06.05.1933
Neðri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (4370)

81. mál, sjúkrasjóð ríkisins

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Það er í rauninni ekki mikið, sem hv. þm. Borgf. og n. ber á milli. A. m. k. er hann n. sammála um, að 1. liður 3. gr. geti staðizt. Það er áreiðanlega mikilsverðasti liðurinn. Auk þess eru 3 liðir, þar sem gert er ráð fyrir, að styrkja megi úr sjóðnum menn, sem hafa sjúkdóma, er ekki koma undir flokkinn „langvarandi sjúkdómar“. Í mörg undanfarin ár hefir það tíðkazt að veita sjúklingum þeim, sem 3. gr. getur um, nokkrar upphæðir. Hefir t. d. verið varið nokkru fé til útrýmingar geitum í landinu, og eins til þess, sem getið er í 4. lið, að útvega mönnum gervilimi. Nú telur hv. þm., að þetta myndi verða teygt yfir víðara svið, ef ráðh. eigi að úthluta styrkjunum. Ég er ekki hræddur um það. Hitt hefði mér fundizt óheppilegra, að þingið ætti að ákveða það í hvert skipti, hvort styrkur skyldi veittur. Ástæðan til þess er sú, að þingið hefir mjög litlar ástæður til að dæma um þörf sjúklinganna á styrkjum.

Þingið hefir oft tekið til greina slíkar beiðnir, en mér virðist það stundum hafa verið af handahófi gert. Hefir veitingin oft farið meira eftir því, hvort hlutaðeigendur hafa átt sér örugga talsmenn í þinginu en efnahagsástæðum þeirra og annari aðstöðu. Verður þetta eflaust betra, ef heilbrigðisstjórn á að meta það í hvert sinn. Býst ég ekki við, að hægt verði að halda því fram, að meira fé muni verða veitt í þessu skyni með þessu fyrirkomulagi en verið hefir með því skipulagi, sem nú er.