23.05.1933
Neðri deild: 81. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2653 í B-deild Alþingistíðinda. (4343)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það má dálítið sjá, hversu áhrifarík og sannfærandi ræða hv. þm. Vestm. hefir verið, á því, að honum hefir tekizt að hafa þau áhrif á hæstv. forseta, að hann er nú farinn að dotta. Slíkt hefir aldrei komið fyrir fyrr í þau 20 ár, sem ég er búinn að vera þm., að forseti hafi dottað í forsetastóli. Er þetta því meira, sem hæstv. forseti er kunnur að ötulleik hér á þingi, eins og við öll sín verk. Það er þó ekki hægt að segja, að hv. þm. Vestm. hafi ekki látið skína sinn myndugleika, því að meira mont og sjálfsálit hefi ég ekki séð né heyrt, utan þings né innan, heldur en kom fram hjá hv. þm. Vestm. í ræðunni, sem hann var að enda við. Allt, sem ég og aðrir segja, við, sem höfum grundvallaða skoðun á þessu máli — allt, sem við segjum um þetta, er að hans áliti hjóm og bábiljur og öfgar — og ég man ekki að telja öll þau óvirðingarorð, sem þessi hv. þm. lét falla um okkar skoðanir. En hjá honum var vizkan, þekkingin og forsjónin fyrir heill og velfarnan lands og þjóðar og umhyggjan fyrir því, að þingstörfin yrðu vel af hendi leyst. Þetta vizkukertisljós sitt lét þessi hv. þm. nú skína í þessu máli, þegar hann flutti erindi sænska frystihússtjórans.

Þessum hv. þm. gagnar ekkert að vera að véfengja þá skoðun, sem ríkt hefir frá öndverðu, að það sé mikilsvert að verja landhelgina. Sú skoðun stendur á fastari grundvelli hjá íslenzku þjóðinni heldur en svo, að hv. þm. geti feykt henni burt með sínum vindhöggum.

Síðan dragnótaveiði byrjaði hér hjá okkur, hefir mikið kapp verið á það lagt, líka af hv. þm. Vestm., þótt hann sé nú farinn að draga nokkuð í land í því efni, að verja stærstu landhelgissvæðin kringum landið, sem eina helztu og tryggustu undirstöðu undir tryggasta atvinnuvegi landsmanna. Í landhelgisvarnastefnunni tók þessi þm. mikinn þátt, þó að við, hinir gömlu samherjar hans, þurfum nú að fara að verja landhelgina fyrir honum. Það er mjög leiðinlegt, þegar fulltrúar þeirra manna, sem eiga alla sína afkomu undir sjávarútveginum, bregðast svo hrapallega skyldu sinni í þessu starfi eins og hv. þm. Vestm. nú, að þeir ganga fram fyrir opna skjöldu til þess að reyna að snúa þinginu af þeirri braut, sem það hefir verið á að undanförnu, að verja landhelgina sem eitt hið dýrmætasta verðmæti þessa lands. (JJós: Það er ræða til um þetta eftir hv. þm. í Alþt. frá í fyrra). Það er ekki vanþörf á að halda aftur slíka ræðu um þetta, sem tilraun til að leiða hv. þm. til hins rétta vegar, því vitað er, að hann kunni áður skyn á því að vera réttu megin í þessu máli. Þess vegna vil ég ekkert til spara, sem gæti e. t. v. frelsað hans fortapaða skilning í þessu máli.

