30.05.1933
Efri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (4382)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jón Baldvinsson:

Hv. form. sjútvn. hefir lýst því yfir, að hann mundi ekki flytja brtt. við frv., og annar maður úr n. hefir einnig lýst því yfir, að hann mundi ekki heldur flytja brtt. við 2. umr. Og þar sem slíkar yfirlýsingar eru fram komnar frá meiri hl. sjútvn., þá skilst mér, að burt sé fallin ástæðan fyrir því að taka málið út af dagskrá. Ég vil geta þess út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að samskonar mál og þetta hefði verið fellt í Nd. snemma á þessu þingi, að forseti Nd. hefir athugað það vendilega, hvort flutningur þessa frv. færi nokkuð í bág við fyrirmæli þingskapa, og komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri löglega fram borið, og hefir hann gefið úrskurð um það. En ef hæstv. forseti þessarar d. skyldi vera í vafa um það, hvort hann á að láta þetta mál halda áfram nú, þá vil ég beina því til hans, ef hann þykist ekki geta orðið við þeim óskum að taka málið fyrir, að hann beri það þá a. m. k. undir deildina, hvort það skuli tekið út af dagskrá.