18.05.1933
Neðri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2568 í B-deild Alþingistíðinda. (4141)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þar sem mér vannst ekki tími til þess við síðustu umr. þessa máls hér í háttv. deild að svara öllum þeim aðfinnslum, sem fram komu gegn því, ætla ég að svara þeim lítilsháttar nú og um leið taka upp af nýju nokkur höfuðatriði málsins, ef farið skyldi vera að fyrnast yfir þau fyrir háttv. þm. frá fyrri umræðum.

Það, sem hér er farið fram á að innleiða hjá okkur, er ekkert nýtt og alóþekkt fyrirbrigði. Það er aðferð, sem þegar er orðin nokkuð reynd meðal sumra nágrannaþjóða okkar. Fyrst var hún tekin upp í Noregi og reyndist þar svo vel, að hún hefir síðan verið lögleidd í nokkrum öðrum löndum og nú t. d. síðastl. haust í Svíþjóð. Þegar þetta skipulag var tekið upp í Noregi, hafði það svo almennt fylgi, að það var samþ. með yfirgnæfandi meiri hl. jafnt af hinu svartasta íhaldi og rauðustu jafnaðarmönnum auk bændaflokksins, sem þar hafði forgönguna. Það hefir alstaðar reynzt vel þar sem það hefir verið tekið upp, svo að það er alveg út í bláinn að vera að halda því fram, að hér eigi að fara að innleiða alveg óþekkt og óreynt skipulag. Hvað snertir mjólkurframleiðendur á kaupstaðalóðunum, þá horfir þetta skipulag gagnvart þeim þannig við, að þeim er tryggð öll nýmjólkursala í hús, t. d. hér í Rvík að minnsta kosti, sem þeir þurfa að keppa um við aðra eins og nú standa sakir. Það er því síður en svo, að hér sé verið að ganga á rétt þeirra, þar sem ennfremur er verið að koma í veg fyrir það, að mjólkurverðið falli niður úr öllu viti. Það er þeim til hagsbóta ekki síður en öðrum framleiðendum.

Gagnvart mjólkurframleiðendum hér í nærsveitunum horfir þetta þannig við, að með því að koma skipulagi á mjólkursöluna hér, þá er þeim tryggð ódýrari sala, þar sem t. d. dregið verður úr fjölda mjólkurbúðanna, sem mjög mikill kostnaður fylgir. Þeir fá þannig öruggari markað og hærra verð fyrir framleiðslu sína. Thor Jensen, sem er mesti mjólkurframleiðandi landsins og komið hefir upp hjá sér fullkomnu mjólkurbúi og hefir betri aðstöðu til að selja sína mjólk en flestir einstaklingar, hefir þó einnig fallizt á að beygja sig undir þessar skipulagsreglur vegna hinnar almennu og sameiginlegu nauðsynjar framleiðendanna, enda er ætlazt til, að sú undanþága frv. um sölu á ógerilsneyddri hreinsaðri mjólk nái til hans, þar sem hann líka hefir allra manna bezta aðstöðu til að koma mjólk sinni hreinsaðri og ómengaðri á markaðinn, án gerilsneyðingar. Búin austanfjalls hafa einnig óskað eftir þessu skipulagi, sem á að verða til að koma á skynsamlegri verkaskiptingu á milli þeirra og mjólkurframleiðenda hér syðra, þannig að þeir, sem næstir eru markaðnum, annist fyrst og fremst mjólkursöluna, en hinir mjólkurvinnsluna, en fái aftur á móti verðuppbætur á vöru sína úr sameiginlegum verðjöfnunarsjóði. Hvað neytendurna snertir, þá fá þeir með þessu bætta skipulagi tryggingu fyrir því að fá til neyzlu góða mjólk, sem með er farið eftir þeim ströngustu kröfum, sem þekkjast í menningarlöndunum. Það minnkar því mikið sýkingarhættu af mjólkinni, sem annars er alltaf yfirvofandi. Ennfremur er bæjarbúunum tryggt, að alltaf sé nægileg mjólk á markaðnum, sem oft hefir komið fyrir, að væri hörgull á. Þá er þeim að síðustu tryggt það, að verð mjólkurinnar fari ekki upp úr öllu valdi, þar sem skipa á nefnd manna til þess að hafa eftirlit með því. Meira að segja eru mestar líkur til, að af þessu fullkomnara skipulagi verði svo mikill hagur, að hluti af honum geti farið beint til neytendanna sjálfra.

Það er því sama, hvernig er litið á þetta; allir þessir aðilar geta haft mikinn hagnað af þessari löggjöf.

Ég hefi rætt þetta mál aðallega frá sjónarmiði Rvíkur, en það er langt í frá, að Rvík ein eigi hér hlut að máli. Sömu vandræði eru í öllum bæjum á landinu, og þessi lagaákvæði eiga erindi til þeirra allra. Alveg það sama má segja um búið í Borgarnesi. Þessi löggjöf getur orðið því til hins mesta stuðnings, m. a. með því að hjálpa til að ýta þeim framleiðendum, sem utan við standa, inn í félagsskapinn. — Þegar einstakir menn og stofnanir hafa lagt á sig mikil útgjöld til að koma mjólkursölu í betra horf, þá nær engri átt, að þeir, sem utan við vilja standa, fái að mestu leyti óátaldir að eyðileggja starf þessara manna. Með svona l. yrðu allir að vera með um þau samtök, sem gerð hafa verið á þessu sviði, bæði framleiðendum og neytendum til bóta.

Nú hafa verið bornar fram nokkrar brtt. við frv. Nokkrir hv. þm. hafa borið fram þá brtt. við 2. gr. frv., að mjólkurbú megi vera 120 km. frá sölustað og félagar þeirra ekki fjær en 200 km. frá sölustað, en í frv. eru þessar vegalengdir ákveðnar 70 km. og 150 km. Ég álít þessa brtt. heldur til skemmda, en til samkomulags hefi ég þó gengið inn á hana, en ég get ekki sagt það sama um meðnm. mína; þeir hafa óbundin atkvæði um hana. Ég hefi gengið inn á brtt., og hefi ég sýnt það með því að bera fram brtt. við þessa brtt., og er hún í rauninni ekkert annað en lagfæring. Í brtt. þessara hv. þm. er tekið fram, að innan sömu sölusamtaka geti þeir einir verið, sem hafa aðstöðu til að selja mjólkurafurðir sínar á sama sölustað, en það er vitanlegt, að það er mjólkin sjálf, sem mestu máli skiptir. Í brtt. minni er því lagt til, að orðinu „mjólk“ sé bætt við. Þá felst einnig sú breyt. í minni brtt., að þegar um vegalengdirnar er að ræða, sé miðað við venjulega flutningaleið. Það er vitanlega sjálfsagt, að leiðin sé mæld þannig, en að það sé ekki t. d. loftlína, sem við er miðað.

Þá hafa ennfremur nú á síðustu stundu komið fram brtt. frá sömu hv. þm., um að fella rjómann alveg burt úr frv. og láta þessi l. ná aðeins yfir mjólkina. Nú er þess að gæta, að það er engu minni hætta að selja ógerilsneyddan rjóma heldur en ógerilsneydda mjólk, svo að þetta er stórt spor aftur á bak. Auk þess vil ég benda á, að rjómasalan er svo stór þáttur í mjólkursölunni, að ef hann væri felldur burt, þá er frv. einskis virði, og ég mun þá ekki greiða því atkv. mitt eða leggja því lið á annan hátt.

Ég vil því eindregið skora á alla, sem skilja málið og vilja því vel, að fella þessa brtt.