02.06.1933
Efri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2614 í B-deild Alþingistíðinda. (4170)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. (Jón Jónsson):

Eins og menn muna, komu fram hörð andmæli gegn frv. við 2. umr. Og þeim mótmælum hefir haldið áfram héðan úr bænum og grenndinni, einkum frá þeim, sem framleiða og selja mjólk. Aðstandendum frv., sem eru mjólkurbúin hér sunnanlands, hefir því ekki þótt álitlegt að knýja fram löggjöf sem þessa, meðan skilningur á þörf slíkrar löggjafar er ekki meiri en mótmælin bera vott um.

Það hefir því orðið að ráði, að landbn. flytti brtt. á þskj. 934, sem gera þá stórfelldu breyt. á frv., að felldar eru niður allar greinar þess, nema hin fyrsta og síðasta. Þar með falla niður öll ákvæði um skipulagningu sölunnar, sölusvæði og verðjöfnunarsjóð, en eftir er haldið skilyrðum um sölu mjólkur í kaupstöðum fyrir því að mjólkin sé góð og holl vara, og felst í því nokkur trygging fyrir mjólkurbú þau, sem selja gerilsneydda mjólk. N. hefir ekki viljað halda frv. óbreyttu til streitu, úr því að hlutaðeigendur hafa fallizt á þessar breyt., unz sá skilningur vaknar á þessum málum, að samkomulag verði um meginefni frv. N. væntir þess því, að frv. nái nú mótmælalaust samþykki með breyt. þessum.