23.05.1933
Neðri deild: 81. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2647 í B-deild Alþingistíðinda. (4342)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég verð að lýsa allri ábyrgð af töf þessa máls á hendur hv. þm. Borgf. Ég hefi áður bent á, að ég ber þetta mál fram af brýnni atvinnuþörf sjómanna og verkamanna í landi, og skal ég sanna það. Vil ég þó áður víkja nokkrum orðum að hinni löngu ræðu hv. þm. Borgf. við fyrri umr. Skal ég þó ekki þreyta þingheim á því að andmæla þar öllu. Hann talaði mikið um, að málið bæri undarlega að, þar sem svipað frv. hefði verið fellt síðasta ár. Hneykslaðist hann á því, að ég skyldi svo koma með frv. í líka átt. Og ekki batnaði honum, er hann sá bréf það, sem prentað er með frv. og sænska frystihúsið sendi stj., þar sem henni eru tjáð vandræði sjómanna. Hv. þm. Borgf. þótti óviðeigandi, að ég skyldi taka upp mál, sem stj. hefði ekki viljað sinna. En þar er því til að svara, að þetta eru fyrst og fremst tilmæli frá sjómönnum og svo frystihúsinu. Þar að auki hefir hæstv. forsrh. sagt mér, að sér þætti þetta gott mál og þarft, og á hæstv. dómsmrh. hefir mér líka skilizt, að hann væri málinu hlynntur.

Þá breiddi hv. þm. sig út yfir þá firru, sem hann kallaði það að taka tillit til bréfs frá sænska frystihúsinu. Ég skal taka það fram, að ég hefi hér ekki borið hag frystihússins fyrir brjósti, þó að ég áliti það annars enga skömm. Ég hefi fyrir augum hagsmuni þeirra, sem við það skipta, en það eru sjómenn og aðrir aðilar hér á landi. Frystihúsið er opið til kaupa á 1400 tonnum fiskjar af bátum hér fyrir sæmilegt verð. Keflavíkursjómenn hafa sagt mér, að ef þeir hefðu fengið það verð fyrir fisk sinn í fyrra, þá hefðu þeir orðið allvel úti. Þá hefir það og mikla þýðingu, að hér í bæ fá margir verkamenn vinnu við frystihúsið. Í fyrra borgaði það verkamönnum 30 þús. kr. í laun fyrir hirðingu á 300 tonnum. Ef málið fengi framgang, þá gæti farið svo, að frystihúsið fengi 1400 tonn til verkunar, og myndi það þýða 140 þús. kr. til verkamanna hér. Þá má geta þess, að hér í Rvík er komin upp ný iðngrein, sem heitir kassagerðin, og smíðar hún kassa undir fisk. Ég hefi keypt mörg hundruð kassa þaðan, og hafa þeir gefizt vel. Frystihúsið þarf 28 þús. kassa undir l400 tonn af fiski. Hefir frystihúsið þegar pantað 5 þús. kassa, og yrði það meira, ef það fengi þessi 1400 tonn af fiski, sem ég gat um. Vinna sjálfsagt þó nokkuð margir menn að þessari kassagerð. Þá ber að taka tillit til þess, sem rennur til bæjarins og ríkisins í sköttum af þessari útflutningsvöru, og eins má líta á það, að frystihúsið skiptir því nær eingöngu við Eimskipafélagið. Flutningsgjaldið undir þessi 1400 tonn myndi nema um 100 þús. kr., sem renna myndu til Eimskipafélagsins. Ég veit, að hv. þm. Borgf. er sækinn maður í hverju máli og sést lítt fyrir, hvort sem hann talar um kartöflur eða dragnætur. En mér þykir ólíklegt, að hann geti sannfært hv. d. um það, að ég berjist hér fyrir útlendum hagsmunum, þó að ég vilji láta íslenzka sjómenn og verkamenn njóta þeirra hlunninda, sem hér er um að ræða.

