25.03.1933
Efri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (4199)

8. mál, laun embættismanna

Jón Baldvinsson:

Fyrir nokkrum árum flutti ég frv. um framlengingu þessara l., seint á þinginu, af því að ég sá ekki, að stj. ætlaði að gera það, og af því að mér þótti það réttlátt, að starfsmenn hins opinbera héldu þeirri uppbót, sem launal. frá 1919 veita þeim.

Blöð hæstv. stj., sérstaklega Framsóknarflokksins, hafa mjög áfellt mig og aðra fyrir það að hafa flutt þetta frv., og það er ekki meira en liðugur mánuður síðan hv. 5. landsk. var í Tímanum að skrifa um þetta og m. a. áfelldi mig (JónasJ: Og íhaldið líka.) fyrir að hafa samþ. þessi l. í fyrra. Nú kom stj. hv. þm. með þetta frv. fyrir þingið, sem hann í samræmi við sínar greinar í Tímanum ætlar ekki að fylgja að þessu sinni, Ég held, að það verði ekki færðar nokkrar líkur fyrir því, að starfsmenn ríkisins, eftir þeim launakjörum, sem þeir flestir hafa, megi við því að missa það kaup, sem þeir mundu missa, ef brtt. meiri hl. fjhn. væru samþ. Afleiðingin, ef þetta kæmist á, yrði sú, að ríkið missti alla sína beztu starfsmenn, sem færu í eitthvað annað, sem betur væri borgað. Afleiðingin af því, að ríkið greiðir nú heldur lág laun, er, að það missir góða menn úr þjónustu sinni, og það er ekki nema eitthvað mánuður síðan ríkið missti úr þjónustu sinni starfsmann, sem um langt skeið hafði verið starfsmaður ríkisins og þótti ágætur starfsmaður, að áliti yfirboðara sinna, þar á meðal hæstv. núv. fjmrh. Ríkið missti hann úr sinni þjónustu af því að honum buðust betri kjör annarsstaðar. Þetta, sem meiri hl. fjhn. stingur upp á, ber sennilega svo að skilja, að í raun og veru falli dýrtíðaruppbótin algerlega niður af öllum hærri launum, þannig að laun og dýrtíðaruppbót nemi 3000 kr. fyrir þá, sem eigi hafa ómaga á skylduframfæri, og 4200 kr. fyrir þá, sem hafa ómaga á skylduframfæri.

Þetta þýðir sennilega ekki það, að þessir menn, sem samkv. launal. hafa 6000 kr., lækki niður í 4200 kr., sem nær því mætti skilja af þessum brtt. Ég geri ráð fyrir, að í rauninni sé sú ekki meiningin hjá flm. - Ég mun því í samræmi við mína skoðun á þessu máli styðja stj. í því að koma fram þessu frv. og mun greiða atkv. á móti till. meiri hl. fjhn.