17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

192. mál, fjáraukalög 1932

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Fjvn. hefir athugað þetta frv. og komizt að raun um, að þau gjöld, sem þar um getur, eru yfirleitt réttmæt og eðlileg, enda er heildarupphæðin 75 þús. kr., sem er miklu lægra en undanfarin ár. Það er aðeins 1. liður 2. gr., sem n. taldi, að væri dálítið athugaverður. Það er viðbót við skrifstofufé bæjarfógetans á Seyðisfirði, 3500 kr. N. telur, að hér muni farið út á viðsjála braut, einkum þar sem skrifstofuféð þarna er allhátt áður, miðað við það, sem gerist hjá öðrum sýslumönnum landsins. Fyrir þessu er færð sú ástæða, að bæjarfógeti hefði haft mörg og umfangsmikil þrotabú til meðferðar. En þetta sýnist ekki veigamikil ástæða, og ekki líklegt, að það hafi aukið sérstaklega skrifstofukostnaðinn. Auk þess hafa þessi þrotabú sennilega beinlínis gefið af sér tekjur, sem kæmi þá til jöfnunar auknum kostnaði þeirra vegna. Ég vildi aðeins taka þetta fram til athugunar eftirleiðis.

Þessu frv. fylgja skýringar yfir gjaldaliðina, og þar sem þeir eru mjög einfaldir og skýringarnar nægilegar, þá sé og ekki ástæðu til þess að rifja það upp frekar, enda þykist ég vita, að hv. þdm. hafi kynnt sér frv. og grg. Ég vil svo f. h. n. óska eftir því, að frv. verði samþ. óbreytt og því vísað til 3. umr.