30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (4231)

48. mál, lögreglustjóra í Bolungavík

Sveinbjörn Högnason:

Allshn. hefir ekki orðið sammála um þetta frv., og hefir minni hl. skilað áliti og lagt til, að frv. verði samþ. Meiri hl. hefir ekki getað orðið sammála minni hl. um þá afgreiðslu. Við lítum svo á, að með því að fjölga lögreglustjórum í kauptúnum sé lagt inn á hættulega braut. Við höfum ekki skilað áliti, en rök okkar gegn frv. eru fyrst og fremst þau, að nú eru uppi háværar raddir meðal þjóðarinnar um að fækka embættismönnum. Það hefir verið settur sérstakur lögreglustjóri á Akranesi, og hér liggja fyrir frv. um stofnun samskonar embætta í Bolungavík og Keflavík. Og það liggur í augum uppi, að verði lagt inn á þessa braut, getur orðið stöðugt framhald á því, að kauptún og jafnvel fjölmenn sveitarfélög krefjist þess að fá sérstakan lögreglustjóra. Í öðru frv., sem nú liggur fyrir þinginu, frv. um skrifstofukostnað sýslumanna og bæjarfógeta, er þessi lögreglustjóri á Akranesi færður í það með 500 kr. tillag sem skrifstofukostnað. Það gæti orðið ríkinu ærið dýrt, ef það ætti að borga laun og skrifstofukostnað margra slíkra lögreglustjóra, og leggur því meiri hl. allshn. til, að frv. verði fellt.