20.02.1933
Efri deild: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (4224)

22. mál, vegarstæði og götulóðir í kaupstöðum og kauptúnum og fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég get verið hv. 1. landsk. þakklátur fyrir það, að hann viðurkenndi þetta frv. í mörgum greinum og virtist hlynntur aðalhugsun frv. Hinsvegar er það rétt, að annar maður en ég hefir samið frv. En frv. samdi þó maður, sem um langt skeið hefir unnið að undirbúningi stjórnarfrumvarpa. Á því geta þó verið nokkur smíðalýti, sem ég óska að tala um við hv. 1. landsk., og að því viðtali loknu mun okkur báðum verða ljósara, hvað á milli ber. Það mun vera rétt, eins og hv. þm. benti á, í þeim tilfellum, sem 5. gr. gerir ráð fyrir, að þinglýsa kvöð, sem þannig hvílir á eign, þó raunar hver maður, sem slíka eign kaupir, ætti að geta sagt sér það sjálfur, að slík kvöð getur á hann fallið. En annars sé ég ekki ástæðu til þess að fara nánar inn á einstök atriði frv. að þessu sinni. Get þó aðeins bent á það viðvíkjandi þeim tveimur dæmum, sem hv. 1. landsk. tók um fiskskúrinn og fiskreitinn, og hann virtist álíta, að frv. heimilaði að byggja hvar í bænum og á hvaða lóðum sem væri, að þar koma ýms önnur atriði til greina, svo sem fyrst og fremst skipulagslögin sjálf. Annars vil ég taka það fram, að ég er til viðtals um þetta mál við þá n. og hv. þm., sem vilja laga þá smíðagalla, sem kunna að vera á frv.