31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2607 í B-deild Alþingistíðinda. (4165)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Torfason:

Ég skal byrja með því að þakka hv. n. fyrir þá vinnu, sem hún hefir lagt í frv., og góð meðmæli hennar. Get ég og fyllilega fallizt á þá brtt., sem n. hefir gert við frv. Ég get líka verið þakklátur mönnum fyrir það, hve hógvært þeir hafa talað um þetta mál með fullum röksemdum. En hitt gegnir allt öðru máli, að ég hefi ekki getað sannfærzt um, að þau rök, sem færð hafa verið gegn þessu máli, séu gild. — Ég vil byrja þessar hugleiðingar með því að endurtaka það, sem hv. 1. landsk. færði fram sínu máli til stuðnings. Það var það, að hér í Rvík væru 1000—1100 kýr og að með því væri séð fyrir því allt að helming mjólkurþurftar bæjarins. Ef við athugum þetta nánar, þá sé ég ekki betur en að samkv. þessu eigi að koma ein kýr á 20 menn. Þegar ég var á Ísafirði, var það eitt af vandamálunum þar, að mjólkin var allt of lítil handa bæjarbúum, og sá það á á ýmsan hátt, að bæjarbúar höfðu ekki nægilega hollt viðurværi. Þetta varð til þess, að horfið var að því ráði að setja upp mjólkurbú til að sjá fyrir þörfum manna í þessu efni, en þó held ég, að ég muni það rétt, að alltaf hafi þar verið meira en 1 kýr á 20 menn. Ef þessi skýrsla hv. 1. landsk. er rétt, að þessar 1000—1100 kýr sjái fyrir allt að helmingi af mjólkurneyzlunni hér, þá sé ég ekki betur en að ástæðan til þess, að ekki er neytt meiri mjólkur hér í Rvík, hljóti að vera sú, að hún sé of dýr. Hún er svo dýr á móti almennri fæðu eða neyzluvöru, að fólkið skirrist við að kaupa þessa alhollustu fæðu, sem það á kost á. Nú verður vitanlega ekki ráðið úr þessu, nema með því einu móti að minnka sölukostnað mjólkurinnar. Það mun rétt bæði hvað snertir framleiðendur hér í Rvík og kröfur bænda fyrir austan, að þeir munu ekki fá of mikið fyrir sína mjólk. Ég get fyllilega undirritað það því er ekki hér um annan kost að velja en að reyna með samtökum að vinna að því, að kostnaðurinn af flutningi og sölu mjólkurinnar verði minni en verið hefir, og þessi lög og allir þeir samningar, sem í mörg ár hafa staðið milli bæjarmanna og mjólkurfélaganna, hafa allir saman strandað á samvinnuleysinu. Því er þetta frv. fram komið, að sú leið þótti þrautreynd og myndi ekki hægt að koma málinu í lag nema því aðeins að njóta aðstoðar löggjafarvaldsins til þess. Nú heyri ég, að hv. 1. landsk. hefir ekki neitt sérstakt að athuga við aðalákvæði þessa frv., sem eru í 1. gr., og skilst mér helzt, að það hendi á, að þessi löggjöf muni fara í fullkomlega rétta átt. Hitt er annað mál, að ég get vel skilið, að hann vilji bera hag mjólkurframleiðenda í Rvík fyrir brjósti. En eftir því sem lögin gera ráð fyrir, þá er ég ekki viss um, að framkvæmd þeirra raski á nokkurn hátt hag þeirra, þótt þeir þyrftu að leggja eitthvað af mörkum í þennan verðjöfnunarsjóð, og þá kæmi að því, sem er aðalhugsun þessa frv. og kemur óbeint fram í frv. sjálfu, að fyrir austan fjall og annarsstaðar í fjarsveitum verði fyrst og fremst unnið úr mjólkinni skyr, ostar og rjómi, en að þeir, sem næstir eru Rvík, sjái fyrst og fremst fyrir hinni daglegu þörf mjólkur, svo að menn úr fjarsveitum sendi ekki meiri mjólk hingað til bæjarins en þarf til þess á hverjum tíma að fylla það skarð, sem þar verður, fylla muninn á milli framleiðslunnar í Rvík og eftirspurnar. Nú