25.03.1933
Efri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (4203)

8. mál, laun embættismanna

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Hv. 1. landsk. lýsti eftir samanburði frá okkur nm. til þess að geta stutt okkar till. Ég verð að segja það, að mér virtist ég gera samanburð í minni fyrstu ræðu. En það var sá munur, að ég gerði samanburð á þeim mönnum landsins, sem eiga við erfiðastan kost að búa, þá menn í landinu, sem mest útgjaldaþyngslin hvíla á. Ég hygg, að ef hv. 1. landsk. vill hlusta á þann samanburð, þá muni hann ekki hrekja mikið af því, sem ég sagði. En það var allt öðru máli að gegna með þann samanburð, sem hann gerði, sem var samanburður á starfsmönnum, sem tækju laun eftir allt öðrum mælikvarða en launalögunum. Ég verð að segja eins og er, að mér finnst, að þann samanburð eigi ekki að gera, það sé ekki sá samanburður, sem afgreiðsla þessa máls á að byggjast á.

Ég skal ekki bera á móti því, að mörgum starfsmönnum ríkisins, og ekki síður starfsmönnum ýmsra atvinnufyrirtækja, eru greidd hærri laun en þeim, sem taka laun eftir launalögunum. Ég vil segja hv. 1. landsk. það, að ég er fús til samvinnu við hann um það, að gera tilraun til að samræma þetta á þann hátt, að hægt verði að lækka þau laun, til þess að þau verði sambærileg þeim launum, sem ég legg til, að verði grundvöllurinn með afgreiðslu þessa máls.

Ég held, að á þessum tímum verði það ekki talið heppilegt ráð til að leysa úr þeim vandræðum, sem margir einstaklingar í þjóðfélaginu eiga við að búa, að taka til fyrirmyndar þær launagreiðslur, sem hæstar eru. Annars hefir hv. 3. landsk. tekið í sama streng að því er þetta snertir, og tel ég því ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Hæstv. fjmrh. lét þau orð falla, að starfs- og embættismenn ríkisins hefðu orðið fyrir launalækkun. En ég held, að það megi finna orð eftir hæstv. ráðh. sjálfan, sem sanna, að allur fjöldi landsmanna hafi orðið fyrir launalækkun, sem nemur margfalt meiru. En það er einmitt samanburður á launum þeirra manna, sem ég vil gera.

Að því er snertir fyrirspurn hv. 2. landsk., hvernig beri að skilja brtt. okkar, þá held ég, að sé engin ástæða til að véfengja, hvernig beri að skilja hana. Ég held, að það sé sæmilega ljóst, að við erum ekki að gera neinar breyt. á grunnlaunum nokkurs starfs- eða embættismanns. Það getur hann bezt séð sjálfur með því að athuga, hvaða lög er verið að ræða um.

Hv. þm. Snæf. spurði um það, hvort n. hefði gert sér ljóst, hvað sparaðist við þessa brtt. okkar meiri hl. Ég skal viðurkenna það, að ég er ekki reiðubúinn að svara þessu með fullri vissu, því að það er afarmikið verk, næstum óvinnandi að fá það út nákvæmlega. Ég held samt sem áður, að það muni spara það mikla upphæð, að hún gæti komið að góðum notum til þess að lagfæra á öðrum sviðum fyrir þeim, sem lægra eru settir í þjóðfélaginu heldur en þeir menn, sem nú mundu missa lítinn hluta af launum sínum.

Ég tel ekki rétt að nefna neinar tölur, því það er ekki nægilega ábyggilegt til þess að hægt sé að byggja á því. Það má vel vera, að meiri hl. n. hefði átt að gera það, en ég hygg, að erfitt væri að fá þær tölur ábyggilegar.

Ég vil svo beina því til hæstv. forseta, hvort hann vilji ekki taka málið út af dagskrá að þessu sinni, af þeim einföldu ástæðum, að þó ég vilji gjarnan koma fram brtt. okkar, þá vil ég á engan hátt vinna málinu meiri skaða en þörf er á.

Ég lýsti því yfir í minni fyrri ræðu, að mér er það fyllsta alvara, ef brtt. okkar verður felld, að greiða atkv. á móti frv. Ég held því, að bezt verði að þessu sinni, að málið verði ekki borið undir atkv., því ég tel, að þeir, sem vilja halda dýrtíðaruppbótinni óbreyttri, verði að viðurkenna, að nokkur réttarbót sé í till. okkar, sem erum í meiri hl., frá því að lögin yrðu alveg numin úr gildi.

Ég skal svo að lokum geta þess, út af orðum hæstv. fjmrh., er hann sagði, að samskonar frv. hefðu verið samþ. á undanförnum þingum, að það er alveg rétt, þau hafa alltaf gengið í gegn. En ég veit, að ég þarf ekki að minna hæstv. fjmrh. á það, að a. m. k. frá mér hafa komið alvarlegar till. um, að lögin yrðu framlengd í einhverri annari mynd, og ég hefi áður gert till. til breyt. um það. En ég skal játa það, að ég tel viðurhlutamikið að fella lögin úr gildi, vegna þeirra manna, sem við viljum taka tillit til með brtt. okkar. En nú er dýrtíðaruppbótin orðin svo lág, að þar er mikið minna um að ræða en áður, og sé ég því ekki fært að láta reka á reiðanum lengur með framlengingu þessa frv., eins og áður hefir verið gert.