20.02.1933
Efri deild: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (4210)

10. mál, réttindi og skyldur embættismanna

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er í rauninni harla einkennilegt, hversu fá og ónákvæm lagaákvæði eru hér á landi um embættismenn, og fæ ég ekki betur séð en að það sé til hins verra, bæði fyrir hið opinbera og embættismennina sjálfa. Um vinnuhjú er til allýtarlegur lagabálkur, og venjulegt er, þegar menn eru ráðnir til starfs, að þá er gerður samningur, en um embættismenn hefir það yfirleitt verið látið nægja, að þeir lofa að gegna starfi sínu með árvekni og trúmennsku. En þetta er alls ekki nóg. Í samskiptum embættismanna við hið opinbera kemur svo margt fyrir, sem nauðsyn er á, að lagafyrirmæli séu um. Ef svo er ekki, er engin trygging fyrir samskonar meðferð í samskonar tilfellum.

Úr þessu er tilætlunin að reyna að bæta með þessu frv. Að sjálfsögðu er álitamál, hvað á að taka í frv. eins og þetta, en ég hygg, að í þetta frv. sé ekkert tekið, sem þar á ekki heima. Hitt gæti ég frekar tekið undir, að færra sé upp í það tekið en vera ætti, þótt ég hafi ekki orðið þess var, er ég vegna tilbúnings þessa frv. fór gegnum hliðstæða löggjöf annara þjóða, sem ég hafði aðgang að.

Athugasemdirnar við frv. eru talsvert ýtarlegar og þykir mér eftir atvikum nóg að vísa til þeirra, en skal aðeins bæta hví við, að ég hefi því miður rekizt á tvær prentvillur við yfirlestur frv., en ég hugga mig við það, að n. sú, sem málið fær til meðferðar, leiðrétti þær.

Að lokinni umr. óska ég, að máli þessu verði vísað til hv. allshn.