20.05.1933
Neðri deild: 79. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2635 í B-deild Alþingistíðinda. (4318)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég hefði getað sparað mér að ýmsu leyti umr. um þetta mál nú, hefði ekki hv. flm. þess sagt í ræðu sinni í gær, að þeir menn, sem stæðu á móti frv., hefðu ekkert annað til brunns að bera en ofsa og öfgar. Hv. þm. sagði á þá leið, að þetta væri það eina, sem andstæðingar dragnótaveiðanna í landhelgi hefðu lagt af mörkum við meðferð málsins á undanförnum þingum, og hefði afstaða þingsins mótazt af þeirri framkomu. Þessi orð gefa mér tilefni til þess að endurtaka ýmislegt af þeim rökum, sem ég áður hefi fært fram gegn þessu máli.

Það er öllum vitanlegt, að hér er um mikið alvörumál að ræða, og mér finnast ómakleg og í alla staði illa við eigandi ummæli hv. flm. um þá menn, sem finna til skyldu sinnar gagnvart þjóðinni um það, að vera á verði gegn öðrum eins voða og felst í tilslökunum á l. um dragnótaveiðar í landhelgi. Hv. flm. lýsti því yfir, að hann ætlaði sér ekki að deila við mig eða neinn annan um það, hvort ábati eða skaði væri að dragnótaveiðum þeim, er hann vill leyfa í okkar friðlýstu landhelgi. Þetta þykir mér undarleg yfirlýsing þegar í upphafi. Alþ. hefir að undanförnu, og nú síðast í byrjun þessa þings, látið þá skoðun sína ótvírætt í ljós, að það teldi hættuna á skaðanum vega meira en vonina um ábatann. En það er í hæsta máta óþinglegur málaflutningur að ætla sér að ganga framhjá þeim rökum, sem færð verða gegn málinu hér í þingsalnum, og lýsa því yfir fyrirfram, að þau muni að engu höfð. Framkoma þessa frv. nú og undirbúningur þess hafa verið einkennileg á marga lund, og með þessari yfirlýsingu hv. flm. bætist enn eitt undarlegt atriði í málsmeðferðina. Fyrst og fremst er búið að fella alveg samskonar mál áður á þinginu, og með þeirri afgreiðslu hefir það þing, er nú situr, lýst yfir vilja sínum til þess að sporna við þeirri eyðileggingu á okkar dýrmætu fiskimiðum, sem samþykkt frv. hefði í för með sér. Alþ. hefir með þessari afstöðu komið í veg fyrir, að þessi veiðiaðferð, sem drepur allt kvikt og þá sér í lagi ungviði fiskjarins, verði notuð í landhelgi okkar, nema mjög svo takmarkað, og þar að auki hafa héraðsstj. vald til þess að banna slíkt alveg, hver í sínu umdæmi. Og það er full ástæða til þess að ætla, að Alþ. láti sitja við núgildandi 1. um þetta efni um lengri tíma. Hæstv. stj. lét fyrir ánauð nokkurra manna tilleiðast til þess að slaka á þessari löggjöf um stund, en fyrir það hefir nú hæstv. stj. fengið þá áminningu, sem stj. eiga að fá, þegar þær haga sér á annan veg en meiri hl. þingsins mundi kjósa, þar sem bráðabirgðal. stj. voru felld. Landhelgin er uppeldisstöð ungfiskjarins, og landið leggur árlega fram stórfé til að verja þessar uppeldisstöðvar, og landsmenn sjá ekki eftir því fé, sem varið er til landhelgisgæzlunnar. Þeir vita, hvað mikið er í húfi fyrir annan aðalatvinnuveg okkar, sjávarútveginn, sé landhelginnar ekki gætt stranglega. Þetta svæði er friðað bæði fyrir botnvörpu- og dragnótaveiðum, og hlutverk landhelgisgæzlunnar er að sporna við þeirri tortímingu á ungviði fiskjarins, sem þessar veiðiaðferðir mundu valda. Þetta er það höfuðatriði, sem alltaf hefir verið lagt til grundvallar fyrir afgreiðslu Alþ. á málinu, þeirri, að veita aldrei neinar tilslakanir í þessu efni. — Eiginlega ætti ég nú að endurtaka það, sem af er þessari ræðu minni, þar sem ég sé, að hv. flm. var nú að koma inn í þingsalinn, og hann á sannarlega ýmislegt ónumið í sambandi við þetta mál. Hann á að vera fulltrúi sjómanna og sjávarútvegskjördæmis, og vill þó fyrir vafasaman stundargróða fórna hagsmunum íslenzkra sjómanna í framtíðinni. Aftur á móti vakir það fyrir mér, að framtíð fiskiveiðanna sé sem bezt tryggð, að sá varasjóður, sem landið á í djúpum sjávarins, verði verndaður eftir því, sem föng eru til, og ekki sé verið að gera óþarfa gyllingar til þess að rányrkjunni sé leyfð innreið í friðlýsta landhelgina. Það mundi koma landsmönnum í koll í framtíðinni.

