08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (4339)

70. mál, náttúrufriðun, friðun sögustaða og fl.

Flm. (Magnús Jónsson):

Undir þinglokin á síðasta þingi flutti ég frv. shlj. því, sem hér liggur fyrir hv. þd. Þetta frv. er flutt eftir tilmælum nokkurra félaga, sem láta sér annt um þessa hluti. Aðalefni frv. er í 9 fyrstu gr. þess, og ganga þær út á það, að lögvernda ýmsa staði og náttúrufyrirbrigði hér á landi, sem eru sérkennileg eða að einhverju leyti óbætanleg, ef skemmd væru. Það þykir ekki rétt að láta skeika að sköpuðu um slíkt, heldur leggja bann við því, að einstaklingar skemmi slíka staði eða fyrirbrigði. Ég get nefnt sem dæmi t. d. þekkta sögustaði eins og Þingvelli. Ef þeir hefðu ekki verið friðaðir, en verið einstaklingseign, þá hefði eigandinn vel getað séð sér hag í því að taka Öxarárfoss til virkjunar, tæmt Öxará ofan við Almannagjá og eyðilagt þannig fossinn. En þó hér hefði máske verið um þarfan hlut að ræða, þá sjá allir, hvílík óhæfa slíkt verk hefði verið.

En það eru fleiri staðir hér á landi en Þingvellir, sem þyrftu verndar með, af því nokkur hætta kann að vera á því, að annars yrði þeim breytt, annaðhvort af skemmdafýsn eða þá fyrir það, að eigendur sæu sér peningalegan hag í því að nota staðina. Í seinna tilfellinu yrði að bæta hlutaðeigendum þann skaða, er þeir yrðu fyrir vegna þeirra friðunarráðstafana, sem gerðar yrðu. Hér er um að ræða fyrst og fremst forna sögustaði, og svo örfáar menjar frá fyrri öldum, sem munu þó í engu landi vera jafnfátæklegar og hér, sökum þess hve byggingarefni forfeðra vorra var forgengilegt.

Ég get hér nefnt sem dæmi forna þingstaðinn í Hegranesi. Það væri hægt að hugsa sér, að héraðsbúar tækju upp á því að breyta honum, t. d. byggðu þar fjárrétt eða því líkt, en slíkt væri mjög illa farið og væri ástæða til að hindra með lagákrafti. Og það má hugsa sér náttúrufyrirbrigði eins og Geysi meðan hann var við lýði. Það hefði verið hrein og bein óhæfa að taka þennan merkilegasta hver jarðarinnar og virkja heita vatnið til hitunar eða hreint og beint að skemma hann af strákskap.

Í frv. er farið nokkru lengra en þetta. Þar eru fyrirmæli um verndun fágætra jarðmyndana, dýralífs og gróðurs. Slíkt væri auðvitað á hverjum tíma hægt að vernda með sérstökum lögum, en það má einnig gera með almennum l. Það má nefna geirfuglinn sem dæmi, þessa fágætu fuglategund, sem að síðustu var hvergi til nema á örfáum skerjum út af Reykjanesi, og var þar eyðilagður til fulls. Svo hefði ekki þurft að fara, ef til hefði verið löggjöf, er kom í veg fyrir slíkt með því að banna að afmá þennan merkilega fugl. Hið sama er að segja um ýmsar fágætar bergtegundir, sem ekki má eyðileggja, heldur á að vernda. Ég held því, að það orki varla tvímælis, að rétt er að setja lög um þetta efni, ef varlega er farið í sakirnar, eins og gert er í þessu frv. Í flestum tilfellum mundi verndun samkv. frv. ekki verða neinum til meins, en þegar svo væri, er gert ráð fyrir því, að þeir, sem fyrir hallanum verða, fái bætur fyrir. Um þessi mál á fyrst að fjalla n. skynsamra manna, síðan ráðh., og komi það í ljós, að þörf sé á því að vernda staðinn, þá á að koma fyrir hann sanngjarnt gjald til hlutaðeigandi manns og uppbætur á annan hátt, ef ástæður þykja til.

Í 10.- 14. gr. frv. er komið inn á önnur nokkuð óskyld atriði, sem komizt hafa inn í frv. fyrir tilstilli þeirra félaga, sem um frv. hafa fjallað, svo sem Hið íslenzka náttúrufræðifélag og Ferðafélag Íslands, er hafa skotið inn í það ýmsum þörfum ákvæðum, er þau hafa áhuga fyrir, svo sem um merkingu villifugla, auglýsingar á víðavangi, þrifalega umgengni á áningarstöðum o. fl. Ég held, að í raun og veru séu þessi ákvæði öll þörf og rétt að setja þau, þótt ég leggi ekki eins mikla áherzlu á það. Sú n., sem væntanlega fer með þetta mál, ef hv. d. vill láta það ganga áfram, getur þá náttúrlega þurrkað það út, sem hún telur þarflaust að setja lög um.

Ég skal ekki þreyta hv. þd. með lengri framsögu í þessu máli, sem er í raun og veru mjög einfalt, en ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað til allshn.umr. lokinni.