13.05.1933
Neðri deild: 73. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2562 í B-deild Alþingistíðinda. (4132)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég skal reyna að vera stuttorður. Það kemur þá í ljós í ræðum hv. frsm. og hv. 1. flm., að það er aðallega verið að gera þetta fyrir framleiðendurna hér í nágrenninu við Rvík, en það er leiðinlegt, að þeir kæra sig ekkert um þá vernd, sem í frv. felst! Ég hefði ekki óskað að hafa sagt, eins og hv. frsm. hafði eftir mér, að Alþingi mætti ekki setja 1. um þetta efni, heldur vildi ég segja, og held að ég hafi sagt, að það væri ekki rétt af Alþ. að taka málið úr höndum bæjarstj. og framleiðendanna, þar sem það er nú. Ef þeir koma sér saman um þetta, þá er málið leyst. Ef framleiðendurnir fá samning við bæjarstj., sem þeir geta unað við, finnst mér, að Alþ. ætti ekki að grípa þar inn í. Það er hagsmunamál neytendanna líka, að ekki sé búið svo illa að framleiðendunum, að framleiðslan legðist niður. Ég óttast, að svo geti farið, eins og hv. frsm. lýsti ástandinu í Oslo. Hann hrósaði því mikið, að þetta fyrirkomulag væri í norsku bæjunum Bergen og Oslo og það hefði verkað svo, að í Oslo fengju framleiðendurnir 12 aur. meira fyrir lítrann en í Kaupmannahöfn. (BÁ: Útsöluverðið sama á báðum stöðunum). Þá er ekki hægt að fullyrða, að þetta komi niður á neytendunum, en það er heldur ekki nein sönnun fyrir því, að réttur neytendanna sé ekki fyrir borð borinn. Það verður þá ekkert sagt um þetta. Ég ætlaði að segja, að ef svo væri og hitt ekki upplýst, þá ætlaði ég ekki að lofa ástandið í Oslo.

Hv. þm. G.-K. sagði, að ekki væri þessi skattur, 50 kr. á hverja kú, mikill á móti þeirri verðlækkun, sem menn annars ættu í vændum. Hann er ekki neitt líklegri spámaður á þá hluti en framleiðendurnir sjálfir. Meðan framleiðendurnir mótmæla þessu, vil ég ekki ganga á móti þeim í þessum efnum fyrr en betri rök eru færð fram en þau, sem komin eru. — Viðvíkjandi búðafjöldanum vil ég segja, að það er einmitt svo ástatt í Þýzkalandi nú, að stóru verzlanirnar eru að leggja undir sig viðskiptin í þýzku borgunum. Þessar stóru verzlanir eru að útrýma smákaupmönnunum, kannske meðfram vegna þess, að þær geta selt ódýrara fyrir stærri innkaup, og svo eru e. t. v. fleiri atriði, sem koma til greina og eru ekki eins til hagsmuna fyrir neytendurna, eins og t. d. þegar menn eru búnir að venja sig á að kaupa eitthvað á vissum stað, þá er hægt að rugla tilfinningar manna fyrir verðlaginu. Þeir gæta þess ekki, að þeir kaupa hlutinn kannske dýrara verði þar en þeir mundu fá hann fyrir hjá smákaupmanninum. Það er svo komið í Þýzkalandi, að það er verið að gera tilraunir til að útrýma þessum stóru verzlunum, en það er kannske af pólitískum ástæðum. Þeir, sem með völdin fara þar, leggja kapp á að auka ekki þá samkeppni og þá hættu, sem í þessum efnum er fyrir smærri verzlanirnar, sem eru að kikna undir samkeppninni. Ef stóru verzlanirnar gætu útrýmt smáverzlununum, þá væri það ti1 óþurftar fyrir neytendurna. Við skulum segja, að 1 eða 2 stórir mjólkurframleiðendur hefði aðeins búðir, þar sem þeir sjá sínum hag bezt borgið, þá væri það ekki til hagsmuna fyrir borgarana að þurfa að standa í löngum halarófum fyrir utan þessar búðir eins og víða í Rússlandi, þar sem menn þurfa að bíða klukkutímum saman og jafnvel sólarhringa til þess að fá sínar nauðþurftir. Það væri engin fyrirmynd.

Ég vil að endingu benda á eitt atriði, sem er augljóst mál, að ef á að fara með svona löggjöf að bæta aðstöðu framleiðendanna, sem eru lengst frá markaðinum, á kostnað þeirra, sem eru næst honum, þá er enginn vafi, ef þetta er gert svo verulegu nemi, að framleiðslan eykst að svo miklum mun þar sem framleiðsluskilyrðin eru meiri, að það verður ekki viðráðanlegt að halda uppi verðinu eins og tilgangurinn er með þessum l. Ef menn fá uppbót fyrir hvern mjólkurlítra, sem þeir framleiða, úr vasa þeirra, sem framleiða mjólk hér í nánd við bæinn, þá verður það til þess, að framleiðslan í nágrenni bæjarins leggst niður, en eykst lengra burtu frá bænum. Þá verður verra að ráða við verðspursmálið en áður og þá er verr farið en heima setið. Þessi árangur er bersýnilegur eins og nú standa sakir.