19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2631 í B-deild Alþingistíðinda. (4312)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Forseti (JörB):

Ég hefi þegar látið fullgreinilega í ljós mína skoðun á þessu máli, en hv. þm. Borgf. vill ekki skoða síðustu orð mín sem úrskurð, og mun það hafa verið af því, að hann fann, að þau voru á aðra leið en hann hefði óskað.

Hv. þm. hefir misskilið mig, þar sem hann sagði, að ég álíti, að þessi mál greindi ekki mikið á. Ég sagði, að þau greindi á í verulegum atriðum. Misskilningur hans stafar af því, að 2. gr. bráðabirgðal. er ekki eins og hann vildi setja hana fram. 8. gr. l. er þannig:

„Nú berst atvinnumálaráðuneytinu krafa um frekari takmörkun eða bann gegn notkun dragnóta en í 1. gr. segir, og skal því þá heimilt að setja ákvæði um það, en leita skal ráðuneytið þó, áður en ákvörðun er tekin í málinu, álits hlutaðeigandi hreppsnefnda og stjórnar Fiskifélags Íslands“.

2. gr. frv. þess, er fellt var, felur í sér heimild fyrir ráðuneytið að leyfa dragnótaveiðar í allt að 2 mán. ár hvert innan landhelgi meðfram einstökum lögsagnarumdæmum, en þó aðeins í ár í senn. M. ö. o., ef óskir koma frá einhverjum að leyfa rýmkun á veiðileyfinu, þá skal ráðuneytið leita álits hlutaðeigandi hreppsnefnda áður en ákvörðun er tekin. Má því segja, að hér sé frekar um heimildarl. að ræða en beint lagaboð. En samkv. frv., ef það verður samþ., þá eru þar skýlaus lagaboð. Á þessu tvennu er allmikill munur.

Úrskurður sá, sem ég gaf áðan um þetta efni, stendur því óhaggaður.