Þeir, sem æstastir eru í að fá leyfi löggjafarsamkomunnar til þess að róta öllu upp í landhelginni, tala sífellt um þann hagnað, sem af því muni verða. Ég játa það, að meðan verið væri að eyðileggja fiskimiðin, gæti orðið dálítill hagnaður að þessari veiðiaðferð. En slík röksemdafærsla er óendanlega heimskuleg, sökum þess, hvað hún opinberar mikla grunnfærni og skammsýni. Alþ. hefir líka alltaf haft vit fyrir þessum mönnum og tekið framtíðarhagsmunina fram yfir augnablikshagsmuni. En ég gæti vel trúað því, að þessi röksemd yrði notuð áður en langt um líður í því augnamiði að fá leyfðar botnvörpuveiðar í landhelgi. Hví ættu ekki eins að geta orðið stundarhagsmunir að því að leyfa botnvörpuveiðar í landhelginni? En enginn af þeim mönnum, sem í sífellu eru að reyna að setja göt á ráðstafanir Alþingis gegn dragnótaveiðunum, hefir dirfzt að koma með slíka uppástungu. Og þó hér sé að ræða um víðtækari tilslakanir, þá er það álit sjómanna, að dragnótaveiðar spilli ekki síður fiskimiðum en botnvörpuveiðar. Það var notað sem beita fyrir stj. á síðastl. ári. þegar hún var fengin til þess að gefa út bráðabirgðal., að þær ráðstafanir væru nauðsynlegar og hagnaður margra landsmanna við þær bundinn. En reynslan síðastl. ár sýndi talsvert aðra útkomu. Niðurstaðan af dragnótaútgerðinni hér nærlendis varð sú, að allir töpuðu á henni. Af þessu leiddi þannig tvöfalt tap, — tap fyrir útgerðarmennina og tap fyrir þjóðina alla af spilltum fiskimiðum.

Ég hefi nú gert grein fyrir því fyrsta, sem undarlegt er í flutningi þessa máls, nefnilega, að það skuli vera borið fram eftir að samskonar mál hefir verið fellt áður á þinginu, en flm. hefir notað sér frjálslyndi hæstv. forseta. Ég er ekki að áfellast hæstv. forseta fyrir að hafa leyft þessu máli að koma fyrir; ég veit, að hann gerir það af því, að hann telur það réttmætt. En þá kemur sú spurning: Hvernig stendur á því, að þetta mál er fram komið? Ekki er það að tilhlutun ríkisstj. Hún lætur sér sennilega nægja þá áminningu, sem hún fékk í byrjun þessa þings. Ekki er það heldur nein n. eða hópur þm., sem flytur frv. Það eru ekki íslenzkir sjómenn, sem standa að flutningi þessa máls, því að eftir að málið kom fyrst fram, hefir ekki heyrzt ein einasta rödd frá sjómönnum, hvorki á fundum þeirra né í blöðum, og ekki hefir þinginu borizt nein áskorun um að taka það upp aftur. Nei, málið er ekki komið inn í þingið fyrir þeirra tilmæli. Það er einn einasti þm., hv. þm. Vestm., sem hefir óskað eftir, að þetta mál yrði tekið fyrir, og eftir því, sem sjá má af frv., þá er það eftir beiðni sænsks frystihússtjóra hér í bæ. Málið er því hér fram komið, eftir því, sem hér liggur fyrir, frá honum. A. m. k. liggur opinberlega ekkert fyrir um það, að það sé komið fram frá öðrum.

Þetta frystihús hefir dálítið fengizt við kaup á fiski, en þó miklu minna en menn gerðu sér vonir um í fyrstu. Ég get ekki komið auga á annað en að þessi útlendi maður eigi einn þátt á því, að þetta frv. er borið fram að nýju. Eins og sjá má í grg., er prentað bréf frá þessum manni. Reyndar hefir hv. þm. ekki haft næga hreinskilni til þess að prenta nafnið undir bréfið, svo að ég hefi orðið að fara aðrar leiðir til þess að hafa upp á, hver þessi maður er. Ég gat auðvitað haft upp á honum, enda þótt hv. flm. sæi ekki ástæðu til að láta nafns hans getið. Þessi maður hefir snúið sér til stj., og ég ætla nú, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp niðurlag bréfsins. Þar segir (ég tek vitanlega enga ábyrgð á þýðingunni, því að ég býst við, að bréfið hafi upphaflega verið ritað á sænsku):

„Þar sem svo virðist, að brýn nauðsyn sé til að bæta úr ríkjandi atvinnuleysi, og ekki sízt þegar hægt er að gera það á þann hátt að auka framleiðslu landsins til útflutnings fyrir mjög viðunandi verð, leyfum vér oss að skora á hið virðulega atvmrn. að neyta allra ráða til þess að opna möguleika fyrir því, að dragnótaveiði verði leyfð í landhelgi einnig yfir sumartímann“,

Hæstv. stj., sem þekkir vel alla málavöxtu, hefði ekki dottið í hug að vekja þetta frv. upp aftur hér á þinginu, og hefði mátt skoða þetta sem tilmæli til stj. um að brjóta lög og reglur í landinu og gera hreint og beint uppreisn á móti húsbónda sínum, Alþingi. Auðvitað hefir Svíanum, sem ég heyri, að sé mætur maður, ekki dottið slíkt í hug, að hægt væri að skilja bréfið á þá lund, en hann þekkir ekki stjórnarhætti hér á landi og hefir ekki haft hugmynd um, að þetta væri að brjóta í bága við yfirlýstan vilja Alþingis. En hv. þm. Vestm. hefir ekki tekið í þetta mál eins og hæstv. stj. hefir gert. Hann gerist boðberi og flm. að tilmælum þessa útlenda frystihússtjóra, þvert ofan í yfirlýstan vilja þingsins.

Nú hefi ég talið upp tvennt, sem er harla einkennilegt og sker úr við venjulegan grundvöll við flutning mála á Alþingi. Þá kem ég að því þriðja. Hér er verið að setja tvennskonar lög í landinu. Menn eiga að fara að lifa við tvennskonar lög, eftir því hvort þeir lifa á Vestur-, Norður- og Austurlandi eða hvort þeir búa á Suðurlandi og suðurhluta Vestfjarða.

