06.05.1933
Neðri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (4372)

81. mál, sjúkrasjóð ríkisins

Sveinbjörn Högnason:

Ég ætla aðeins að segja nokkur orð út af einu atriði í ræðu hv. þm. Borgf. Hann sagði, að vegna breyt. þeirra, sem gerðar voru á framfærslul. hér í fyrra, væri sveitarfélögum auðveldara að styrkja sjúklinga nú en áður. Þessar breyt. voru nú aðallega í því fólgnar af afnema ríkisstyrk til sjúklinga á fátækraframfærslu. Vegna þess, að þau hafa nú alla framfærsluna á sinni könnu, ætti þeim að vera auðveldara að veita styrki í þessu skyni! Ég sagði í fyrra, að það væri vafasöm hjálp, sem sveitarfélögum væri veitt með þessum breyt., ef styrkur til sjúkraframfærslu væri afnuminn. Þetta kemur nú í ljós. Ég þekki fátæk sveitarfélög, sem fengið hafa 2000 kr. aukningu á föstum framfærslukostnaði vegna þessa. Er því nauðsyn að afnema þetta og láta ríkið bera nokkuð af sjúkraframfærslu þurfalinga.