01.05.1933
Neðri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2621 í B-deild Alþingistíðinda. (4252)

43. mál, læknishéraða - og prestakallasjóðir

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég skal fyrst minnast á hina skrifl. brtt. frá hv. flm. frv., þm. Ísaf., um að fella úr 3. gr. frv. ákvæðið um launauppbót til yfirsetukvenna. Ég skal játa, að frá mínu sjónarmiði verður frv. aðgengilegra með þessari brtt. heldur en það er óbreytt, en þrátt fyrir það get ég ekki látið mér nægja með þessa brtt., og mun því greiða atkv. í gegn henni, þar sem ég álít réttara, að frv. nái aðeins til læknanna, og beri því að samþykkja brtt. n. — Út af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði um það, að koma mundu fram kröfur frá öðrum embættisgreinum, ef frv. þetta yrði samþ., þá get ég fallizt á, að það muni reynast rétt. Það hefir þegar sýnt sig með frv. hv. 3. þm. Reykv. um prestakallasjóð, en ég vil taka það fram, að mér virðist þar standa öðruvísi á, og ég vil taka það fram, að frá sjónarmiði n. á alls ekki að nota þessa læknishéraðasjóði til þess að greiða af þeim persónulegar launauppbætur til lækna í vissum héruðum. N. mun vera fús á að breyta frv. í það horf, að það orki ekki tvímælis, að það eigi ekki að vera. Fyrir n. vakti það eitt að tryggja eftir föngum, að afskekkt læknishéruð verði ekki læknislaus. Slíkt mun vera sjaldgæft, eins og hæstv. dómsmrh. tók fram. En það var alls ekki hugmynd n. að verja fénu til launauppbótar lækna.

Ég vil taka það skýrt fram, að það var sameiginlegt álit n. hvað þetta snertir.

Ég er ekki svo lögfróður, að ég vilji þræta um það, hvort þurfi að breyta frv. til þess að þetta sé nógu skýrt. En n. er fús til allra breytinga í því efni.

Ég ætla ekki að fara að tala við hv. 3. þm. Reykv. um það frv. hans, sem ekki er komið frá n. En ég vil taka það fram út af orðum hv. þm., að það frv. er nokkuð annars eðlis, af því að þeim prestaköllum, sem prestslaus eru, er ekki ætlað að njóta þess fjár, sem hér um ræðir, heldur á stéttin í heild að njóta sjóða þessara og ráðstafa þeim. Kirkjuráðið getur farið með það eins og því sýnist, aðeins ef fénu á einhvern hátt er varið til kirkjulegrar starfsemi. Í þessu tvennu er fólginn meginmunur um tilgang þessara sjóða. Í frv., sem nú er til umr., eru það héruðin ein, sem eiga að geta notið fjárins. Annars er allshn. ekki búið að afgreiða þetta frv. hv. þm. um prestakallasjóð ennþá, og er því ekki beinlínis ástæða til að blanda því hér inn í umr.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta.