23.03.1933
Neðri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (4304)

54. mál, vörslu opinberra sjóða

Jón Auðunn Jónsson:

Út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði um birtingu á reikningum opinberra sjóða, þá er það alveg rétt hjá honum, að þeir sjóðir, sem geymdir eru í söfnunarsjóði Íslands og eins er ástatt um eins og hann tók fram, eiga að vera óhreyfðir um langt árabil, þá er engin ástæða til að birta þá reikninga. Hér er sem sé í till. n. farið fram á það, að mestur hluti hinna stærstu sjóða séu ávaxtaðir undir yfirumsjón fjármálaráðuneytisins. Það eru yfirleitt margir sjóðir, sem er stjórnað samkv. skipulagsskrám, þannig að stjórnarvöldin hafa ekkert með þá að gera, en þeir eru yfirleitt svo litlir, að ekki getur verið um neina stóra fjármuni að ræða, og mér er ekki kunnugt um, að í einu einasta tilfelli hafi orðið misfellur í stjórn sjóða, sem settir hafa verið í umsjá einhverra manna í byggðarlögunum eða tiltekinna starfsmanna byggðarlaganna. Ég held sannast að segja, að það sé svo, að þeir, sem hafa stjórn slíkra sjóða með höndum, finni til þeirrar ábyrgðar, sem á þeim er, um að ávaxta þessa sjóði vel og tryggilega.

Þeir hafa báðir, hæstv. atvmrh. og hæstv. fjmrh., heldur andað á móti brtt. undir III., um að stofnanir, sem njóta opinbers styrks eða ábyrgðar, skuli birta reikninga sína opinberlega. Ég get vel fallizt á það, að það sé ekki þörf á því, að skólar, sem njóta opinbers styrks, gefi út reikninga sína opinberlega, en í mörgum tilfellum tekur ríkið á sig ábyrgð fyrir einstök fyrirtæki og einstaka menn eða félög, og hefir ekkert eftirlit með því, hvort þessum fyrirtækjum er vel eða illa stjórnað. Ég get nefnt dæmi um þetta, ef óskað er. Svo tekur ríkið ábyrgð á fyrirtækjum hreppsfélaga og sýslufélaga, t. d. á raforkustöðum. Ég sé ekkert á móti því, að reikningar slíkra fyrirtækja, sem eiga að vera aðskilin fjárhag sýslu-, bæjar- eða sveitarfélaga og geta starfað sjálfstætt í þarfir héraðanna, birti reikninga sína opinberlega, svo að sjá megi, hvort t. d. gjaldskrárnar séu hæfilega háar, þannig að fyrirtækin geti borið sig, svo að ekki lendi allt á ríkinu, sem ábyrgðina hefir tekið.

Það er svo ákveðið í sumum skipulagsskrám, eins og ýmsir hafa tekið fram, að sjóðunum skuli stjórnað af vissum mönnum, og undir stjórn sjóðanna heyrir að sjálfsögðu það, að kaupa verðbréf og leggja peningana inn á banka eða sparisjóði. Hæstv. fjmrh. var að tala um, að t. d. að því er Landsbankann snertir, þá þyrfti bankinn að ákveða söluverðið á sínum bréfum. Það er nú svo, að Landsbankinn hefir ekki keypt eitt einasta bréf af 10. flokki veðdeildarinnar, og meðan bankinn kaupir ekki eitt einasta bréf, hvernig á hann þá að setja verð á bréfin? Það er öllum vitanlegt, að verðlag á bréfum eins og veðdeildarbréfum fer eftir því, hverjir innlánsvextir eru í peningastofnununum. Þarf ekki annað en að líta í erlend blöð til að sjá, að þegar innlánsvextir lækka um ½- 1%, hækka venjulega slík verðbréf um 10- 20%. Aftur á móti þegar innlánsvextir hækka í peningastofnunum, þá lækka bréfin.

Að leggja undir úrskurð fjmrn. í hverju einstöku tilfelli, hvort þetta bréfið skuli nú keypt eða ekki, væri svo mikill kostnaður og svo mikil sérvizka, að það næði ekki nokkurri átt. Ég veit ekki til, að þeir sjóðir hafi verið misnotaðir eða fé þeirra farið forgörðum, þó að þeir hafi verið í umsjón þessara manna. Ég get sagt fyrir mig, að ég sé enga ástæðu til að fresta þessu máli, vegna þess að upplýsinga þurfi að leita hjá Landsbankanum. Ég sé enga þörf á því vegna þessa frv., en hinsvegar skal ég ekki vera á móti því, að málinu sé frestað, þó að það mætti eins gera á milli umr., til þess að þurfa ekki að tefja málið allt of mikið, því að nóg er hér að gera í hv. d.