07.03.1933
Neðri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (4289)

54. mál, vörslu opinberra sjóða

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Það fór eins og mig grunaði, að koma mundu úr sjálfstæðisherbúðunum mótmæli gegn þessu frv., enda var full ástæða til að búast við því, eins og sá flokkur hafði farið með opinbera sjóði. Það er ætlazt til þess í frv., að hér eftir verði ekki margir tugir lánstofnana, sjóðstjórnir, sem hefðu opinbera sjóði til geymslu, lánstofnanir, er margir og eðlilega misjafnir menn stjórna eftirlitslaust, menn, sem kannske ekki bókstaflega misnotuðu þetta fé sér til handa, en vegna eftirlits- og skipulagsleysis máske lánuðu meiri hluta þess sínum kunningjum og vinum, náttúrlega oft gegn góðum tryggingum, en sömuleiðis einnig gegn vafasömum tryggingum eða engum. Nú viljum við með þessu frv. samræma meðferð allra opinberra gjafasjóða, með því að setja þá alla undir yfirstjórn fjmrh. og ábyrgð ríkissjóðs. Með frv. ætlum við aðallega að vinna tvennt: Annað að tryggja það, að sjóðirnir verði jafnan starfræktir í anda og samkv. ákvæðum skipulagsskránna, hitt að þeir verði geymdir á tryggum stöðum og ávaxtaðir með hagsmuni sjóðanna sjálfra fyrir augum.

Nú er það vitanlegt, að hið opinbera, sem á samkv. frv. að bera ábyrgð á sjóðunum, er oft í fjárþröng og þarf að leita á náðir lánsstofnana um starfsfé. Þegar svo stendur á, sýnist mjög eðlilegt, að ríkið geti þá fengið að láni fé þeirra sjóða, sem ekki eru af skipulagsskrám bundnir vissum fyrirmælum um vöxtun fjárins.

Mér er ekki kunnugt um, hversu margir þeir sjóðir eru, sem hér um ræðir. Stjórnarráðið mun geyma um 40 smærri og stærri gjafasjóði, en auk þess eru, eins og hæstv. dómsmrh. gat um, margir fleiri sjóðir, sem geymdir eru víðsvegar úti um allt land. Hv. þm. Borgf. þótti fyrir því, að ekki væri hægt að breyta sjóðunum í fasteignir eða lána fé þeirra út á fasteignir, en lán gegn fasteignaveðum er mjög auðvelt að veita gegnum veðdeild eða á annan hátt með ríkisábyrgð. Við ætlumst til þess, að skipulag komist á um vörzlu þessara sjóða, í staðinn fyrir það, að einn og annar getur nú ráðstafað þeim eftirlitslaust eftir eigin geðþótta, þá verði þessu svo hagað, að aðeins stofnanir, baktryggðar með ríkisábyrgð, selji sjóðunum verðbréf sín milliliðalaust. Að öðrum kosti er hætt við, að bréfin verði misnotuð. Eins og menn vita, er ekki alltaf hægt að fá veðdeildarbréf seld í Landsbankanum. Þeir, sem vilja við þau losna, verða því nú að selja þau einstökum mönnum, eða þeim, sem komast í sjóðina gegnum kunningsskap við forráðamenn sjóðanna. Á venjulegum markaði manna á meðal eru þessi bréf ekki seld nú nema fyrir 72- 75% af nafnverði, en kaupgengi þeirra í Landsb. mun vera 87%. Sá, sem tekur lán í veðdeildarbréfum með venjulegu gengi, hefir óeðlilegan hagnað af þeim kaupum. Það verður því að útiloka með frv. á þann hátt, að ákveða markaðsverð á bréfunum, úrskurðað af fjmrh.

Andstaða hv. fulltrúa Sjálfstfl. gegn þessu frv. er óskiljanleg út frá öðru en afskiptum þeirra af meðferð opinberra sjóða, eins og ég gat um áðan. Það er óskiljanlegt, hvað hægt er í raun og veru að hafa á móti því, að fjmrh. sé falið að hafa eftirlit með sjóðunum. Það sýnist svo sjálfsagt, að eftirlit þurfi að vera með þessum sjóðum, engu síður en t. d. sparisjóðum, sem eru undir lögboðnu eftirliti. (BJ: Ætli það sé nú mikið meira en nafnið?). Nei, náttúrlega er það ekki meira en nafnið, eins og það starf er af hendi leyst, en Alþingi hefir þó skilið, að ekki var forsvaranlegt að láta sparisjóðina vera eftirlitslausa og gert löggjöf í því skyni, þó að framkvæmdarvaldið láti eftirlitsmanninum haldast uppi að vanrækja starfið.

Hv. 3. þm. Reykv. spurði um, hvað átt væri við með ríkisendurskoðun í 4. gr. Þar er átt við hina umboðslegu endurskoðun. Það má vera, að þarna væri betra að lagfæra orðalag gr., en það er vitanlega hægt í hv. n.

Sami hv. þm. spurði að því, hvort frv. ætti að ná til sáttmálasjóðs og annara sjóða Háskóla Íslands. Já, vissulega á frv. að ná til þeirra sjóða. Þó þeir séu í vörzlum háskólans, er ekki hægt að sjá, að sjálfsagt sé af því, að þeir séu öruggari án eftirlits en aðrir opinberir sjóðir. Því sé ég enga ástæðu til þess að gera undantekningu með háskólann gagnvart því eftirliti, sem frv. gerir ráð fyrir.

Hv. þm. N.-Ísf. var að tala um ýmsa smásjóði, sem hreppsnefndir geymdu og færðu til reiknings, en sýslunefndir endurskoðuðu. Ég sé heldur enga ástæðu til að undanskilja þessa sjóði frá yfirendurskoðun og ákvæðum frv. öðrum.

Þá gátu þeir hv. þm. N.-Ísf. og hv. þm. Borgf. þess, að eftir þessu frv. væri ekki hægt að ávaxta opinbera sjóði í sparisjóðum úti um land, ef svo væri ekki sérstaklega fyrir mælt í skipulagsskrám sjóðanna. Þetta er rétt, en það er eðlilegt af þeim ástæðum, að sparisjóðir geta ekki verið eins tryggar lánsstofnanir og þær, sem hafa ríkisábyrgð að baki. Þá talaði annar þeirra um, að ekki væri hægt að ávaxta fé opinberra sjóða í þeim byggðarlögum, þar sem þeir væru upprunnir; en þetta er ekki rétt. Það er hægt eins eftir sem áður gegnum opinber verðbréf.