Hvað þessa stofnun snertir, þá kemur hún ekki beinlínis málinu við, en hv. þm. hefir dregið hana inn í umr., og ég verð að líta svo á, að það sé mjög þörf stofnun í landinu. Hefir það kostað 2 millj. kr. að koma henni upp, og auk þess bættu eigendurnir við í fyrra 350 þús. kr. í forgangshlutabréfum. Ísframleiðslan er um 3 þús. tonn á ári, og er ísinn þar ódýrari en í Englandi og betri en tjarnarísinn, sem að líkindum lætur, svo að íslenzku togararnir skipta orðið nærri eingöngu við frystihúsið. Hv. þm. þekkir sáralítið til þess, sem hann er hér að ræða um, og það er eðlilegt. Það, að frystihúsið hefir tekið til starfa, gerir það að verkum, að menn suður með sjó og víðar hafa getað ísað fisk, þar sem þeir fengu góðan ís með sæmilegu verði. Og ef þessi stofnun legðist niður, mundi líklega standa bæði á mér og hv. þm. Borgf. að koma henni upp, a. m. k. hvað fjárafla til hennar snertir. Ég vildi gefa þessar upplýsingar um stofnunina, af því mér virtist hv. þm. vilja gera lítið úr henni.

Með frystingu og flökun á þorski var lagt í fyrra út á nýja braut af Bennett, sænska frystihússtjóranum, og þessi tilraun heppnaðist svo vel, að nú hefir verið beðið um meira. Það þætti gott á þessum tímum, ef hægt væri að segja um aðrar vörur, að kaupendurnir kæmu og segðu: Varan, sem við fengum frá ykkur í fyrra, var góð; við viljum fá meira. — Þegar málið horfir svona við, að ný atvinnugrein ryður sér til rúms og tækifæri gefast fyrir íslenzka fiskimenn að afla sér peninga, þá rís hv. þm. upp með offorsi og ber mér það á brýn, að ég sé að bera hagsmuni erlendrar stofnunar fyrir brjósti. Ef maður kemur frá Bilbao hingað til þess að kaupa fisk í eigin hagsmunaskyni, og við greiðum fyrir honum, erum við þá að vinna fyrir útlendinga? Hér er hliðstætt dæmi. Við berjumst fyrir gagnkvæmum hagnaði beggja aðila. Og þetta er eina stofnunin, sem getur boðið sæmilegt verð fyrir kola. Frv. er miðað við það, að vandræði eru að selja ferskan fisk um hásumarið. Það er ekki fyrr en liður fram á haustið, að það borgar sig að senda kola og þorsk til Englands. En þarna er tækifæri, eina tækifærið, sem við höfum, og við ættum ekki að sleppa því.

Hv. þm. Borgf. sagði, að ekki þyrfti að breyta banninu á dragnótaveiðum í landhelgi til þess að veiða þorsk. Það er alveg rétt, að þorskinn má veiða á annan hátt. En hv. þm. gætti ekki að því, að þorskflakið er selt mjög ódýrt, svo að það ber ekki uppi kostnaðinn á útlendum markaði. Sendingin þarf að vera blönduð, bæði af því, að útlendingar vilja hafa hana blandaða, og svo af því, að aðalhagnaðurinn er af flatfiski. Meginhlutinn er þorskur, og það er stefnt að því að auka þorsksendingarnar, en það verður þó alltaf að hafa flatfisk með, til þess, ef svo mætti segja, að krydda sendinguna með. Ég veit ekki, hvort þetta hefir gengið inn í höfuðið á hv. þm. Borgf., en vona þó, að honum skiljist þetta, ef hann hugsar sig vel um. Ef Íslendingar segðu sem svo: Þið getið fengið nóg af þorski, en þið verðið að búa við hann einan, — þá er sú hætta á, að þeir fáist ekki til að breyta til um það, og þá er hætt við, að áhugi þeirra útlendinga, sem lagt hafa og leggja fé í þessa stofnun, haldist ekki við, þegar vitanlegt er, að ekkert græðist á henni; og við getum ekki búizt við því, að þeir haldi slíkri stofnun áfram í útlendu landi, ef þeir tapa fé á því, og ef þeir, sem ætla sér að vinna þetta framtíðarríki, koma ekkert til móts við þá.

