19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2588 í B-deild Alþingistíðinda. (4150)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ef þessu fer fram, sem nú sýnist, að frv. verði samþ., þá er verið vísvitandi að beita ofbeldi. Ég hefi áður sagt frá því, að bæjarstjórn Rvíkur hefir haft málið til meðferðar. Það hefir verið mikið um málið talað og hugsað. En hér er beinlínis verið að taka málið með valdi af bæjarstjórninni og á að knýja það fram, sem bæjarstjórnin er viss með að mótmæla. Ég stakk upp á því áður, að frv. yrði sent bæjarstjórnunum í Rvík og Hafnarfirði; þetta hefir ekki verið gert, og samt á að keyra þetta í gegn. Ég þykist vita, að þessu frv. verði kröftuglega mótmælt bæði af bæjarstjórnum og mjólkurframleiðendum, svo að það er þess vegna alger rangfærsla, sem kom fram í ræðu hv. frsm., að framleiðendurnir væru þessu samþykkir. Við aðra umr. málsins leit hv. frsm. líka dálítið öðrum augum á málið; þá viðurkenndi hann, að bæjarbúar hefðu þá aðstöðu, sem hann lætur nú í veðri vaka, að eigi að gefa þeim með samþykkt þessa frv. En vitanlega þarf ekki að gefa þeim það, sem þeir þegar hafa. Og það er algerlega rangt að láta líta svo út sem þetta sölusamband við menn lengra að veiti Reykvíkingum einhver fríðindi. Það væri heldur engin gjöf til þeirra, því að þeir hafa þessi fríðindi og munu halda þeim. En það er rétt, að það þarf meira til þess að taka af þeim þessa sérstöðu heldur en svo, að það verði gert með þessum lögum. En þessi lög verða til þess að draga úr henni, og það er ekki rétt að skattleggja þessa menn, nema gefa þeim eitthvað í staðinn.

Talað hefir verið um það, að þetta ætti að fyrirbyggja, að mjólkin félli í verði. En það á eftir að koma fram, það á eftir að sýna sig, að frv. komi í veg fyrir, að mjólkin falli. Ég held, að fyrir þá, sem framleiða utan við bæinn, sé önnur hætta miklu meiri en sú, sem stafar frá þeim, sem framleiða hér í bænum. Hér er að vísu framleitt á hrjóstrugri jörð, en hættan er sú, að þrátt fyrir skattinn verði farið meira og meira í það horf, ef eðlilegt verðlag helzt, að framleiða hér með fóðri frá Suðurlandsundirlendi. Þá verður að skattleggja meira og meira, til þess að draga stöðugt úr sérstöðu bæjarframleiðendanna, unz svo er komið, að þeir eru ekki lengur samkeppnisfærir. En til þess má hv. þd. ekki hjálpa. Það má ekki stíga þetta spor, sem er stigið í þá átt, að látið verður eftir sífellt háværari kröfum Suðurlandsundirlendisins. Það verður ekki hægt að gera jafnan hlut þeirra manna, sem búa við Markarfljót, og þeirra, sem hér búa, hversu sem skattarnir yrðu hækkaðir, og þegar út á þá braut er farið, er erfitt að segja, hvar eigi að nema staðar. En ég verð að segja það, að nokkru er bjargað, ef hv. d. vildi samþ. mína brtt. um að fella niður skatt af framleiðendum hér í Rvík. Mér finnst alveg sjálfsagt að fella þetta skattgjald niður, því að það jafnar ekki þann aðstöðumun, sem hér er um að ræða.

Svo skal ég ekki þreyta hv. þdm. meira, en ég spái því, að þetta frv. verði ekki til þess að leysa það vandamál, sem því er ætlað. Afleiðingin verður sú, að kröfurnar um hækkun skattsins verða háværari til þess að vernda framleiðsluna á Suðurlandsundirlendi; og ef farið er inn á þessa braut, þá er erfitt að meta það, hvar eigi að hætta, hvort eigi að skattleggja hverja kú, sem hér mjólkar, 50—100 kr. eða jafnvel 200—300 kr., þar til þær verða allar fluttar austur yfir fjall.