Það virtist hneyksla mjög hv. þm., að ég hefi farið fram á, að mál þetta verði tekið af dagskrá nú, til frekari athugunar, áður en atkvgr. fer fram. En nál. var ekki útbýtt fyrr en nú á fundi. Hv. þm. hefir upplýst, að hann hafi verið búinn að semja nál. áður en málinu var vísað til n. Þetta er náttúrlega lofsvert framtak, ef það, sem liggur til grundvallar fyrir því, er eins lofsvert. (JJós: Þar er barizt fyrir réttu máli). „Barizt fyrir réttu máli!“ segir þm., af því að hann veit ekki skil á réttu og röngu. Þótt ég sé ekki vel kunnugur störfum í sjútvn., þá þykist ég þess viss, að hjá henni muni vera nokkuð af málum, sem vísað var til hennar snemma á þingi, sem þarfara hefði verið að sinna nú. (JJós: Allt er afgr. frá n.). Athuga mætti það síðar. Hér er um að ræða stórt mál. Og það hefir ekki verið venja hingað til að fara þannig að í stórmálunum, að heimtað hafi verið að atkvgr. færi fram á þeim sama fundi, er nál. var útbýtt um málið. Því er svo háttað í okkar þingsköpum, að aðalathugun mála er lögð í skaut nefnda. Það er því ekki hörð krafa, þótt farið sé fram á það, að þm., sem ekki hafa aðstöðu til að athuga mál á meðan á þingfundi stendur, sama fundinum og nál. er útbýtt á, — og sumir vilja einnig láta greiða atkv. um málið á þeim fundi —, fái frest til frekari athugunar á málinu áður en þeir greiða endanlega atkv. um málið. Hæstv. forseti hefir skotið úrskurði um þetta til hv. d., og er því fullkomlega hreinn af ranglæti í þessu efni. Þó hefir þessi regla verið gersamlega brotin í dag, með því að taka mál þetta til umr. áður en hv. dm. hafa átt kost á að athuga það, sem n. hefir gert í því.

Ég þakka hv. þm. Vestm. fyrir það, að nú hefir hann rétt út hönd sína og fengið mér mynd af skarkola og bók, sem inniheldur töluverðar upplýsingar um þetta mál. En reyndar hefi ég ekkert honum fyrir að þakka annað en pappírinn í bókinni, því efni hennar er mér áður vel kunnugt. Annars felst ekki sérlega mikil umhyggja í því að rétta mér bók, sem er full af fróðleik, mitt í ræðu minni. Ég held, að ég verði því að afhenda hv. þm. þessa bók aftur, með þakklæti fyrir þessa hugulsemi.

Hv. þm. hefir fært hér fram ýmsar tölur, til þess að reyna að gera það sennilegt fyrir hv. þdm., að hér sé um mikið hagsmunamál að ræða, sem ekki sé hægt að ganga á snið við. Jú, það er hagsmunamál, en hagsmunamál útlendinga, sem ekki er komið inn á þetta þing fyrir tilstilli stj., eins og ég þegar hefi bent á. Hæstv. stj. hefir ekki sýnt vilja sinn í að sinna þessu máli á stjórnskipulegan og þinglegan hátt. Ég skal náttúrlega ekkert segja um, hvað hæstv. ráðh. kunna að hafa sagt prívat við einstaka þm., en stj. hefir ekki litið svo á, að það væri þess vert að gera neitt fyrir framgang þessa máls. Enda fékk hæstv. stj. þá útreið í vetur hér á þingi í þessu dragnótamáli, að það var ekki von, að hún færi nú að ganga svo í berhögg við yfirlýstan vilja þingsins, að hún færi nú að fitja upp á þessu máli á ný.

Þeir hv. þm., sem hafa skrifað nöfn sín undir þetta skjal, sem hv. þm. var með, hafa verið flekaðir til þess með fölskum málflutningi. Þessi aðferð hv. þm. Vestm. er gersamlega ósæmileg. Hann svífist einskis utan þings, og gengur líka langt á þingi í að reyna að knýja málið fram, með því að knýja hv. þm. til þess að greiða því atkv. þvert á móti undirskrift þeirra. Lengra verður ekki komizt í þessa átt. Þess vegna var það ekki ofmælt hjá mér á dögunum, er ég sagði, að þetta mál kæmi eftir undarlegum leiðum inn á þing.

Ég býst við, þótt ég reyndar hafi ekki rannsakað sögu þingsins frá endurreisn þess, að það sé einsdæmi, að mál, sem borið hefir verið fram á þingi og búið er að vísa á bug, sé tekið aftur fyrir á því sama þingi. En hér er um slíkt að ræða. Þótt orðalag þessa frv. sé dálítið breytt frá því, sem var í vetur, þá er hér algerlega sama málið á ferð.

