31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2613 í B-deild Alþingistíðinda. (4167)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég vil aðeins leiðrétta það, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Árn., þegar hann var að reyna að styðja fullyrðingar hv. 5. landsk. um að hér lifði fólk við mjólkurskort. Hann valdi það dæmi, að ef hér í bænum væru 1100 kýr og ef það væri helmingurinn af þeirri mjólk, sem bæjarbúar notuðu, sem þessar kýr legðu til, sem mun ekki vera rétt, þá væru það 2200 kýrnytjar, sem bæjarbúar nærðust á, og þá kæmu 30 manns á nyt; til þess þyrftu bæjarbúar að vera 66 þús., en það eru þeir ekki. Það mun sönnu næst, að ef hér eru 1100 kýr, sem mun láta nærri, þá samsvari neyzla bæjarmanna sem stendur 2500 kýrnytjum, og þá eru 12 menn á kú. Ég minnist þess, að þegar ég aðgætti þetta síðast í landshagsskýrslum, þá var ein sýsla á landinu, þar sem voru 20 menn um hverja kú, og þetta var landbúnaðarhérað. Ég hygg, að nú verði ekki talað um mjólkurskort í Rvík, enda er það vitanlegt, að þetta frv. er ekki fram komið vegna þess að hér sé mjólkurskortur, heldur af því, að hér þyki vera of mikið framboð af mjólk. Hv. þm. sagði, að tilætlunin væri að fá aukinn markað hér í bænum með lægra verði, en það er ekki unnt að komast verulega áleiðis í því máli eftir þessu frv., sem gerir ráð fyrir, að dýrasta framleiðslan verði send hingað og þar að auki lagður 5% skattur á mjólkina, og er slíkt ekki til verðlækkunar; en sá aukni markaður gæti aðeins komið fram við það, að mjólkurframleiðslan í sjálfum bæjunum hætti að vaxa eða jafnvel minnkaði. Það getur vel verið, að sú hugsun liggi að baki þessa ósanngjarna ákvæðis þessa frv. um skatt af heimaframleiðslunni, að nota innlenda markaðinn fyrir landbúnaðinn og tryggja hann betur með því að hindra landbúnaðarframleiðslu í lögsagnarumdæmum kaupstaðanna sjálfra. Auðvitað eykur þetta markaðinn, en það er ekki neitt hagsmunamál fyrir þjóðarheildina að fara inn á það að hefta framleiðsluna, þar sem hún í frjálsum viðskiptum leitar sér aðseturs. — Ég vil að lokum bæta því við, að það er ekki af hálfu kaupstaðanna einna, að mótmæli hafa komið fram gegn þessu frv. Hingað hafa komið sendinefndir bæði austan úr Árnessýslu og Rangárvallasýslu til þess að mótmæla þessu frv. Einn af þeim mönnum kom til mín og kvað svo fast að orði, að ef þetta frv. yrði að lögum, þá myndu þeir í sínum hreppi hætta að borga peninga út úr hreppnum. Það er því brýn ástæða til að athuga þetta mál betur, áður en því er flaustrað af.