Þetta kemur einkennilega heim við það, þegar jafnframt er verið að tala um að jafna rétt landsmanna. Og þessi þm. hefir átt lofsverðan þátt í því að koma því máli áleiðis; en samtímis því er hann að flytja fram kröfu þess efnis, að menn á Vestur-, Norður- og Austurlandi eigi að lifa við allt önnur lög en þeir, sem lifa í hinum landshlutunum. Mönnum á Suðurlandi og suðurhluta Vestfjarða er gefin heimild til þess að veiða með dragnótum í landhelgi vissan tíma árs, þegar öðrum landsmönnum er bönnuð dragnótaveiði. Þetta er að setja tvennskonar lög. Ég sagði mönnum á Suðurlandi og suðurhluta Vestfjarða, en það fer eftir því, hvor leiðin er valin, því að í frv. stendur aðeins „á svæðinu frá Hjörleifshöfða til Látrabjargs“. (JJós: Þetta er óþarfa útúrsnúningur, hv. þm. veit, hvað við er átt). Það er hægt að velja tvær leiðir frá Hjörleifshöfða til Látrabjargs, það má fara austur og norður um land og einnig suður og vestur með landi. (JJós: Það er ekki drengilegt af hv. þm. að tala svona, eftir að ég hefi lýst yfir, að tvö orð:

„vestur um“ hafi fallið burt úr frv.). Ég vænti þess, að hv. þm. lofi mér að tala eða geri svo vel og fari út úr deildinni. Það mun nú vera ætlunin að fara vestur um land, og það eru þeir, sem þar lifa, sem eiga við þetta skipulag að búa. Þá eru hinir sjálfráðir, hvort þeir lúta núgildandi landslögum, en á þessu svæði eru ráðin tekin af mönnum. Hér er sagt skýrum stöfum, að það, sem heimilt er að gera á Vestur-, Norður- og Austurlandi, má ekki gera hér. Og þeir, sem eftir sem áður vildu vera trúir landslögunum, geta ekki fengið því ráðið. Þetta er að taka valdið af þeim, sem búa með ströndum Suðurlands og syðsta hluta Vestfjarða. Ég hefði ekki búizt við þessu á þeim tíma, þegar tilfinningar manna eru svo opnar fyrir, ef misrétti er beitt, og víðtækar ráðstafanir eru gerðar til þess að kippa því í lag, að á sama tíma skuli vera gerð tilraun til að taka ákvörðunarréttinn af nokkrum hluta landsmanna. (JJós: Hv. þm. gleymir því, að hann hefir áður barizt gegn því, að ákvörðunarréttur gilti gagnkvæmt). Hv. þm. getur alls ekki fóðrað sína framkomu með þessu háttalagi, því að ég hefi aldrei barizt gegn því á nokkru sviði. Hann er sjálfur frumkvöðull að þessari stefnu, sem þingið verður tafarlaust að kveða niður, og ég vona, að þegar hann nú hefir heyrt rök mín og fær aftur að taka til máls, þá taki hann frv. aftur. Löggjöf hvers lands er ekkert leikfang. Það er ekkert leikfang, þegar teknar eru ákvarðanir um persónulegan rétt landsmanna. Það er alvörumál, hvernig búið er um landsmenn í þessu efni. Það er eðlilegt, að landsmenn vilji hver á sínu svæði hafa íhlutun um það, hvort leyfa eigi eða hanna miskunnarlausa tortímingu alls ungviðis þeirra fisktegunda, sem hafa haldið landinu uppi. En ef þetta frv. verður að lögum, þá er landhelgin ofurseld einmitt á þeim svæðum, sem klakstöðvarnar eru mestar og dýrmætastar. (JJós: Þeir fiska þar sjálfir núna). Þeir fiska þar ekkert sjálfir. Það er nóg að setja þennan skrælingjastimpil á þá með löggjöfinni, þó að hv. þm. sé ekki líka að bera um þá lúðursögur, sem við ekkert hafa að styðjast. Nei. frv. er stórhættulegt og með því er verið að brjóta niður varnirnar fyrir fiskiþjóð eins og Íslendinga. Þetta er fjarstæða, fálm og vitleysa, að vera að skapa tvennskonar rétt í landinu. Og þegar þess er gætt, að þessi rányrkja á að gilda fyrir þau svæði, eins og Selvogsbankann, sem eru aðalklakstöðvarnar, þá er þetta svívirðilegt athæfi. Þar á að opna landhelgina, á dýrustu fiskimiðum landsins á að drepa allt kvikt, ungt og gamalt. Það væri alstaðar hættulegt, en hvergi eins og þar, sem á að skapa möguleikann fyrir þetta grimmdaræði. Það er alkunnugt af fiskifræðingum, að þarna eru ekki aðeins klakstöðvar fyrir fisk við Ísland, heldur einnig við Grænland, sem við höfum reyndar verið hirðulausir um. Óviðkomandi menn eins og Danir og Norðmenn hafa verið að toga þetta land á milli sín, sem er fornt íslenzkt land, en við höfum setið hjá. En þó við sleppum nú því, þá eru þetta, gagnvart fiski við Ísland, beztu og mikilvægustu klakstöðvarnar, og hér er verið að taka af mönnum ráðin um það, hvort þessi opingátt eigi að líðast eða ekki.

