19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2586 í B-deild Alþingistíðinda. (4149)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það er vandalaust að taka þessa brtt. upp aftur, áður en til atkvgr. kemur. Hún er góð og væri synd að lofa henni ekki að koma til atkvæða, og vil ég geyma mér rétt til þess að taka hana upp seinna.

Annars er ég hissa á því, þegar hver þm. af öðrum stendur upp og talar um málþóf í sambandi við þetta frv., þó að 2—3 menn segi fáein orð til andmæla. Ég held t. d., að ég hafi ekki tekið oftar en þrisvar til máls og ekki talað lengur en 15—20 mín. í hvert skipti. Það er ofureðlilegt, að nokkrar umr. verði um þetta mál, því að það er stórmál, hvort sem það er skoðað sem principmál, hvort eigi að hafa frjáls eða ófrjáls viðskipti, eða það er skoðað sem hreint viðskiptamál. Það má með sanni segja, að þetta sé stærsta viðskiptamál Rvíkur, því að hér er um eina mestu nauðsynjavöruna að ræða. Og svo er talað um málþóf, þó að þeir, sem hlut eiga að máli, andmæli með nokkrum orðum.

Hv. þm. G.-K. lét á sér skilja, að þetta frv. væri aðallega flutt til þess að vernda mjólkurframleiðendur hér í Rvík. Það er dálítið einkennilegt, þegar verið er að neyða upp á menn hjálparráðstöfunum, sem þeir alls ekki kæra sig neitt um. Hann ætti að minnast þess, þegar verið var að neyða upp á sjávarútveginn hjálparráðstöfunum, sem þeir, sem atvinnuveginn stunda, hvergi vildu koma nærri. Ég á hér við síldareinkasöluna, sem var þröngvað upp á síldarframleiðendur. (ÓTh: Þetta er gert samkv. einróma ósk þeirra, sem hlut eiga að máli, — sá er munurinn.) Hv. þm. ber slíkt fram, að það sé einróma ósk þessara manna, að þeir fái að borga 5% í skatt, án þess að þeir fái nokkra hlutdeild seinna þegar útdeilt verður. Þetta er afarsennilegt!

Hv. þm. Mýr. sagði, að það væri hættulegt að undanþiggja þá skatti, sem ekki eiga að fá hlutdeild í úthlutuninni. Hann gat ekki fært önnur rök fyrir því en þau, að menn mundu unnvörpum flytja kýr sínar í bæinn, og þá líklega líka konur sínar, börn og skuldalið. Ja, ég verð að segja, komi þeir bara hingað til Rvíkur og greiði sína skatta hér, ef þeim þykir það borga sig að losna með því undan þessum skatti. Annars er það dálítið kynlegt, ef nú á allt í einu að vera svo gott að losna undan þessum skatti, að menn streymi til Rvíkur þess vegna, og áður átti þessi skattur að vera einhver sérstök hlunnindi fyrir Reykvíkinga! Þetta er einkennilegur og óskiljanlegur hugsanagangur.

Reykvíkingar eru mjög fúsir til viðskipta. Alstaðar að koma menn með vörur sínar til Rvíkur af þeirri einföldu ástæðu, að hér er beztur markaður fyrir þær. Þær eru seldar hér hærra verði en nokkursstaðar annarsstaðar. Reykvíkingar eru sannarlega ekki að amast við þessum mönnum, en hitt er ekkert undarlegt, þó að þeir vilji nota sinn eigin markað fyrir þær vörur, sem þeir sjálfir framleiða. Og með tilliti til þessara manna, sem framleiða vöru, sem bæjarbúar þurfa á að halda, í bænum sjálfum, og vegna bæjarfélagsins sjálfs, sem hefir hagnað af því, að þessir menn verði góðir skattþegnar, þá væri ekki nema eðlilegt, að þeim væri gert hægara fyrir að notfæra sér þennan markað. Það er því fyllsta ósanngirni að gera Reykvíkingum erfiðara fyrir á sínum eigin markaði bara til þess að aðrir fái jafngóða eða betri aðstöðu. Ég mun því treysta því í lengstu lög, að hv. þdm. sýni svo mikla sanngirni í þessu máli, að þeir samþykki þessa brtt. hv. samþm. míns.

Samkv. 4. gr. frv. er hægt að verja þeim tugum þúsunda, sem koma inn í verðjöfnunarsjóðinn, á hvern þann hátt, sem stjórn sjóðsins ákveður. Þar stendur reyndar: „Verðjöfnunarsjóði skal varið til greiðslu uppbótar á verði seldra mjólkurafurða innan sölusvæðisins til framleiðenda, sem eru í fullkomnum mjólkurbúum og starfa undir skipulagi samkv. 2. gr.“ Mér skilst, að hér undir megi telja einnig mjólkina sjálfa. Og það er ekki hægt að hrekja þau rök samþm. míns, hv. 4. þm. Reykv., að ef frv. verður samþ., þá verður það til þess að létta fyrir og ýta undir framleiðsluna utan Rvíkur. Það verður óhjákvæmilega til þess, að hingað berst meira að af mjólk en áður.

Svo skal ég ekki gefa frekara tilefni til þess, að ég verði sakaður um málþóf, en læt skeika að sköpuðu um afdrif þessa máls.