Hv. þm. Borgf. hélt einn af sínum feikilega löngu fyrirlestrum, og skipaði hann sér í flokk, þar sem bábiljur og villukenningar sitja í fyrirrúmi. Það er einmitt svo, að þeir, sem minnst þekkja til, berjast kröftuglegast á móti. Þetta átti sér einnig stað í Noregi, við Jaðarinn. Þar var lagt bann við dragnótaveiðum, og þegar átti að slaka til með það, þá voru það þeir, sem hvorki áttu dragnætur né komu nálægt veiðinni, sem andmæltu mest og heiftúðugast. Sama er hér uppi á teningnum. Andúðin kemur mest þaðan, sem engin dragnót er til og engin dragnótaveiði er stunduð. En við í Vestmannaeyjum og fleiri þekkjum þetta og vitum, hvílíkt nauðsynjamál þetta er. Hv. þm. skipar sér á bekk með þeim mönnum, sem öfgakenndastir eru og ófróðastir um þessi mál. Ég get í þessu sambandi minnzt á bréf Guðmundar í Gerðum, sem hv. þm. las hér upp á síðasta þingi. Ég minntist á þetta bréf við Guðmund einu sinni, þegar ég hitti hann, og sagði honum, að ég væri alveg hissa, hve mikilli fjarstæðu og vitleysu hann hefði getað hrúgað saman í þetta eina bréf. Guðmundur brosti og sagði : „Það dugði nú samt, þó vitlaust væri“, — þingið gleypti það fyrir því.

Hinsvegar er álit fiskifræðinga, að dragnótaveiðin sé hættulaus. Hún eyðir ekki öðru en þeim fiski, sem veiðist í það og það skiptið. Ég get því ekki fallizt á, að það veiðarfæri eigi að vera fordæmt fremur en önnur, t. d. eins og línur, sem vitanlega drepa þann fisk, sem á þær veiðist.

Þá talaði hv. þm. um klakstöðvarnar vítt og breitt, og talaði í því sambandi um Selvogsgrunnið. En þessi breyt. snertir alls ekki Selvogsgrunnið, svo að hv. þm. getur verið rólegur með sínar klakstöðvar þar, þó að þetta frv. verði að lögum.

Ég vil ekki vera að eyða orðum að því, þó að hv. þm. væri að reyna að hengja hatt sinn á það, að hann vissi ekki, hvora leiðina ætti að fara frá Hjörleifshöfða til Látrabjargs. Ég hafði skýrt frá því áður, að tvö orð hefðu af vangá fallið úr frv., og er því óþarfi af hv. þm. að vera stöðugt að stagast á því.

Sjútvn. hefir haft málið til meðferðar og lagt fram nál. á þskj. 763. N. er öll sammála og leggur til, að frv. verði samþ. með smávægilegum breyt. (PO: Tveir nm. hafa skrifað undir með fyrirvara. Hvað merkir það?). Það er víst eitthvað smávægilegt. N. er ekki eins og hv. þm. Borgf., að hún vilji leggja bann á allt. (PO: Það ætti að leggja bann við, að hv. þm. Vestm. fengi að reka erindi útlendinga). Ég er búinn að sanna með tölum, að þetta eykur stórkostlega atvinnu verkamanna í landinu, t. d. við kassagerð hér í Rvík, auk þess sem Eimskip fengi 100 þús. kr. í aukna fragt. Þetta getur hv. þm. ekki hrakið.

Hv. þm. komst inn á réttlætismál í þessu sambandi og vildi halda því fram, að með þessu frv. væri verið að koma á misrétti í landinu. Hv. þm. þarf ekki að vera að taka svo djúpt í árinni; hann hefir sjálfur oft barizt fyrir samskonar misrétti, eins og hann kallar það. Hvernig var það t. d. með mjólkursölufrv.? Og hver hefir barizt fyrir því, að Faxaflói yrði lokaður fyrir togaraveiðum? Hv. þm. Borgf. hefir slegið sér upp á því að loka Faxaflóa, en hefir hinsvegar ekki lagt til, að öðrum flóum, eins og Breiðafirði, Húnaflóa og Skagafirði, yrði lokað fyrir togurum. Þarna hefir hv. þm. gengið á undan með góðu eftirdæmi. Ég segi þetta ekki af því, að ég hefði ekki óskað eftir því, að Faxaflóa yrði lokað, heldur bendi ég aðeins á þetta, svo að menn sjái, að hv. þm. þarf ekki að reiða öxi svo hátt í þessu máli, þar sem hann sjálfur hefir stuðlað að misrétti. Ég hefi líka séð dæmi til, að hv. þm. vildi ekki hafa jafnan rétt í öllum landshlutum einmitt um dragnótaveiðar. Ég fór fram á það, að ákvæði 8. gr. yrði gagnkvæmt, þ. e. a. s. eftir sömu reglum, sem mætti loka landhelginni, mætti einnig opna hana. Ég var með þessu þá, og þótti sanngirni mæla með því, en þá barðist hv. þm. á móti því með sama offorsi og hann berst nú á móti frv. Ég held því, að ég geti vísað heim ásökunum í þessu efni.

