13.05.1933
Neðri deild: 73. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2566 í B-deild Alþingistíðinda. (4135)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það var svo lítið, sem hv. þm. Mýr. gat sagt í hinni löngu aths. sinni, svo að ég þarf ekki mörgu að svara. Hann vildi reyna að sýna fram á, að kostnaður færðist mjög niður við það að hafa búðirnar færri. Varð hann þó að játa það, sem ég sagði, að ef borga ætti eitthvað ákveðið á hvern lítra, þá kæmi í sama stað niður, hvort borgað væri fyrir t. d. 1000 lítra í einu eða mörgu lagi. Hv. þm. sagði, að við værum á þessu sviði komnir inn í svikamyllu hinnar frjálsu samkeppni. Það er rétt, að hin frjálsa samkeppni er svikamylla, en það hefir nú samt sýnt sig, að hún er eina skipulagið, sem getur tryggt kaupendum sanngjarnt verð. Frjálsa samkeppnin er eins og stormarnir á hafinu, sem fleyta skipunum áfram, en geta líka stundum grandað þeim. Það getur komið sér illa fyrir suma, ef hver sprengir upp fyrir öðrum. En hvernig stendur á því, að þegar einn selur mjólkina fyrir 5 aur. sölulaun á lítrann, að manni í nágrannabúðinni eru boðnir 6 aur.? Hví er mjólkin ekki seld á örfáum stöðum í bænum, ef það er eins gott? Það er af því, að þá myndi ekki seljast eins mikið af vörunni. Það er af því, að neytendur vilja hafa sölustaðina sem næst sér. Ef sölustöðum væri fækkað, þá væri neytendum gert óþægilegra fyrir. En á meðan menn eru svo ósamtaka, að þeir geta ekki komið sér saman um söluverð á hverjum mjólkurlítra, þá mun erfitt að bæta hér úr með lagasetningu.

Hv. þm. hneykslaðist mjög á þeim orðum mínum, að hér væri verið að koma á fjárdrætti og kúgun. Kallaði hann þetta þekkingarleysi og illvilja og borgaði orð með orði. Get ég ekkert að þessu gert, því að ekki er það ég, sem hefi samið frv. En það er kúgun, þegar menn eru neyddir til þess að reka atvinnu sína á annan hátt en þeir vilja sjálfir.

Ég skal ekki tala margt um hámarksverðið. Hv. þm. sagði, að verðlagsn. myndi starfa undir pressu. Það er áreiðanlega rétt. Slík n. myndi alltaf vekja óánægju, hvort svo sem hún gerði rétt eða rangt og hversu góðir menn, sem væru í henni. Það yrði t. d. fundið út, að mjólkurverðið væri lægra á Akureyri o. s. frv. Ég hefi betri trú á n., sem ákvæði verðið eftir því sem markaðsskilyrði skapa.