01.05.1933
Neðri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (4253)

43. mál, læknishéraða - og prestakallasjóðir

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Í þessum brtt., sem fyrir liggja, segir svo, að fé læknishéraðasjóða skuli varið til þess að tryggja eftir föngum, að héruðin séu sem sjaldnast læknislaus, svo sem með því að leggja það til læknisbústaða eða annars þess, sem ætla má, að verði til þess að gera héruðin eftirsóknarverðari fyrir lækna. Ég get ekki séð, að það sé neitt meðal eins gott til að gera læknishéruðin eftirsóknarverð eins og að hækka launin. Það er auðvitað fleira, sem gerir þau eftirsóknarverð, en fyrir flestum læknum mun launahækkun vera aðalatriðið. Ég er ekki í efa um, að eins og þessi brtt. er orðuð, þá felur hún í sér heimild til þess að hækka laun viðkomandi lækna. Það er sagt, að þetta eigi að vera til þess að hvetja menn til þess að sækja um embættin. En ég efast um, að það sé nokkuð til að hvetja menn til að sækja, þó ríkið hafi borgað læknisbústaðinn. Læknunum er alveg sama, hvort það er ríkið eða læknishéruðin, sem borga. Það er heldur ekki svo, að það opinbera hafi látið læknishéruðin ein um borgunina. Ríkissjóður hefir borgað 1/3 og stundum meira af öllum þessum kostnaði. Ég efast um, að það sé sanngjarnt að heimta, að ríkissjóður hlaupi þarna undir bagga. Ég lít á þetta frv. sem stéttarýtni frá hv. þm. Ísaf., og ekki annað. Mér dettur ekki í hug að ámæla honum fyrir það, þó hann vilji hlynna að sinni stétt. En það verður að gæta að því, að það er ekki hægt að taka eina stétt út úr. Það verður að hugsa um aðrar stéttir á sama hátt.