08.03.1933
Neðri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (4346)

72. mál, lögreglustjóra í Keflavík

Flm. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki langa framsögu um þetta mál. Frv. fer fram á, að stofnað verði lögreglustjóraembætti í Keflavík og ríkissjóður greiði árlega 2 þús. kr. til launa lögreglustjórans. Frv. er að öðru leyti sniðið eftir samskonar frv. um lögreglustjóra á Akranesi, og er einnig svipað frv., sem liggur fyrir þinginu nú um lögreglustjóra í Bolungavík. Hvað viðvíkur nauðsyninni á þessu embætti, þá læt ég mér nægja að vísa til grg. frv., sem ber það með sér, að þetta er mjög eindregin ósk manna þar syðra, og óskirnar eru runnar af þeim rótum, að oddvita- og hreppstjórastarfið er orðið svo umfangsmikið, að ekki er lengur ætlandi einum manni að hafa það á hendi fyrir jafnlítið endurgjald, og er nú komið svo, að ekki er talið viðunandi það ástand, sem nú er. Hefir nú verið horfið að því að bera fram þessa ósk um lögreglustjóra. Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að málinu verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.