07.03.1933
Neðri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (4283)

54. mál, vörslu opinberra sjóða

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir frv. þessu; mönnum eru svo kunnar aðalástæðurnar fyrir flutningi þess. Eins og nú er háttað, eru engin heildarlög til um vörzlu opinberra sjóða. Okkur Alþfl.mönnum hefir því þótt nauðsyn bera að bæta úr þessu, og teljum við eðlilegast, að allir sjóðir, sem stofnaðir eru með lögum eða hafa konunglega skipulagsskrá, séu undir yfirumsjón fjmrh. Hann ber ábyrgð á, að fénu sé sem tryggilegast varið og að sjóðreikningarnir séu endurskoðaðir. Svo er til ætlazt, að eignir sjóðanna skuli einungis ávaxta í innstæðum í peningastofnunum, tryggðum með ríkisábyrgð, eða í skuldabréfum og verðbréfum, tryggðum með ríkisábyrgð.

Þá er ákvæði um, að segja megi upp lánum, sem lánuð hafa verið úr slíkum sjóðum, sem hér ræðir um, ef hægt er, og skuli þá ávaxta féð eins og til er tekið í 2. gr. Ég skal geta þess hér, að fjmrh. hefir átt tal við mig um frv. þetta, og telur hann sig geta fallizt á það að mestu leyti. Þykir þó ákvæði 3. gr. nokkuð ströng.

Vænti ég svo, að mál þetta fái að ganga til allshn., að umr. þessari lokinni, og fái þar fljóta afgreiðslu.