Þegar hv. þm. þurftu að greiða atkv. um þetta mál í vetur, og leggja sál og samvizku að veði fyrir sannfæringu sinni, þá sneru þeir algerlega baki við þessu, og greiddu nógu margir atkv. á móti málinu til þess að fella það. Þennan lista, sem prentaður hefir verið í nál., yfir nöfn hv. þm., birtir hv. þm. Vestm. því einungis til þess að gera þingbræðrum sínum til háðungar. (JJós: Nöfnin voru birt af því, að hv. þm. sagði, að það væru „nokkrir menn“). Nei, aðeins þeim til háðungar, og lengra er ekki hægt að ganga í því að misbjóða samverkamönnum sínum. Vonandi muna þeir þetta, þegar hv. þm. Vestm. biður þá um undirskrift sína næst, hvernig hann launar þeim undirskrift þeirra í fyrra, er þeir nú hafa tekið aðra afstöðu.

Það hefir verið talað um það hér, að þetta sænska frystihús sé reiðubúið til að kaupa fisk fyrir svo og svo stóra fjárhæð, og að afleiðingin verði sú, að verkamenn hér í Rvík fái 30 þús. kr. í verkalaun, Eimskip 100 þús. kr. í flutningsgjöld, og annað þess háttar á að vinnast við dragnótaveiðarnar í landhelginni. Hér bregður hv. þm. ekki sínum gamla vana, því að í meðferðinni á þessum tölum gengur hann á snið við sannleikann, svo sem frekast má verða, því að einungis er hægt að halda fram þessum tölum, að á því velti öll þessi viðskipti sænska frystihússins, hvort þetta frv. verður samþ. eða ekki. Nú hefir þetta félag starfað að því að kaupa fisk og flytja út, og er það virðingarverð tilraun af félaginu. En þau kaup, sem það hefir gert á fiski að undanförnu, hafa engan veginn byggzt á dragnótaveiðum. Þorskur veiðist ekki í dragnætur, nema grindhoraður, sem ekki getur hreyft sig. Allir fullorðnir þorskar, sem geta hreyft sig í sjónum, skriða undan dragnótinni. Það er fals og blekking að halda því fram, að með þessu eigi að veita fé inn í landið, eða að setja þetta atriði á neinn hátt í samband við frv. (JJós: Ég er áður búinn að svara þessu). Hv. þm. getur ekkert annað gert en að éta það ofan í sig, að þessi viðskipti byggist að nokkru leyti á dragnótaveiðum.

Þá er talað um, að frystihúsið geti keypt 100 smálestir af lúðu. Ójá, mér er sem ég sjái hv. þm. Vestm. veiða stórlúðu í dragnót. (JJós: Stórlúða er sérstök markaðsvara). Það eru aðeins smávegis lúðulok, sem hægt er að draga upp með nót. En stóra lúðan er veidd á skötulóð og haldfæri, svo að ég taki hv. þm. á kné mér og fari að kenna honum um einfaldar greinir fiskveiðiaðferða.

Nei, það sem í þessu sambandi getur komið til mála að veiða í dragnót, er kolinn. Englendingar veiða mikið af kola hér fyrir utan landhelgina, og ef Íslendingar sýna eins mikla ástundun við það, geta þeir það auðvitað líka. Gildandi lögum samkvæmt má þar, sem ekki eru héraðssamþykktir á móti því, veiða kola hér í landhelginni með dragnót í 3 mánuði að haustinu. En það þarf ekki alla mánuðina september, október og nóvember til þess að uppyrja landhelgina af kolanum. Þegar búið er að sarga leirbotn landhelginnar, þar sem kolinn heldur sig, í svo sem mánuð, þá er þar ekki meiri kola að fá að því sinni, því að þá er búið að draga upp það, sem þar var til af verðmætum kola, og þar veiðist hann ekki aftur fyrr en næsta ár. Af þessum ástæðum er það hreinasta fjarstæða að álíta, að gera verði þær tilslakanir, sem farið er fram á í frv., til þess að þessi tiltekna kolasala geti átt sér stað. Aftur er það svo víðsvegar um land, þar sem útgerð er á vertíðum rekin á vélbátum og stórum skipum, að þeirri veiði er hætt í maí, og þá fara menn að veiða á trillubáta og vélbáta með línu, handfæri og þess háttar. Á þann hátt veiðist mikið af fiski, sem góður er til allra nota, þar á meðal til að selja hann sænska frystihúsinu. Og það er óyggjandi reynsla fengin fyrir því, hvað sem hv. þm. Vestm. segir, að dragnótaveiðin stórskaðar og eyðileggur jafnvel sumstaðar alveg þann veiðiskap. Hv. þm. þarf ekki að byggja á minni sögusögn einni um það. Það liggur hér fyrir skýrsla í tímaritinu „Ægi“ frá fiskierindrekanum á Vestfjörðum, þar sem hann segir, að dragnótaveiðin þar á síðastl. hausti hafi eyðilagt veiðina á línu og færi. Það var þannig ekki nóg með það, að þeir, sem dragnótaveiðarnar stunduðu, töpuðu sjálfir, heldur eyðilögðu þeir líka lífsmöguleikana fyrir hinum, sem veiddu með venjulegum veiðarfærum.

