19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2630 í B-deild Alþingistíðinda. (4310)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég ætlaði aðeins að segja nokkur orð viðvíkjandi úrskurði hæstv. forseta. Mér skildist það svo, að hann ætlaði að fresta sínum fullnaðarúrskurði þar til ég hefði gefið þær upplýsingar, sem hann leyfði mér að gefa, og mun ég nú nota mér þetta frjálslyndi hans.

Hæstv. forseti viðurkenndi, að það væri rétt skýrt frá af minni hendi, að hér væri um skyld mál að ræða og frv. veru í aðalatriðunum eins. Hann tók það raunar fram, að heimildin í stjfrv. sálaða hefði verið víðtækari en sú, sem nú er farið fram á. Í stjfrv. var nefnilega farið fram á heimild handa stj. til að leyfa veiðar um tveggja mánaða tíma á vissum svæðum í landhelginni umhverfis allt land. En ég vil benda hæstv. forseta á það, að þessi heimild er talsvert takmörkuð af 8. gr. 1. Það er því engin skýlaus heimild, ef ríkisstj. vill taka tillit til þeirra aðilja, sem þarna eiga að leggja til málanna. Í 8. gr. er svo fyrir mælt, að berist stj. áskoranir um að loka einhverjum svæðum, sem annars má stunda dragnótaveiðar á, einhvern vissan tíma árs, á hún að bera það mál undir viðkomandi hreppsnefndir og stj. Fiskifélags Íslands, og eftir áliti þessara aðilja fer það, hvort stj. verður við áskorununum um að loka svæðinu fyrir þessum veiðum. Og í 2. gr. hins sálaða stjfrv. stendur, að með sama hætti megi stj. opna lokuð svæði fyrir þessum veiðum. Þessi heimild er því hreint ekki eins víðtæk og hæstv. forseti áleit, og er þar ein veigamesta röksemdin í forsendunum að úrskurði hæstv. forseta úr gildi fallin. — Samkv. þessu nýja frv. eiga eldri lagaákvæði um dragnótaveiðar í landhelgi, l. frá 1928, að gilda óröskuð annarsstaðar en á svæðinu frá Hjörleifshöfða að Látrabjargi. En þar er líka allt flennt upp á gátt. Svo í rauninni er þessi heimild alls ekki þröng.

Ég sé ekki, hvernig því verður á móti mælt, að aðalatriðin í frv. því, sem nú er komið fram, séu þau sömu og í frv. stj., sem var fellt á öndverðu þinginu. Ég vildi ekki láta hjá líða að gera rækilega tilraun til að sýna hæstv. forseta fram á, að það er verið að fara í kringum þingsköpin, ef þetta mál fær nú að koma hér fyrir. Ég skal svo ekki þreyta þolinmæli hæstv. forseta lengur, og þakka honum fyrir, að hann hefir gefið mér þetta tækifæri. Ég vænti, að ég hafi vakið hjá honum nýja athugun á málinu undir úrslitaúrskurð hans, hvort þetta mái eigi nú að koma hér fyrir í annað sinn.