Á Gerðum í Garði er klakstöð fyrir svæsnustu andmæli gegn dragnótaveiðum. Á fundi, sem þar var haldinn 1931, var því haldið fram, að ekkert mundi veiðast þar fyrir utan af því, að dragnætur höfðu verið notaðar það árið. En hvað kemur á daginn? Árið 1932 aflaðist einna bezt þorskur í Garðsjó, eftir, því, sem Árni Friðriksson fiskifræðingur sagði mér eftir greinargóðum sjómanni þar. Reynslan bendir því ekki á, að dragnótaveiði sé hættuleg eða skaðleg fyrir fiskiveiðarnar. Í gær hitti ég alkunnan aflamann úr Eyjum, sem stundað hefir dragnótaveiði. Hann var þeirrar skoðunar, að allar mótbárur á móti dragnótaveiðum væru bábiljur og vitleysa. Í morgun hitti ég reykvískan sjómann, sem lét í ljós sömu skoðun. En hv. þm. sækir ekki fróðleik sinn til þeirra manna, sem kunnugir eru dragnótaveiðum. Ég heyri sagt, að á Akranesi sé lítið af bátum, sem sinni dragnótaveiðum, og því er ekki von, að þar sé mikill áhugi fyrir þessu. En þegar ég á tal við þá menn, sem fiska með þessum tækjum, þá er alltaf sama hljóðið í þeim.

Hv. d. er víst orðin langþreytt á þessu dragnótatali, en ég varð að sýna fram á mestu vitleysurnar hjá hv. þm., enda þótt ég viti, að hann lætur ekki sannfærast. Ofurkapp hans er þekkt og skapgerð hans þannig, að hann lætur ekki undan fyrr en í fulla hnefana.

Ég hefi borið þetta frv. fram vegna þess, að það er hagsmunamál fyrir íslenzka verkamenn og sjómenn, og vegna þess, að hér er um nýja iðngrein í fiskiútflutningi að ræða, og ég hefi álit okkar færustu manna í þessu efni og styðst við það, sem reyndustu fiskimenn hafa sagt mér. Hv. þm. Borgf. hefir bábiljur og vitleysur þeirra manna, sem lítið þekkja til, en hafa bitið sig í að vera andstæðingar dragnótaveiða hvar sem er.

Svo getur hv. d. gert við þetta mál eins og henni sýnist. En það er hart, þegar barizt hefir verið fyrir milljóna kreppuráðstöfunum handa landbúnaðinum og því máli fljótt sem unnt var í gegnum deildina, að þá sé þetta mál, sem er lítil hagsbót eða tilslökun, tafið með frávísun og frestun og málþófi þvert ofan í fulla skynsemi. Hv. þm. minntist á það, að seta þingsins væri orðin löng og margt óleyst enn, en ég teldi, að þetta þing skildi betur við, ef það samþ. þetta frv. heldur en ef það felldi það.

Hv. sjútvn. hefir prentað upp áskorunarskjalið, sem ég minntist á áður, þar sem skorað er á stj. að gefa út bráðabirgðalög í anda frv. Þar með eru hrakin ummæli hv. þm. Borgf. um það, að frv. hafi haft lítinn byr hér í deildinni, því að 22 þm. hafa skrifað undir áskorunina. En þegar frv. var borið fram, gekk hv. þm. Borgf. með bekkjum og bað menn að neita afbrigðum. Og við, sem vildum hafa frv. fram, vorum ekki nógu harðir. En nú horfir málið nokkuð öðruvísi við: Hér er um tryggan markað að ræða fyrir mikið af fiski, ef dragnótaveiðin verður leyfð, og verðið betra. Vænti ég því, að hv. þdm. taki nú rétta afstöðu til málsins, þótt þeir tækju ranga afstöðu í fyrravetur, og frv. verði samþ.