Hv. þm. Vestm. hefir alltaf talið sínum málstað mikla stoð í forseta Fiskifélagsins. En hann hefir einnig viðurkennt, að dragnótaveiðarnar við Faxaflóa síðastl. ár hafi lítinn árangur borið. Hann segir að vísu, að einstaka menn hafi borið nokkuð úr býtum, en hann getur auðvitað ekki um hitt, hvað mikilli eyðileggingu dragnótaveiðarnar ullu á veiðiskap annara. Það er vitað og víst, að þó einhverjum kunni að hafa eitthvað áunnizt við dragnótaveiðarnar, þá hafa þeir valdið öðrum fiskimönnum skaða, sem nemur miklu meiru. (JJós: Hvernig getur hv. þm. sannað það?). Hv. þm. leggur víst ekki mikið upp úr vitnisburði Guðmundar bónda í Gerðum, þar sem hann býr beinlínis til smánaryrði um Alþingi, sem þessi maður á að hafa sagt. En það logaði þó það á týrunni hjá samvizku hv. þm., að hann sagði á eftir, að Guðmundur hefði nú raunar ekki viðhaft þessi orð. Og þar sem hv. þm. gerir þessum manni upp óvirðingarorð um Alþingi, sem gætu jafnvel hnekkt áliti hans, þá er honum eins trúandi til að snúa út úr hugsun hans eða þeirri meiningu, sem orðin áttu að byggjast á.

Guðmundur þessi er hinn mætasti maður og allra manna kunnugastur fiskiveiðum hér um slóðir fyrr og síðar, enda hefir hann stundað sjó sem háseti og formaður um 40 ára skeið. Hann er greindur maður og gætinn, eins og hv. þm. munu kannast við af afskiptum hans af fátækramálum og öðru, sem hann hefir látið til sín taka. Er því óhætt að taka fullt tillit til athugana hans á því sviði, sem hér er um að ræða. Og það er með öllu óviðeigandi af hv. þm. Vestm. að ganga svo langt í því að ófrægja þennan mann, að hafa hér eftir honum orð, sem hann hefir aldrei sagt. Guðmundur er staddur hér í Rvík núna; ég skrifaði hjá mér þau orð, sem hv. þm. hafði eftir honum, og skal komast eftir, hvað hæft er í því, sem hv. þm. segir, að þeim hafi farið á milli.

