01.05.1933
Neðri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2623 í B-deild Alþingistíðinda. (4254)

43. mál, læknishéraða - og prestakallasjóðir

Magnús Jónsson:

Sú nánari skilgreining, sem hv. frsm. n. gaf á því, hvað vakað hafði fyrir n. með því að mæla með þessu frv., mælir einnig með því, að n. afgreiði mitt frv. á sínum tíma á líkan hátt. Hugsunin í þessu frv. er ekki sú, að verja fénu til launauppbótar þeirra lækna, sem hlut eiga að máli, og í frv. um prestakallasjóð er alveg sama hugsunin. En það, að féð eigi ekki að renna til þeirra einstöku héraða, sem hlut eiga að máli, stafar af mismunandi starfsháttum. Það á að verja þessu fé í þágu læknastéttarinnar, og þá liggur undir eins opið fyrir það mál, sem hún þarf að leysa, að koma upp sjúkraskýlum. En hér liggur annað fyrir.

Þingið hefir með löggjöf sett á fót kirkjuráð, sem ekki getur vansalaust heitið að skilja þannig við, að það hafi ekkert fé til að vinna með.

Ef sparað er á einhvern hátt fé, sem annars er ætlað til kirkjunnar, þá er það hliðstætt að láta það bæta úr þeirri mest aðkallandi þörf á því sviði, eins og hér um læknastéttina. Ég segi þetta undir mikilli þolinmæði og mildi hæstv. forseta, þar sem ég að nokkru leyti er að tala um annað mál en það, sem fyrir liggur nú. Ég mun greiða atkv. með þessu frv., í þeirri von, að n. afgreiði hitt málið sem fljótast. Það er nú búið að liggja alllengi í n., og ég vona, að n. sýni því sömu sanngirni og velvild eins og þessu máli.