23.03.1933
Neðri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (4297)

54. mál, vörslu opinberra sjóða

Héðinn Valdimarsson:

N. hefir gengið mjög rækilega frá starfi sínu, þar sem hún hefir breytt frv. þannig, að ekkert stendur eftir hvað efnið snertir annað en endurskoðunin. En það, sem frv. gekk út á, var, að séð yrði um ávöxtun sjóðanna, og frá því gengur n. þannig, að hún segir, að það skuli gert „á tryggilegan hátt“, án þess að tilgreina, hvað sé tryggilegt. Eftir því sem frsm. mæltist, þá geta hneyksli eins og Reykjahlíðarkaupin haldið áfram að gróa mjög þroskavænlega, og sagði hann, að þeir hefðu breytt þessu svona til þess að hafa opnar dyr til þess að lána einstökum mönnum gegn fasteignaveði, eins og hann gerir sjálfur við Brunabótafél., þar sem það er undir forstjóranum komið, hvaða menn fá lánað og hvernig það er tryggt. Í stað þess á einungis að koma lauslegt eftirlit fjmrn., án þess að því séu settar nokkrar skorður, hvernig fara skuli að. M. ö. o., allt bendir til þess, að allt eigi að halda áfram í sömu átt, enda er þess full von frá þessum hv. form. og frsm. þeirrar n., sem um langt skeið hefir verið afturhaldssamasta n. í þinginu. Og þar að auki er þessi hv. þm. form. fyrir stórum sjóði í vörzlum Brunabótafél. Íslands, sem veitir lán til einstakra manna og stofnana, þvert á móti þeim reglum, sem við flm. viljum koma í framkvæmd með þessu frv., og hann vill halda þeirri aðstöðu sinni. Ég verð að segja það fyrir hönd okkar jafnaðarmanna, sem flytjum þetta frv., að við leggjum áherzlu á, að fé hinna opinberu sjóða sé tryggt með ríkisábyrgð. Þó höfðum við hugsað okkur, að það mætti gefa sérst. undanþágur frá þessu um ákveðið tímabil, að því er snertir sparisjóði, þannig að þeir fengju tímabundið leyfi til að geyma og ávaxta fé opinberra sjóða, enda þótt það sé ekki eins tryggt og í þeim stofnunum, sem hafa ríkisábyrgð. Við flm. frv. óskum þess heldur, að frv. okkar verði hreinlega fellt, heldur en að það sé notað sem skálkaskjól til þess að koma fram öðrum eins óburði og þetta nýja frv. hv. fjhn. er, sem á að heimila stjórnendum og forráðamönnum einstakra sjóða og stofnana að lána fé þeirra út á sama hátt og verið hefir.

Í þessum brtt. hv. fjhn. er ekki gengið lengra en svo, að fjmrn. á aðeins að hafa yfirumsjón með þeim sjóðum, sem eru í vörzlum ríkisstj. eða embættismanna ríkisins. En allir aðrir sjóðir, sem varða almenning og ávaxta fé samkv. skipulagsskrám, eigi að birta reikninga sína í Morgunbl. eða einhverju öðru blaði, áritaða af einhverjum endurskoðendum, kosnum eða tilnefndum af einhverjum ótilnefndum! Þetta telur hv. fjhn. sér samboðið að bera fram ágreiningslaust. Hvorki fjmrh. né ríkisendurskoðunin mega kynna sér, hvernig peningum þessara sjóða er varið og hvernig útlánum þeirra og tryggingum er háttað, fremur en nú á sér stað um sjóð Brunabótafél. Ísl. Þessi meðferð hv. fjhn. á frv. okkar er hin ódrengilegasta í alla staði. Og við flm. óskum þess, að frv. okkar verði fellt, heldur en að það sé gert að slíku viðundri, sem hv. fjhn. hefir talið sér sæma.