Guðmundur stendur svo sem ekki einn uppi með skoðun sína á afleiðingum dragnótaveiðanna, eins og sést bezt af fundi þeim, sem hv. þm. segir, að fiskifræðingurinn, sem hann vitnar svo oft til hér, hafi verið á suður í Gerðum. Þar fékk fiskifræðingurinn ekki aðeins Guðmund, heldur og almenningsálit sjómannanna upp á móti sér. En hann hélt svo fast við sín vísindi, að hann taldi reynslu sjómannanna ekki annað en bábilju. Það má vera, að hv. þm. hafi sótt til þessa fræðimanns eitthvað af þeim óvirðingarorðum, sem hann notar hér um andstæðinga sína í þessu máli. Ég þekki ekki munnsöfnuð fiskifræðingsins, en ef til vill er svo mikill andlegur skyldleiki milli hans og hv. þm. Vestm., að blætt hafi tveimur æðum saman hjá þeim á þessu sviði. (JJós: Ég benti á, hvað reynslan hefir sannað á síðastl. ári). Já, hún hefir sannað það, að það hefir ekki alveg tekið fyrir allar fiskigöngur á miðin. En hv. þm. sættir sig kannske ekki við minna en að miðin séu svo gersamlega uppurin; að ekki þori upp frá því nokkurt kvikindi sjávarins að lepja þar strauminn. Enn er ekki svo komið, sem betur fer. En hvað hefir þá skeð? Ekki annað en það, að þegar farið var að nota dragnæturnar, tók alveg fyrir smábátaveiðina á ýmsum stöðum. Ég hefi lýst því, hver reynslan varð hér við Faxaflóa og á Vestfjörðum, og ég get skírskotað til þess, sem hv. þm. N.-Þ. sagði um reynsluna fyrir norðan. Hún er sú sama og annarsstaðar, að þegar útlendingar fóru að veiða með dragnótum í landhelgi, tók gersamlega fyrir veiði hátanna úr landi. Hvernig getur svo hv. þm. Vestm. gert þá kröfu til manna, að þeir loki augunum fyrir þessum staðreyndum, sem eru jafngamlar dragnótaveiðunum hér við land? Vísindi og allt þessháttar eru auðvitað mikilsverðir hlutir, en hinsvegar er það prófsteinn á gildi allra vísinda, hvort þau standast dóm reynslunnar. Þau „vísindi“, sem ekki standast dóm reynslunnar, eru engin vísindi, heldur hundavaðsháttur einstakra manna, sem ekkert gildi hefir. Sú vísindakenning, sem hv. þm. Vestm. vill styðjast við í þessu máli, gengur í berhögg við staðreyndir. Og hann má ekki ætla sér þá dul, að hann sé gæddur þeim andans krafti umfram aðra menn, að hann geti leyft sér að knésetja þá reynslu, sem fengizt hefir víðsvegar með ströndum landsins, jafnvel þó hann beri fyrir sig einhverja vísindamenn. Þó hann velji þeim; sem bera fram dóm reynslunnar í þessu máli, ýms óvirðingarheiti, hrín það ekki á þeim, heldur varpar fremur skugga á hv. þm. sjálfan. (JJós: Þetta er tómt bull og vitleysa). Hvað sagði hv. þm. í ræðu sinni? Hvaða orð valdi hann okkur, sem aðra skoðun höfum á þessu máli heldur en hann? Ef hann vill nú éta það allt ofan í sig, þá segi ég bara: verði honum að góðu. Þetta var óneitanlega hálfgert hráæti og ómeti, svo ég get ekki betur gert en óskað, að það verði honum að góðu.

Það er fullkominn möguleiki til að fylla þann markað, sem fyrir hendi er, án þess að farið sé að skerða eða jafnvel eyðileggja atvinnumöguleika þeirra, sem smábátaútveg stunda, með því að leyfa dragnótaveiðar í landhelgi. Reynsla síðasta árs sýnir meira að segja, að það eru miklu minni líkur til þess, að markaður sá, sem sænska frystihúsið hefir upp á að bjóða, verði notaður til fulls til hagsmuna fyrir landsmenn, ef frv. þetta er samþ. Það er áreiðanlega betra að lofa bátunum að vera í friði með línur sínar, net og handfæri, því með þeim tækjum berst miklu meira verðmæti á land heldur en dragnótunum, sem eyðileggja miklu meira heldur en með þeim veiðist.

Þar við bætist svo það, sem oft hefir verið minnzt hér á, og vitanlega er stærsta atriðið í þessu máli, en það er rányrkja sú, sem framkvæmd er með botnvörpum og dragnótum. Það er hún, sem bann gegn botnvörpu- og dragnótaveiðum í landhelgi byggist á frá upphafi, bæði hér og annarsstaðar, sem landhelgi er friðuð, sem er alstaðar þar, sem nokkur litur er sýndur á að hlúa að fiskiveiðum. Sumstaðar er friðað miklu stærra svæði en hér, allt upp í 6 mílur frá landi, eins og er við Spánarstrendur.