játa ég fullkomlega, að þetta kemur ekki beint fram í þessum lögum, en á því stendur svo, að þau eru byggð á föstu samkomulagi og samningum milli Mjólkurfél. Rvíkur og búanna. Þau byggjast á því samkomulagi, að búin fyrir austan vinni úr mjólkinni og sendi ekki nema það, sem um er beðið af mjólk hingað til Rvíkur. Þess vegna er það, að mjólkurframleiðendur hér í Rvík standa betur að vígi og fá nokkurskonar forréttindi til sölunnar. Hinsvegar finnst mér það einungis eðlilegt, að búin í fjarsveitunum fái eitthvað fyrir það að afsala þeim eiginlega mjólkurmarkaði til Rvíkur. Og þar er stungið upp á því, að það verði nokkurt gjald, sem á að leggjast í verðjöfnunarsjóð, ekki hærra en 5%. Í samanburði við annað mál, sem var hér á döfinni í gær, þá vil ég benda á, að þarna er rétt kveðið að orði, „ekki hærra en 5%“. Það sýnir, að löggjöfin kann að gera mun á þessu tvennu. Þar með er ekki sagt, að það eigi að vera 5%. Þetta gjald á að vera ákveðið af atvmrh., en þó aldrei hærra en 5%. Ég býst fastlega við því, að farin verði sú leið hvað þetta snertir, að láta reynsluna skera úr því, og her í öllu falli ekki að setja gjald þetta strax í hámark. Ég fyrir mitt leyti ber fullt traust til stj., að hún taki þarna tillit til alls réttlætis og hagsmuna þeirra, sem þarna eiga hlut að máli, einnig þeirra, sem ekki ná til mjólkurbúanna, enda beint tekið fram í 2. gr., að ef ráðh. þyki samþykktir fara í bága við grundvallarhugsun laganna; þá sé rétt að synja um staðfestingu, svo að hann hefir valdið. Því síður er ástæða til að ætla það, að ráðh. muni nú beita þessu valdi sínu illa um skör fram, þar sem það eru einmitt Rvíkingar, sem eiga daglega aðgang að honum og geta flutt sitt mál seint og snemma.

Þá er verið að fetta fingur út í það, hvernig þessir menn, sem eiga að skera úr ágreiningi milli seljanda annarsvegar og annara, sem hlut eiga að máli, hinsvegar, væru skipaðir. Það var sagt, að þetta ættu að vera einhverjir óafsetjanlegir hæstaréttardómarar, en ég get ekki séð, að svo sé, því að það er sagt, að það eigi að skipa þá samkv. nánari ákvæðum í samþykktunum. Það þykir ekki ástæða til að taka það upp hérna, hvernig þessu verði fyrir komið, til hve margra ára o. s. frv. þeir eigi að vera kosnir. Eftir því sem mér skilst geta framleiðendurnir, sem hér eiga hlut að máli, ekki átt nema 3 atkv. í n. Það var sagt, að atvmrh., sem nú væri, myndi setja eintóma bændur í þessa nefnd. Mér dettur ekki annað í hug en að hæstv. ráðh. muni skipa mennina þannig, að n. verði sannkölluð fulltrúastefna fyrir alla þá, sem hlut eiga að máli. — Ég skal svo ekki frekar eyða dýrmætum tíma hv. d., aðeins vil ég algerlega neita því, að tilgangurinn með þessu frv. sé að verjast verðlækkun á mjólkinni, heldur að með því að spara flutning á mjólkinni hingað og með því að skipuleggja mjólkursöluna hér í Rvík, þá geti mjólkin orðið ódýrari, og hún getur líka orðið hollari. Það er alveg víst, að framleiðendurnir hugsa sér ekki, að þeir fái meira fyrir mjólkina en nú. Það, sem þeir hugsa sér, er þetta, að það verði aukinn markaður fyrir mjólkina hér í bænum með lægra verði, og það getur komið öllum til góða. Það er alveg víst, að í öllu þessu ati og samningum, sem hafa orðið um þetta ár eftir ár, þá hefir einmitt þessi hugsun, að auka mjólkurneyzluna, orðið algerlega ofan á hjá þeim, sem hlut eiga að máli, eftir því sem ég þekki bezt til.