07.03.1933
Neðri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (4287)

54. mál, vörslu opinberra sjóða

Jón Auðunn Jónsson:

Það er oft beinlínis tekið fram í skipulagsskránum, hverjir eigi að stjórna sjóðunum. Í sveitum eru það oftast hreppsnefndirnar, prestur, hreppstjóri eða aðrir, sem eiga að stjórna þeim. Aftur er þá svo ákveðið, að reikningar þeirra skuli endurskoðaðir af sýslunefndunum. Þetta er miklu einfaldara fyrirkomulag og fyrirhafnarminna en t. d. að senda alla slíka reikninga hingað til ríkisendurskoðunarinnar. Enda verður líka að telja það fullkomlega tryggt. Um ávöxtun sjóðanna mætti setja sérstakt ákvæði, t. d. að ávaxta bæri þá eins og ómyndugra fé, og það verður að telja fyllilega tryggt. Þá verð ég að telja það með öllu óhæfilegt að fara að rifta þeim samningum, sem áður hafa verið gerðir um útlán á fé hinna ýmsu sjóða, enda þótt ekki séu í skipulagsskrám þeirra bein fyrirmæli um það, hvernig féð skuli ávaxtað.

Eftir frv. þessu á ekki að vera heimilt að ávaxta fé tilheyrandi neinum opinberum sjóði í sparisjóðum héraðanna, heldur verður það allt að geymast í bönkum með ríkisábyrgð. Þetta mundi verða til þess að draga töluvert fé frá hinum fátæku sparisjóðum úti á landinu hingað til Rvíkur, en það verð ég að telja miður heppilegt.