25.03.1933
Efri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (4197)

8. mál, laun embættismanna

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Ég finn ekki ástæðu til að flytja langa ræðu um afstöðu mína til þessa frv. Ég legg til, að frv. verði samþ. óbreytt. Það er stjfrv., og sá ráðh., sem hefir flutt það, er nú viðstaddur hér í d., til þess að halda uppi svörum fyrir því. Ég vil leiða athygli að því, að meiri hl. n. hefir ekki gert nokkra tilraun, hvorki á fundum n. né í nál. sínu né heldur í framsöguræðunni, til þess að leiða rök að því, að launakjör þeirra embættismanna, sem eiga að missa dýrtíðaruppbótina eftir till. þeirra, verði viðunandi eftir það. Mér finnst þó, að við svona mikilvæga breyt. verði samt ekki ætlazt til minna en að það hefði verið reynt að gera einhvern samanburð á launakjörum þessara manna eftir slíka breyt. og launakjörum annara manna, sem þeim geta talizt hliðstæðir í þjóðfélaginu, hvort sem það eru fastlaunaðir menn, þ. e. a. s. án dýrtíðaruppbótar, menn í þjónustu bæjar- eða sveitarfélaga eða menn á launum hjá einkafyrirtækjum. Ég er sannfærður um, að verði slíkur samanburður gerður án hlutdrægni, mun hann sýna það, að þeir embættismenn, sem eiga að missa dýrtíðaruppbótina, verða við það miklu miður launaðir heldur en hæfilegt er, jafnvel á þeim krepputímum, sem yfir standa í þessu þjóðfélagi. Stafar þetta af því, að grunnlaunin samkv. launal. frá 1919 eru yfirleitt, og ekki sízt að því er snertir hina svokölluðu „hálaunuðu“ embættismenn, orðin afarlág, eftir því sem gildi peninga nú er og verðlag og allir hættir í þjóðfélaginu. Ég tel þess vegna ekki með nokkru móti forsvaranlegt að svipta þessa menn þeirri tiltölulega mjög lágu viðbót, sem enn er eftir af þessari svokallaðri dýrtíðaruppbót, án nokkurra röksemda. Ég tel ekki, að enn hafi komið fram nokkur röksemd fyrir því, að þetta sé rétt.