Hv. þm. dró mjög dár að því, að ég minntist á Selvogsbanka í sambandi við þetta mál. Honum ferst. Hann er svo sem ekki einn um það hér á landi að hafa lifað og dafnað vel af fiski. En hans góða afkoma á rót sína að rekja til Selvogsbanka. (JJós: Hvað kemur hann þessu máli við?). Ég kem nú að því. Hv. þm. ætti að vita það, að það er ekki nóg að hafa Selvogsbanka. Á Selvogsbanka koma úr kviði fiskjarins, svo ég tali nú alþýðlega um þessa hluti, örsmá hrogn í milljónatali, sem eru hinir fyrstu lífneistar hinnar nýju fiskkynslóðar, sem afkoma landsins byggist að miklu leyti á. Þessar lífverur þurfa sérstök skilyrði til þess að geta vaxið upp og orðið nytjafiskar, og þau skilyrði eru ekki fyrir hendi á Selvogsbanka. Þess vegna koma hrognin upp á yfirborðið og berast með straumnum norður um land. Svo þegar þessar litlu verur eru búnar og fá sporð og ugga og orðnar þess umkomnar að „praktisera“ á eigin spýtur í sjónum, þá draga þær sig þangað, sem er nægileg hlýja og önnur lífsskilyrði fyrir þær, en það er víðsvegar með ströndum landsins innan landhelginnar. Á þessu byggist, að verið er að friða landhelgina. Þar er verið að skapa þessum ófullkomna skapnaði lífsskilyrði meðan hann er veikur og vanþroska, svo hann geti dafnað og orðið fær um að taka á móti hinum óblíðari náttúruöflum, þegar haustar. Þess vegna er fullkomið samband á milli Selvogsbanka og hinnar friðuðu landhelgi, og standa orð mín þar að lútandi óhögguð. Það er sá hluti landhelginnar, sem næst liggur Selvogsbanka, sem hv. þm. vill nú taka út úr og gera að fótaþurrku ekki aðeins rányrkju innlendra manna, heldur einnig Dana og Færeyinga. Þeir hafa, eins og menn vita, jafnan rétt landsmönnum sjálfum, en það, sem haldið hefir þeim frá dragnótaveiðum hér, er það, að þær hafa ekki verið leyfðar fyrr en á haustin, þegar allra veðra er von. Og eins og sýndi sig fyrir norðan í fyrra, eru þeir fljótir til að koma, ef þær eru leyfðar yfir sumarmánuðina. Þeir innlendu menn, sem telja sig réttbornari til að njóta fiskimiðanna við strendur landsins heldur en þá, sem sigla undir danska fánanum, munu varla verða hv. þm. þakklátir fyrir baráttu hans fyrir því að skerða vernd landhelginnar.

Að því leyti, sem hv. þm. var að tíunda hagsmuni landsmanna af því að smíða kassa utan um fisk til útflutnings, þá eru þeir jafnt til staðar, þó þetta frv. sé ekki samþ. Það þarf eins kassa utan um þá rauðsprettu, sem veidd er í september og október, eins og þá, sem veidd yrði í júní og júlí. Svo er kassagerðin náttúrlega miklu meira byggð á öðru heldur en kassaþörf sænska frystihússins. Það er alkunnugt, að ýmsir menn víðsvegar af landinu flytja út fisk í kössum, fisk, sem ekki er veiddur í dragnætur. (JJós: Ég sagði aldrei, að kassagerðin væri eingöngu til vegna dragnótaveiðanna). Jæja, hv. þm. er nú farinn að draga í land. (JJós: Ég er ekkert að draga í land). Hv. þm. getur viðhaft þau hreystiyrði, sem hann vill. Það sér hver maður, að þessi málaflutningur hans, að frv. eigi að bjarga hagsmunum kassagerðarinnar, er byggður á sandi, sem ekki þarf nema örlítið vindgráð til að sópa undan fótum hans.

