30.05.1933
Efri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (4380)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jónas Jónsson:

Ég vil mótmæla því, að málið sé tafið á óeðlilegan hátt með því að taka það af dagskrá. Sú tilraun, sem gera á samkv. frv. þessu, sem komið er fram fyrir forgöngu hv. þm. Vestm., miðar að því að nota sér eitt hið stærsta bjargræði í bænum, sænska frystihúsið. Hér veltur á því, hvort gera á sér leik að því að hindra, að þúsundir manna fái bætta atvinnu í sumar.

Ég held, að allir hljóti að sjá, að þetta mál skýrist ekki mikið við það, þó að hv. sjútvn. láti fylgja því álit í einni eða tveimur línum; enda liggur það ljóst fyrir. Þeir hv. þdm., sem vilja bera fram brtt. við frv., geta gert það við 3. umr. Þeir, sem vilja taka málið út af dagskrá nú, gera það ekki í öðrum tilgangi en þeim, að tefja framgang þess. Og þá er miklu hreinlegra að láta málið koma til atkv. nú þegar og fella það, ef meiri hl. þessarar hv. d. vill svo vera láta.