20.02.1933
Efri deild: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (4223)

22. mál, vegarstæði og götulóðir í kaupstöðum og kauptúnum og fl.

Jón Þorláksson:

Það er náttúrlega ýmislegt rétt í þeirri aðalskoðun hæstv. ráðh., sem liggur til grundvallar fyrir þessu frv., sem sé þeirri, að greiða fyrir því, að kostnaður við opinberar framkvæmdir, svo sem götugerð, jafnist á þá, sem sérstaklega verða hagnaðar aðnjótandi vegna framkvæmdanna. Ég hefi því ekki svo mikið að athuga við aðaltilgang frv., heldur tók ég til máls í tilefni af frágangi frv., sem ég tel, að hafi mistekizt meira en venja er til um stjfrv. Hæstv. ráðh. má þó ekki skilja ummæli mín svo, að þau eigi að vera árás á hann, því að mér er kunnugt, að annar maður en hann hefir samið frv. og á sök á þeim tilfinnanlegu smíðagöllum, sem ég tel á því vera. Það á kannske ekki við við þessa umr. að fara að ræða einstök atriði frv.; þó get ég ekki, eftir þau ummæli, er ég hefi nú látið falla, annað en bent á nokkra stóra galla, er ég tel vera á frv., og tek af handahófi þrjú atriði úr 1. gr. frv.

Í 1. málsgr. 1. gr. frv. er talað um skyldu lóðareigenda til þess að láta af hendi land undir götur og vegi eða til breikkunar eða endurbóta á götum og vegum, sem liggja um lönd þeirra. En ef greinin er skilin eftir orðanna hljóðan, þá virðist ekki skylda til að láta af hendi land til breikkunar götu hvíla á þeim lóðareiganda, sem lóð á aðeins að götu eða vegi, sem áður hefir verið lagður um annara manna lóðir. Þá er sagt í 2. málsgr. sömu gr., að lóðaeigendur séu skyldir að láta af hendi lóðir eða lönd undir hver þau mannvirki, er ríki, bær eða hreppur lætur gera á sinn kostnað í kaupstaðnum eða í kauptúninu. Þetta er miklu víðtækari eignarnámsheimild sveitarfélögum og bæjarfélögum til handa heldur en hingað til hefir þótt fært að veita þeim. Það getur nú verið svo margt, sem sveitar- og bæjarfélögum getur dottið í hug að gera. Í nágrenni við okkur er t. d. kaupstaður, sem rekur togaraútgerð. Setjum svo, að það þurfi að byggja fiskiskúr fyrir útgerðina. Eftir frv. á að vera hægt að byggja hann hvar sem bæjarstj. sýnist, skilst mér, fara með hann inn á miðja stóra lóð án nokkurs tillits til þess, hvort eigandinn líður við það stórtjón eða ekki. Hér í Rvík er t. d. verið að gera fiskreit á bæjarins kostnað. Er þá í þessu frv. nægileg heimild til þess að taka undir slíkan reit lóðir hvar sem er í bænum? Ég held áreiðanlega, að þetta fari út fyrir þau takmörk, sem ráðh. hefir hugsað sér.

Þá er í 3. málsgr. l. gr. frv. aðvörun til manna um það, að vera ekki of lengi að heiman, þar sem ræðir um bætur þær, sem einstaklingar eiga að fá fyrir jarðrask, landnám eða átroðning vegna þeirra opinberra framkvæmda, sem um ræðir í 1. og 2. málsgr. Rétturinn til slíkra bóta á að vera bundinn því skilyrði, að þeirra sér krafizt innan viku frá því, er bæjarstj. eða hreppsnefnd hefir tilkynnt landeiganda, að lóð muni verða tekin af landi hans undir mannvirkið, annars koma þær ekki til greina. Þetta ákvæði stingur mjög í stúf við aðrar þær reglur, er löggjöfin hefir sett til verndar eignarrétti manna á fasteignum.

Ég vil stuttlega minnast á ákvæði í 5. gr. frv., sem mér virðist, að sé varhugavert eins og það er, en sem ég þó veit ekki, hvort vera muni missmíði eða það er orðað þannig af ásettu ráði. Þar er gert ráð fyrir því, að skaðabætur, sem bæjarsjóður hefir greitt lóðareigendum fyrir jarðrask eða átroðning vegna vegagerða, séu afturkræfar til bæjarsjóðs á næstu 10 árum, ef það kemur í ljós, að lóð hefir hækkað í verði vegna vegagerðarinnar. Nú hafa á þessum 10 árum orðið eigendaskipti á eigninni, og á þá sá, er keypt hefir eignina, kröfu á þann, sem seldi honum. Nú getur hæglega verið, að á þessu árabili hafi verið oftar en einu sinni eigendaskipti á sömu fasteign. Líklega á að skilja þetta svo, þó að ekki sé það ljóst, að krafan gangi mann frá manni, þar til hún hefir náð til þess, er fyrstur seldi eignina eftir að mannvirkið var gert. En hvernig á að fara að, ef sá hinn sami hefir kannske selt eignina áður en nokkur verðhækkun varð á henni, - á sá eigandinn þá að bera alla byrðina? Eða ef einhver af þeim, sem hefir átt eignina, er gjaldþrota maður, á keðjan þá að slitna um hann og byrðin að koma á þann, sem næstur er á eftir honum? Ég hygg, að það sé ekki nægilega tryggt með þessu frv., að það verði jafnan athugað af þeim, sem kaupir eign, er slík kvöð hvílir á, hver hún er og hvaða áhrif hún getur haft fyrir hann. Ég álít, að ef Alþingi setur lög um slíka endurgreiðslu, sem getur átt sér stað eftir 10 ár, þá verði ekki hjá því komizt að þinglesa kvöðina á viðkomandi eignum, svo að fullt tillit sé hægt að taka til hennar, er kaup á eignum fara fram. En að láta pústurinn ganga mann frá manni eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., tel ég algerlega vanhugsað.

Ég ætla að játa að þessu sinni nægja að benda á þessi einstöku atriði, þó ýmislegt fleira megi að frv. finna. Ég get þó nefnt það, að í þessu frv. eru nokkur ákvæði, sem þegar eru til í lögum, svo sem í lögunum um skipulag bæja og sjávarþorpa og í vegalögunum.

Ég vona svo, að þetta frv., sem ég viðurkenni, að nokkur þörf er fyrir, geti lagazt í höndum þeirrar n., sem fær það til meðferðar.