30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (4235)

48. mál, lögreglustjóra í Bolungavík

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. þm. er nú annars sinnis en þegar hann vildi, að prestar fengju skrifstofufé. Ég held, að hann hafi greitt því atkv. og tekið við því með ánægju.

Hvað bæjarfógetanum á Ísafirði viðkemur, þá er það víst, að hann borgar meira til síns skrifstofuhalds en 13 þús. kr. Fyrir því liggja reikningar frá ári til árs, fyrir utan það, að hann hefir umboðsmenn í 4 þorpum. Hitt er hin mesta firra, þegar hv. þm. heldur því fram, að það sé verið að styrkja fjölmennustu héruðin til þess að innheimta tekjur ríkisins. Hverjum dettur í hug að hafa hér í Rvík einn mann til þess að innheimta ríkistekjurnar? Hér eru 3 embættismenn með stórum skrifstofum til þess að innheimta tekjur ríkisins. Það er talið alveg sjálfsagt, og er það líka.

Það er annað og erfiðara að innheimta 100 þús. kr., eins og í Bolungavík, en 300- 400 kr. eða 600- 700 kr., eins og venjulegt er í landbúnaðarhreppi.

Ég vil leyfa mér að spyrja: Hvað ætlar ríkisstj. að gera, þegar enginn borgaranna treystir sér til að inna þetta starf af hendi?