25.03.1933
Efri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (4198)

8. mál, laun embættismanna

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Þetta frv. er samskonar eins og borið hefir verið fram á undanförnum þingum og jafnan verið samþ. Að vísu hefir það komið fyrir, að frv. væri ekki borið fram fyrr en í þinglokin og þá afgr. í hvelli með öllum afbrigðum. Ég hugsaði mér nú að hafa hina aðferðina, að leggja það fyrir í þingbyrjun og hika ekkert við það að sinna þessari nauðsyn hreinlega, að dýrtíðaruppbótin verði framlengd. Dýrtíðaruppbótin hefir farið stórum lækkandi og er ekki nú eftir af henni hjá hærra launuðu mönnunum nema 15%. Þetta eru einu launin í landinu, sem fara eftir vísitölu, og þess vegna er það líka, að engir í landinu hafa fengið meiri launalækkun en þeir starfsmenn, sem taka laun eftir launal.

Mér er kunnugt um, að starfsmenn t. d. við samvinnufélög, kaupfélög, sláturfélög, útgerðarfélög og við verzlanir hafa ekki fengið nærri því tilsvarandi lækkun, og þó eru þetta starfsmenn hjá þeim atvinnurekendum, sem eiga um sárast að binda og standa næst verðlækkun afurðanna. Það hefir verið farið verr með þessa starfsmenn, sem taka laun eftir launal., en nokkra aðra stétt í landinu. Ég verð að leggja áherzlu á, að dýrtíðaruppbótin, svo lág sem hún er orðin, sé framlengd með sama hætti og verið hefir. Það er full ástæða til að bera þennan launaflokk manna saman við þá starfsmenn ríkisins, sem taka laun utan launal.

Lækkunin á þeim hefir ekki verið tilsvarandi, og yfirleitt eru menn í slíkum stöðum sambærilegum töluvert betur launaðir en þeir, sem sitja í gömlum embættum og heyra undir launal. Mætti lækka launin á þeim, sem taka laun utan launal., til þess að þeir hefðu sömu laun og þeir, sem taka laun eftir launal., þó að þeir héldu dýrtíðaruppbótinni. Það er öllum vitanlegt, hvað kostar að lifa hér í Rvík, og hagur þeirra manna, sem lifa samkv. launal., er mjög þröngur, enda er það ekki að undra, þegar þeir fá ekki nema svona lítinn part af þeirri raunverulegu verðhækkun, sem hefir orðið síðan 1919. Ég verð að leggja áherzlu á, að afgreiðsla þessa máls verði með sama hætti eins og hún hefir alltaf verið undanfarið, þó að nokkur dræmingur hafi verið í þeirri afgreiðslu.