19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2629 í B-deild Alþingistíðinda. (4295)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því, að frv. um þetta sama efni, tilslakanir við gildandi l. um dragnótaveiðar í landhelgi, var fyrir þinginu í byrjun þess, og var þá fellt. Nú er svo ákveðið í þingsköpum, bæði um frv. og till., sem felldar hafa verið, að þær má ekki bera aftur fram á því sama þingi. Og mér finnst svo mikill skyldleiki með frv. um þetta efni, sem fellt var á öndverðu þinginu, og því, sem nú liggur hér fyrir, að mér finnst það ótvírætt koma undir þetta ákvæði þingskapanna. Þó að reynt sé að haga orðalaginu nokkuð á annan veg í þessu nýja frv., er efnisbreytingin svo óveruleg, að telja má þetta sama frv. Munurinn á þeim er svo lítill, að ég tel hann alls ekki réttlæta það, sem ég tel vera að ganga á snið við þingsköpin, með því að taka málið nú fyrir. Ég vildi vekja athygli hæstv. forseta á þessu nú þegar, ætlaði að fá að gera það áður en leitað var afbrigða hjá hv. d. um það, hvort mál þetta mætti nú koma fyrir, og hefðu hv. dm. þá sennilega ekki rétt upp hendina til þess að hleypa málinu að. Ég vænti svo, að þessar aths. mínar gefi hæstv. forseta tilefni til þess að kveða upp úrskurð um það, að mál þetta geti ekki komið fyrir á þessu þingi, eins og nú er í pottinn búið.