragast saman, og það er mikill vafi á því, hvort slík verðhækkun borgar sig fyrir framleiðendurna sjálfa, þegar til lengdar lætur.

Hv. þm. G.-K. var að sýna fram á, að einmitt smáframleiðendurnir hér við Rvík og í Rvík, sem eiga að greiða þennan skatt, án þess að hafa nokkur bein not af honum aftur, hefðu í raun og veru ákaflega gott af þessu frv., og það var af því, að ef of mikið bærist að af mjólkinni, færi að draga að því, að menn yrðu að gefast upp og verða gjaldþrota, og það myndi lenda fyrst á þeim, sem framleiddu mjólkina með mestum kostnaði, en það væru þessir smáframleiðendur hér í Rvík. Þetta frv. ætti að vera vörður, vernd og skjól fyrir þessa menn! Það má benda á, að það er ekki það eina sérkenni á þeim Reykvíkingum, sem framleiða mjólk, að þeir framleiði hana með mestum kostnaði, heldur er annað sérkenni, að þeir hafa hagstæðari aðstöðu til þess að hagnýta vöruna. Þeir geta t. d. selt mjólkina spenvolga beint til neytendanna. (ÓTh: Og skítuga). Algerlega hreina. Ég hefi ekki heyrt, að mjólkin kæmi skítug úr kúnum. Þessir menn hafa betri aðstöðu en aðrir, sem kemur á móti þeirra aukna kostnaði. (BÁ: Þeir hafa hana áfram). Annars þykir mér merkilegt, ef mjólkin verður svona skítug, að þeir skuli ekki banna hana! Þessa betri aðstöðu sem þeir hafa á móti sínum erfiðleikum, á að taka af þeim með því að láta þá borga 5% í skatt, og þeir hafa ekki rétt til þess að njóta þessa verðjöfnunarsjóðs, því að þessu fé á aðeins að úthluta til þeirra, sem eru í fullkomnum mjólkurbúum. Sumpart á að leggja á þá skatt eða neyða þá til að ganga í þessi mjólkurbú. Þess vegna er langt frá því, að þeim sé nokkuð hjálpað með þessu. Þessir menn hafa sína erfiðleika, dýru ræktun o. fl., en þeir hafa betri aðstöðu, vegna þess að þeir geta selt mjólkina svo að segja milliliðalaust. Þessa betri aðstöðu á að taka af þeim með því að leggja á þá þennan skatt. Ég veit ekki betur en að það sé viðurkennt af þeim, sem hafa verið fylgjandi að leggja skatt á þá, sem hafa viljað selja fisk sinn utan sölusamlagsins, að það hafi verið gert til þess að neyða þá til þess að taka þátt í samtökunum eða borga peninga fyrir að vera utan samtakanna. Ég hefi ekki heyrt, að það hafi verið gert til þess að láta þessa menn hafa betri aðstöðu.

Svo koma þessar almennu umr. um mjólkurverðið, hvernig muni fara um það. Um leið og talað er um það, að mjólkurverðið muni hækka, þá er undir eins flett upp í frv. Það á að skipa n.! Vitaskuld á að skipa n.! Það er nú annaðhvort, ef ekki á skipa 7 manna n., tveir kosnir af framleiðendum, tveir af bæjarstj. og þrír af atvmrh.! Þegar búið er að skipa þessa n. er nú ekki hætta á því, að verðið verði ekki rétt! Þetta eru alveg sömu rökin og færð eru fram þegar verið er að setja bönn eða verndartolla. Það þarf ekkert annað en að skipa verðlagsnefnd til þess að sjá um, að verðið verði rétt. Það er lærdómsríkt að heyra, hvernig meðmælendum frv. gengur að greiða úr því, eftir hvaða reglum á að ákveða verðið. Hv. frsm. sló úr og í, en hv. þm. G.-K. fór að draga svona aðallínurnar, og við það fékk hv. frsm. svo mikinn kjark, að hann fór að draga línurnar líka. Þá kemur fram þessi skoðun á því, hvað sé sannvirði vörunnar, sem jafnaðarmenn hafa haldið fram frá fyrstu og hafa rökstutt svo, að allt verð eigi að ákveða þannig, að verð vörunnar sé framleiðslukostnaður + ágóði. Það er þessi rammvitlausa kenning, því að reynslan sýnir, að verð vörunnar er það, sem hún selst fyrir. Það væri ekki til neins fyrir mig að setja upp eldspýtnaverksmiðju og halda, að ég gæti selt eldspýtnastokkinn á eina krónu, af því að ég gæti sýnt fram á, að hann hafi kostað mig við skulum segja 90 aura, og ég hefði ekki nema 10% sjálfur. Reynslan hefir kennt hagfræðingunum, að það er framboðið og eftirspurnin, sem ræður verðinu. Allar verðlagsnefndir standa máttlausar gegn þessu, m. a. af því, að þegar á að fara að meta, hver framleiðslukostnaðurinn er, reynist hann undir eins svo misjafn. Þetta fer eftir því, hvað mikil hyggindi og vit er í hverjum búrekstri. Það, sem er framleiðslukostnaður eins bónda, er ekki annars, og það, sem er framleiðslukostnaður á einum stað, er ekki á öðrum, flutningskostnaður misjafn o. s. frv. Við hvað af þessu á að miða? Ef svo skyldi nú fara, þegar búið væri að setja verð á mjólkina, að hún seldist ekki, hvernig færi þá? Þá kemur gamla hagfræðilega reglan, að það verður að selja hana fyrir það verð, sem hún selst fyrir. Ég er sannfærður um, að síðastl. haust var kjötverðið ekki miðað við framleiðslukostnaðinn, heldur miðað við það, að ef verðið væri sett eins lágt og mönnum var frekast fært, myndi seljast meira af vörunum, og þetta var rétt út reiknað. Það er á þessu, sem verðlagsnefndirnar stranda: hvað það er, sem ákveður verð vörunnar. Því verði, sem er óeðlilegt, verður aldrei hægt að halda uppi. — Ég skal svo ekki segja fleira um þetta mál. Ég er þeirrar skoðunar, kannske eins í þessu máli eins og öðrum, að það væri gott, ef eitthvað næðist með frjálsum samtökum í þessum efnum; en mér þykir undarlegt, ef þetta er hreint sleifarlag og mjög einfalt að leysa þetta mál, ef framleiðendurnir geta ekki leyst það sjálfir. Ég hygg, að það sé af því, að það eru á þessu miklu, miklu meiri örðugleikar en flm. vilja vera láta.