02.03.1933
Neðri deild: 14. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (4279)

51. mál, orðuskatt

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Ég sé ekki ástæðu til að hafa langan formála fyrir þessu litla máli, sem liggur einkar ljóst fyrir. Og því síður er ástæða til þess þar sem ég hefi mikla ástæðu til að halda, að enginn ágreiningur sé um það hér í d. Ýmsir málsmetandi þm. og af öllum flokkum hafa sem sé komið til mín og óspurðir tjáð mér þakkir fyrir að hafa flutt það og heitið því fylgi sínu.

Ég vil aðeins vekja athygli á því, að í frv. eru stig orðunnar ekki rétt greind, en það er auðvelt að laga við síðari umr. Höfuðatriðið er þó rétt, að stigin eru þrjú og mishá. Ég gætti þess satt að segja ekki að bera mig saman við orðutilskipunina, en greindi heitin eftir brjóstviti mínu og eins og þau munu vera í alþýðumáli. Aðalatriðið fyrir mér er, að frv. gangi sem greiðast í gegnum þingið, og að því vil ég nú styðja með því að hafa þessi orð ekki fleiri, en legg aðeins til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og fjhn., þar sem það mun eiga heima, með því að hér er um fjárhagsmál að ræða.