Eitt virðist þó hv. þm. hafa lært af mér við þessar umr. Hann sagðist nefnil. ekki lengur vilja deila um skaðsemi dragnótaveiðanna. Ég get ekki skilið það öðruvísi en þannig, að ég sé búinn að sannfæra hann í því efni, og er hann þá kominn í samræmi við fyrri afstöðu sína, því hér einu sinni vildi hann vera ötull liðsmaður við að vinna að verndun landhelginnar. Ég vil til viðbótar því, sem ég hefi áður sagt um þann stuðning, sem hv. þm. Vestm. sækir máli sínu til framdráttar til Árna Friðrikssonar fiskifræðings, henda á það, að þegar fiskifræðingurinn hefir fellt þann dóm, að dragnótaveiðarnar séu óskaðlegar, í ritgerð, sem gekk mikið á milli hv. þm. fyrir tveimur árum í sambandi við umr. um þetta mál, þá drepur hann jafnframt á, að afleiðingin af því að leyfa dragnótaveiðar muni verða sú, að í framtíðinni reki að því, að setja verði friðunarlög fyrir kolann. Hann stendur þannig ekki fastari fótum í sinni vísindakenningu um skaðleysi dragnótaveiðanna en það, að hann býst við, að með tímanum valdi þær þeirri tortímingu á fiskistofninum, að það verði að banna þær þegar fram í sækir. Þetta stendur skýrum stöfum í umræddri ritgerð. (JJós: Má ég minna hv. þm. á aðalniðurstöðu fiskifræðingsins, sem er, að við eigum að veiða kolann í dragnætur). Já, hann segir, að við eigum að veiða og veiða. En hvernig færi, ef sú kenning væri færð út á víðara svið og gengið milli bols og höfuðs á fiskstofninum, svo að við gætum ekki einu sinni aflað í soðið lengur? Hvaða afleiðingar ætli það mundi hafa fyrir þjóðina? (JJós: Hv. þm. vill friða kolann fyrir Englendinga). Við erum að vernda okkar eigin hagsmuni með friðuninni, en þó Englendingar kunni að njóta einhvers góðs af því, að við eyðileggjum ekki kolann; þá getum við ekki gert að því. Við ráðum ekki yfir stærra svæði af hafinu umhverfis landið heldur en landhelgin nær yfir.

Þá kom hv. þm. að því, sem ég hafði mjög gert að umtalsefni í minni ræðu hér á dögunum, að með þessum ákvæðum frv. er hann að skapa mismunandi aðstöðu fyrir borgara innan þjóðfélagsins, gefa mönnum á Norður- og Austurlandi ríkari rétt til áhrifa og yfirráða um það, sem skiptir þeirra aðalatvinnuveg. Þennan rétt, sem menn á þessum svæðum hafa nú og eiga að halda áfram að hafa hjá hv. þm., á að taka af borgurunum, sem búa á svæðinu frá Hjörleifshöfða að Látrabjargi. Af því að hv. þm. lítur svo á, að hans forsjá fyrir því, hvernig þessu skuli hagað, sé svo miklu meira virði en sú forsjá, sem annarsstaðar er lögð í hendur þeirra einstöku manna, sem eiga hagsmuni sína undir þessu. Með allri virðingu fyrir hv. þm., þá getur þetta, þó hann líti þannig á málið, engan veginn réttlætt að fara þannig að eins og hér er gert. Þetta er því alveg nýtt fyrirbrigði í löggjöf, að gera þannig upp á milli áhrifavalds borgaranna um sín mikilsverðustu mál, atvinnumálin, eins og farið er fram á hér í þessu frv. Það er náttúrlega ótrúlegt, að þingið geti fallizt á að fara að gera þannig upp á milli manna í þessum efnum.

Út af því, sem hv. þm. sagði um það, að ég hefði ekki allskostar hreinar hendur sjálfur um það að vilja gera upp á milli manna í þessum efnum, þá benti hann á tvö dæmi sínu máli til stuðnings. Annað var mjólkurmálið, sem lá fyrir d. hér á dögunum, og hitt frv., sem hann sagði, að ég hefði flutt til friðunar Faxaflóa. Þetta er algerlega rangt. Ég hefi aldrei flutt neina till. um að friða Faxaflóa sérstaklega. Ég hefi oft á undanförnum þingum flutt till. um að friða landhelgina, og ég skal til sönnunar máli mínu lesa upp till., sem ég hefi flutt um þetta efni. Þær ganga allar í sömu átt. Þessi till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera hinar ýtrustu tilraunir til þess að fá samningum við Stóra-Bretland um landhelgi Íslands breytt á þá leið, að hún sé færð út, þannig að innan hennar verði allir firðir og flóar og helztu bátamið“.

Þetta er innihald þeirra till., sem ég hefi flutt um friðun landhelginnar, og ég ætla, að hv. þm. sjái, að þetta er dálítið annað en að fara fram á að fá Faxaflóa friðaðan einan allra flóa, þó það væri náttúrlega afarmikilsvert fyrir fiskiveiðarnar, af ástæðum, sem ég hefi tekið fram. Ég ætla því, að ég hafi gersamlega slegið niður það, sem hv. þm. var að réttlæta sínar óskaplegu till. um að gera hér upp á milli borgaranna, með því, að ég hafi á nokkurn hátt gefið nokkurt fordæmi til slíks. (JJós: Það er gert með þessari till.). Það er undarlegt, ef allir firðir og flóar og helztu bátamið eru sama sem Faxaflói einn. Hv. þm. hlýtur þá að álíta, að ekki séu til nein fiskimið nema Faxaflói.

