25.03.1933
Efri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (4204)

8. mál, laun embættismanna

Jón Baldvinsson:

Ég held mér við þetta frv. eins og það liggur fyrir, og eins og ég hefi tekið fram við þessa umr., er það af margvíslegum almennum ástæðum, sem ég er á móti þessari till.

Ég skil ekkert í bændunum. Það er alltaf einhver meinloka í þeim, þegar um kaupgjald er að ræða. Mér finnst, að íslenzkir bændur ættu nú að vera með því að hafa launin eins há og mögulegt er að gjalda, heldur en að vera að beita sér fyrir launalækkun, til þess að það sé ofurlítið meiri markaður fyrir þær vörur, sem nú er að lokast markaður fyrir annarsstaðar en innanlands, en það eru einmitt landbúnaðarafurðir. Með minnkandi kaupgjaldi verkafólks og lækkun launa embættismanna falla þessar vörur í verði, sem eðlilegt er, því að þegar lágt er goldið, kaupa menn það minnsta, sem þeir geta komizt af með, og með því mundi lokast að miklu leyti sá markaður, sem nú er innanlands fyrir þessar vörur. En ef fólkið hefði sæmilegt kaup, mundi það kaupa meira af framleiðsluvöru bænda en það að öðrum kosti gerir.

Það er orðinn svo mikill hluti af framleiðslu bænda, svo að segja af öllu Suðurlandi og mikið af Norðurlandi, sem selst á innlendum markaði, í kaupstöðum og kauptúnum hér við Faxaflóa og víðar á landinu. Mikill hluti af þessum vörum selst hér, og þegar bændur eru að tala um að lækka laun algengra verkamanna og opinberra starfsmanna, þá eru þeir með því að draga úr þeim möguleika, að þetta fólk geti keypt þær vörur, sem þeir þurfa fyrir hvern mun að selja innanlands og annars verður ónýtt í höndunum á þeim. Þegar þeir eru búnir að koma launum opinberra starfsmanna og kaupi verkafólks niður í það, sem einstaka þröngsýnir bændur halda fram, þá geri ég ráð fyrir, að þeir mundu fljótt sjá mun á sölu afurða sinna innanlands, og þá gæti verið, að þeir fyndu til þess, hversu innlendi markaðurinn er þeim mikils virði.

Það er rétt, því miður, að fjöldi verkamanna hefir ekki einu sinni þetta lága kaup, sem sumir opinberir starfsmenn hafa og lægst eru launaðir, jafnvel þó að brtt. hv. meiri hl. n. væru samþ. Það er líka rétt, að sjálfsagt einhverjum af verkamönnum finnist það ranglátt, að þessir menn hafi hærra kaup, og fjöldi verkamanna kynni að vera með því að lækka launin ennþá meira á starfsmönnum ríkissjóðs. En það þýðir það, að þessir starfsmenn, sem margir hverjir eru velviljaðir verkamönnum, bætast í þann hóp manna, sem alltaf heimtar áframhaldandi lækkun á kaupi verkamanna.

Það er ekki rétt, að Alþýðufl. hafi stuðlað að því, að laun lágtlaunaðra embættismanna ríkisins féllu niður úr því, sem nú er.

Hv. 5. landsk. var með hótanir til mín um það, ef ég greiddi atkv. á móti brtt. meiri hl. n., þá væri hætta á, að þeir felldu frv., sem fer fram á framlengingu dýrtíðaruppbótarinnar. Ég tek þessar hótanir ekkert til greina. Þær breyta ekki skoðun minni á málinu.