Þá hefi ég talið þrjú atriði, sem eru sérkennileg við flutning þessa máls, og þykist hafa gert þeim nokkur skil. (JJós: Kemur þá ekki 4. atriðið?). Jú, það kemur; hv. þm. þarf ekki lengi að keipa eftir því. Því þó oft hafi ef til vill bitið vel á krókinn hjá honum, þá hefir ekki oft bitið fljótar!

Það er þá tilhögunin á frv. Þetta er að vísu 1. umr. málsins og því ekki venja að fara út í einstök atriði frv., en ég vænti þess, að hæstv. forseti leyfi mér að bregða út af því í þetta skipti. Ég vildi þá minnast á 1. og 2. gr. frv. í núgildandi lögum stendur: „... skulu dragnótaveiðar bannaðar, með undantekningum þeim, sem 2. gr. nefnir“. Þetta er fellt niður úr frv. og þar með felld niður 2. gr., sem á að standa á eftir, en þegar búið er að fella þetta niður, þegar gr. er búin að missa þetta samband, þá er hún sjálf einskis virði. Þá er búið að kippa burt þeirri þýðingu, sem 2. gr. hafði. Í 2. gr. frv. felast undantekningar frá þessu banni, um að eigendum þeirra jarða, sem liggja að sjó, sé heimilt að veiða í landhelgi, eins og tíðkaðist fyrir 1882, með herpinót, enda þótt hún kunni að taka til botns. Ég get ekki betur séð en að með því að kippa þessu í burt úr 1. gr., þá séu a. m. k. ákvæði 2. gr. svo skert, þrátt fyrir það, þótt hún standi eftir í 1. frá 1928, að það yrði sennilega lítið á þeim að byggja. Og ég vil skjóta því sérstaklega til hv. 1. þm. S.-M., sem ég býst við, að muni leggja nokkuð upp úr því, að þessi ákvæði fái að haldast, því að þótt þau kunni að hafa þýðingu víða á landinu, þá munu þau þó sérstaklega geta haft þýðingu á Austfjörðum. Ég veit ekki, hvað hv. þm. hefir gengið til þess að taka þetta úr frvgr., ef það er ekki það, að skerða gildi og þýðingu 2. gr. 1. Ég vil aðeins benda á, að annaðhvort eru þetta mistök eða það er gert af ásettu ráði. En í hvorutveggja tilfelli mundi það samt, ef að l. yrði, koma í sama stað niður og hafa sömu áhrif.

