18.02.1933
Neðri deild: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (4190)

27. mál, fiskframleiðslu ársins 1933

Haraldur Guðmundsson:

Það má vel vera, að hv. þm. N.-Ísf. sé kunnugri þessu máli heldur en stjórnin sjálf, eða hæstv. dómsmrh., sem þó flytur frv. þetta eða leggur það fyrir þingið. Sýnist þó rétt, að hæstv. ráðh. hefði aflað sér þeirrar vitneskju um málið, að hann gæti gefið þdm. nauðsynlegar upplýsingar um það.

Það svar, að skylda sé að leggja bráðabirgðalög fyrir þingið, er svo mikill barnalærdómur, að alveg er óþarft að fara að koma með það í þessu sambandi. En um leið og hæstv. dómsmrh. framkvæmdi þá sjálfsögðu skyldu að leggja bráðabirgðal. fyrir Alþingi var og sjálfsagt, að hann léti þess getið, hvort meiningin væri, að þau féllu úr gildi þegar í stað, eða að þau gerðu það ekki fyrr en 1. apríl.

Af því að lítil grein hefir verið gerð fyrir nauðsyn og tilgangi þessara bráðabirgðal., þykir mér rétt að minna á það, sem h. h. konungurinn segir fyrir munn síns elskulega þjóns um tilgang og nauðsyn bráðabirgðal. Með leyfi hæstv. forseta segir þar svo:

„. ….. Sé sala og útflutningur nýju fiskframleiðslunnar með öllu frjáls, eru líkur til, að það valdi verðlækkun á eldri fiskbirgðum, en einkum þó á nýju framleiðslunni. Mundi slíkt ... sennilega ... ríða þessum þörfu samtökum að fullu . … “. Þetta er fullyrt 5. des. 1932. Eru nú ástæður þær, sem þá voru fyrir hendi, fallnar burt? Um þetta atriði vantar fullnægjandi upplýsingar. Og það er alveg eins, þótt hv. þm. N.-Ísf. segði, að ýmislegt benti til, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda haldi áfram störfum. Það starfaði einnig þegar bráðabirgðal. voru gefin út.