Hv. þm. var eitthvað að tala um það, að hann á undanförnum þingum hefði verið að gera tilraunir til þess, að menn fengju leyfi til að opna landhelgina aftur, þeir sem það vildu. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. ætlar að samríma þessa hugsun. Það, að á einhverjum stað er bönnuð veiði með samþykkt, byggist á því, að meiri hl. hefir fengizt fyrir slíku banni, og á því byggist sú staðfesting, sem er nauðsynlegt að fá hjá stj. til þess að ekki sé heimilt að veiða á þessum tíma. En ef þessir sömu menn, sem staðið hafa að því að fá þessar samþykktir, hafa fallið frá þessari skoðun sinni, þá leiðir af sjálfu sér, að þá fellur þetta bann gersamlega niður. Þess vegna getur þetta, sem hv. þm. var að tala um, ekki samrímazt neinni heilbrigðri hugsun. Ef hv. þm. hefir einhverntíma verið að fitja upp á einhverju slíku, sem ég ekki man eftir, þá er ekki nema eðlilegt, að bæði ég og aðrir, sem vilja hafa eitthvað frekara vit í þessari löggjöf, hafi þá snúizt á móti slíkum till.

Það birtist nú grein í Morgunbl. í dag, þar sem skýrt er frá útkomu tveggja báta, sem stundað hafa dragnótaveiði við Faxaflóann síðastl. sumar. Útkoman er sú, að á öðrum bátnum voru þeir ekki svipað því matvinnungar, og þar að auki varð þessi útgerð þeirra til þess, að þeir misstu þá atvinnu, sem þeir hefðu annars getað aflað sér annarsstaðar, með því að stunda aðra vinnu. Og eftir því, sem mér er sagt, þá eru menn ekki neitt sérstaklega fíknir í að fara inn á þessa braut aftur, sökum þeirrar óskaplegu útreiðar, sem þeir fengu af þessari útgerð síðastliðið ár.

Það er talað um það í þessari grein, að menn hafi þó átt kost á að fá í fyrra það verð fyrir kolann, sem nú er talið, að þeir eigi að fá í sumar. Það stendur skýrum stöfum í þessari grein, að þeir hafi átt kost á að fá 30—40 au. fyrir kg. af kolanum, og það er verðið, sem gert er ráð fyrir, að þeir fái í sumar. Ég sé því ekki, að það séu mikið glæsilegar vonir framundan hjá þessum mönnum, að binda sig við þessa útgerð og kasta þar með frá sér öllum möguleikum, er kynnu að vera fyrir hendi hjá þeim til að fá aðra atvinnu yfir sumartímann. Það er ekkert undarlegt, þó þessir menn séu ragir við það, þegar svo afleiðingin mundi sjálfsagt verða sú, að það spillist fyrir veiðinni, sem stunduð er á annan máta hér á grunnmiðunum við Flóann og verður til þess að eyðileggja eða skerða þá möguleika, sem menn hafa fyrir því að selja þennan aflafeng í íshús og á markaðinn hér í Reykjavík.

Hvað höfum við þá upp úr þessu? Ekkert nema tap og tjón. Það er stefnt út á ófærur og eyðileggingu, líka frá þessu sjónarmiði, sem á að vera aðalgrundvöllurinn fyrir því, að samþ. þurfi frv., — þó maður hverfi alveg frá höfuðatriði þessa máls, hvaða tjón af því leiðir að leyfa rányrkju innan landhelginnar.

Ég sé þess vegna ekki annað en að þetta mál liggi þannig fyrir nú engu síður en áður, að það sé hreint og beint skylda þingsins að láta slíkt mál ekki ganga fram, þar sem líka við bætist hið herfilega misrétti, sem skýtur fyrst nú upp höfðinu í þessu frv., að gera borgurum þjóðfélagsins mishátt undir höfði, með því að taka ákvörðun um það, sem á mestu veltur fyrir þá, sem eru þeirra atvinnuvegir.