Ennfremur vil ég benda á, að hv. þm. Vestm. — sem nú sést aftur hér í d. — vill fella niður úr 1. gr. ákvæði, þar sem skilgreining er gerð á því, hvað sé dragnætur. (JJós: Það verður lagað). Væri þetta fellt niður úr l. og ekkert kæmi í staðinn, þá yrði erfitt fyrir löggjafana, sem svo þyrftu að dæma um það, hvað teldist til dragnóta, að álykta um þetta. Ef þetta ákvæði væri fellt niður, sem ekki er ástæða til að gera ráð fyrir að nái samþykki, þá væri auðvitað engan veginn hægt að taka það öðruvísi en svo, að löggjöfunum hefði fundizt nauðsynlegt að leyfa að skafa upp hvern vog og hverja vík í landhelgi allt í kringum landið með þessum veiðarfærum. Ég veit ekki, hvað hv. þm. Vestm. gengur til að fara fram á slíkt. (LH: Honum gengur gott til). En menn geta nú misskilið það góða, alveg eins og hitt. Ég viðurkenni, að margt er gott til hjá þessum hv. þm., eins og sessunautur hans gaf orð um. En ef þessi góði ásetningur yrði framkvæmdur, yrði hann þó til stórtjóns, og mundi þá sannast hið fornkveðna: „Góð meining enga gerir stoð“. (BÁ: Gilda skal meira Péturs boð). Það er þess vegna svo um þetta atriði, þennan 4. lið, eins og um hina liðina, að hv. þm. hefir mjög mistekizt í samsetningi frv. þessa, ef það hefir verið meiningin fyrir honum að fella þetta atriði niður úr l.

Það er sagt frá þessu frv. a. m. k. í einu blaði hér, hvort sem hann gerir það nú sjálfur eða einhver annar, og þykir mér frásögnin alleinkennileg. Því þegar skýrt er frá efni frv., er sagt um leið, að með þessum hætti mundu opnast möguleikar fyrir sölu á töluvert miklu fiskmagni, allt að 1400 smálestum af þorski og flatfiski, ef þessar tilslakanir verða gerðar á löggjöfinni um dragnótaveiði. Það lítur svo út, eftir orðalaginu að dæma, að markaðurinn fáist ekki fyrir fiskinn, nema hann sé veiddur í dragnætur. Þetta eru nú sjálfsagt mistök á framsetningu efnisins hjá greinarhöfundi en ekki hitt, að meiningin sé sú, að samband sé á milli þess, hvernig aflinn sé veiddur, og sölunnar á honum.

Þar skal ég aðeins minnast á það, sem í grg. frv. stendur um aflamagn og fisktegundir til sölu í þetta sænska frystihús, sem sá maður stýrir, sem raunverulega stendur að þessu frv. og ritað hefir greinargerð þess að mestu leyti. Það, sem hann gerir ráð fyrir, er 700 smál. af þorski, 500 smál. af rauðsprettu, 100 smál. af sólkola og 100 smál. af lúðu.

Það leiðir nú af sjálfu sér, að það getur ekki verið nema að nokkru leyti, sem aflavon þessa fiskjar getur byggzt á dragnótaveiði, því að eins og kunnugt er, þá er a. m. k. mjög lítið veitt af þorski í dragnætur. Það getur aðeins viljað til, að fullorðinn þorskur veiðist þannig. En innan landhelgi hér sunnanlands er sáralítið af þorski á sumrin, fyrr en á útlíðanda sumri, þegar gildandi lög leyfa að nota dragnætur. Ég geri því ráð fyrir, að þessara ráðstafana þurfi ekki við til þess að hægt verði að veiða þetta þorskmagn, 700 smál. Vafalaust er auðvelt að fá þetta fiskmagn með annarskonar veiðiaðferðum. Því að þótt tregur afli sé á Faxaflóa nú, þá er það alkunnugt, að vestur undir Jökli og á öllum svæðum Faxaflóa veiðist töluvert af þorski í maí og fram í júní, og stundum lengur. Á þeim tíma, og án þess að fara að skafa landhelgina með dragnótum, hlýtur því að vera hægt að afla þessa þorskmagns.

Lúður veiðast ekki í dragnætur, ef þær eru stórar. Ef til vill smálúða, sem þá verður frekar að telja með kola. Kolinn veiðist alltaf töluvert mikið utan landhelginnar, a. m. k. veiða Englendingar mikið af honum, og Íslendingar ættu að hafa eins góða aðstöðu til kolaveiða sem þeir. Auk þess má benda á það, að heimilt er að veiða hann í landhelgi 3 mánuði ársins, þar sem annars er ekki lokað fyrir þá veiði, svo að ég geri ráð fyrir, að þetta magn mundi hæglega nást á þessum tíma, enda þótt landhelgin yrði ekki opnuð frekar en gert hefir verið. Það er nú reynsla um dragnótaveiðar í landhelgi hér við land, að ef farið er að stunda hér mjög mikið á vissum svæðum, þá helzt afli þar ekki svipað því eins lengi og lögum samkv. má veiða þar. Ekki stafar það af því beint, að þar sé þá búið að drepa allt lifandi, heldur hefir það, sem eftir var skilið, flúið vegna dragnótanna.

Ég vil nú láta það í ljós sem mína skoðun, að hagsmunum sjómanna yrði bezt borgið með því, að dragnótaveiði væri gersamlega bönnuð alstaðar í landhelgi vorri. Og að þetta er líka skoðun sjómanna og þeirra manna, sem eiga afkomu sína algerlega undir fiskveiðunum komna, sannast bezt með því, að þeir hafa víðast hvar, þar sem mest er stunduð bátaveiði innan landhelgi með öðrum veiðiaðferðum en dragnótum, kostað kapps um að útiloka dragnótaveiði frá landhelginni. Þeir hafa borið það skyn á þessa veiði að láta ekki stundarhagsmuni glepja sér svo sýn, að þeir hafi viljað vera með í að aðhafast það, sem skaðar þá í framtíðinni. Enn eru gildandi þau grundvallaratriði þessa máls, að sama hættan er um þetta, sem verið hefir, og sama nauðsynin á að fyrirbyggja hana gersamlega.

Mér er kunnugt um, að þetta frv. hefir vakið allmikla athygli hér í nærsveitunum, þar sem menn eru ekki fjær þinginu en það, að þeir geta komið boðum og talað við menn um þessi mál. Frá þessum mönnum er von á mótmælum gegn þessu frv. Þeir sjá ástæðu til þess. vegna mannréttinda sinna og atvinnuvegar. Þeir eru nú farnir að undirbúa óskir til þingsins um það, að þegar nú er búið að víkja frá þeim þessum beizka kaleik hér snemma á þinginu, þá verði ekki farið að bera þeim hann á ný, með því að þvinga þá til að beygja sig undir það ok og þá hættu og þá skaðsemd, sem þeim mundi stafa af samþykkt þessa frv.

Þetta þing er nú búið að sitja lengi á rökstólum, og ég býst við, að mönnum úti á landsbyggðinni sem annarsstaðar þyki seta þess engan veginn vera í samræmi við afköst þess, enn sem komið er. Ég veit, að hugir landsmanna beinast mjög að þeim óskum, að þessir síðustu dagar þess verði vel notaðir og að samkomulag bindist um heillavænlega lausn nauðsynjamálanna, sem enn eru óleyst. Væri mjög illa farið, ef þeir yrðu notaðir til að þvinga fram skaðræðismál sem þetta, sem á öndverðu þessu þingi var vasklega gengið fram í að vísa á bug. Við það voru engin vettlingatök. Það er oft dálítið viðkvæmnismál fyrir þingmenn að ganga beint á móti till. stjórnar, sem er studd af meiri hl. þings, en í þessu tilfelli var ekkert hik um að vísa málinu á bug og ganga þannig í berhögg við vilja stj., til þess að vernda mannréttindi og atvinnu fjölmargra sjómanna.