31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2683 í B-deild Alþingistíðinda. (4395)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Ingvar Pálmason:

Ég hefi ekki hugsað mér að teygja mjög úr þessum umr., enda hefi ég ekki áskilið mér framsögumannsrétt, er ég skilaði málinu. Þó verð ég að svara nokkrum atriðum úr ræðu hv. 1. þm. Reykv. Það er rétt hjá honum, að ég taldi upp í ræðu minni nokkur atriði, sem mæltu á móti þessum dragnótaveiðum, og það er líka rétt, að ég taldi eina mótbáruna á nokkrum rökum byggða, sem sé þá, að dragnæturnar spilltu botninum. En mér virtist hv. þm. leggja aðaláherzluna á þá mótbáruna, sem ég tel ósannaða, sem sé þá, að dragnæturnar spilli öðrum fiskiveiðum. Ég dreg ekki í efa, að þessi hreppstjóri úr Garðinum sé vandaður maður, sem segir ekki vísvitandi ósatt, en ég held bara, að reynsla hans sé ekki næg og að hann hafi þarna dregið skakka ályktun. Ég þekki veiðarfæri, sem ekki eru reyndar notuð til að veiða kola, þorsk eða ýsu, en þó nytjafisk. Hann heitir kúfiskur. Hann er veiddur með plóg, þannig, að botninn er bókstaflega plægður upp. Ef nokkurt veiðarfæri spillir botninum, þá ætti það að vera þetta. En hver er svo reynslan? Þar, sem plægt er fyrir kúfiski, þar er það tryggt, að fiskur gengur á sérstaklega smærri fiskur. Kúfiskurinn lifir nefnilega niðri í sandinum, og þegar hann er plægður upp, brotnar talsvert af skeljum, en aðrar koma upp úr sandinum. Skapast þannig mikið æti fyrir fiskinn. Þetta er staðreynd. Hverjar eru nú sannanirnar fyrir því, að dragnótin geri öfuga verkun? Ég held einmitt, að hún bæti frekar fyrir í þessu efni en skemmi, því að í dragnótina veiðist mikið af krossfiski, og þekkja allir sjómenn, hve mjög krossfiskurinn spillir fiskiveiðunum, því að hann vefur sig utan um beituna; þegar hún kemur í botn, en þorskurinn nær þá ekki í hana, þar sem hann vill ekki éta krossfiskinn. Ef dragnótin veiðir krossfiskinn, sem spillir fiskiveiðunum, þá bætir hún líka fiskiveiðarnar. Þetta vita allir sjómenn, og þarf eigi vísindamenn til að skilja það. Þarf því frekari rök til þess að sýna mér fram á, að dragnótin spilli fiskiveiðunum. Væri réttast, að við létum þessa deilu niður falla, því að við erum báðir of ófróðir um málið, en þó held ég, að reynslan sé heldur mín megin.

Þá vil ég minnast lítillega á það, sem hv. 1. þm. Reykv. vék að mér, þar sem hann sagði, að ég hefði á undanförnum þingum sótt það af kappi að fá undanþágu fyrir okkur Austfirðinga um þessar veiðar. Það er rétt. En svo spyr hv. þm., hví ég vilji ekki nú berjast fyrir því, að Austfirðingar fái þessa undanþágu. Það er óþarft að spyrja svona. Ef Austfirðingar gætu tryggt sér sæmilegt verð fyrir aflann í Rvík, þá myndu þeir líka berjast fyrir þessu.

Þá minntist hv. þm. á það, að ég hefði sagt, að þessar veiðar myndu ekki þrengja markaðinn að mun fyrir öðrum fiskiveiðum. Það getur verið, að ég hafi þar tekið nokkuð djúpt í árinni, en þó er mér tjáð, að þessi fiskur eigi ekki einungis að seljast til Bretlands. Annars skal ég ekkert um þetta fullyrða. En það þykir mér lítil röksemd hjá hv. þm., að því meira sem bátarnir seldu til Englands, því minna gætu togararnir selt, og væri þetta því enginn þjóðarhagur. Í fyrsta lagi þykir mér ekki rétt að útiloka bátana frá því að geta selt eitthvað til Englands af því, sem Íslendingar yfirleitt flytja þangað, og í öðru lagi yrði þessi fiskur miklu verðmeiri en sá, sem togararnir selja. Ef svo vel tækist til, að bátarnir gætu t. d. selt til Englands 2/3 af þeim kola, sem við flytjum þangað, og fyrir þetta háa verð, þá er ekki hægt um það að deila, að hér væri um þjóðarhag að ræða.

Hv. þm. Hafnf. vék að því, að þetta myndi spilla fyrir togurunum; þeir myndu selja minna. Ég hefi þegar vikið að þessu. En hv. þm. sagði, að ísfiskveiðar togaranna bæru sig vel. Það bendir á, að ef við getum tryggt bátunum rétt markaðsverð, þá myndu þessar veiðar líka bera sig vel.

Hv. þm. sagði, að Hafnfirðingar væru allir á móti þessari rýmkun á dragnótaveiðum. Hann sagði, að suður með sjó væru flestir á móti þessu og að aðeins nokkrir bátaeigendur og sjómenn í Keflavík væru með því. Ég hefi hér skjal, undirritað af 12 formönnum hér við Faxaflóa, og eru flestir úr Njarðvíkum eða Keflavík. Er þar skorað á þingið að samþykkja þetta mál. Bendi ég á þetta til þess að sýna, að skjallega sannaðar óskir liggja fyrir frá fleirum, sem eru með þessu en móti.

Held ég þá, að ég þurfi ekki að svara fleirum af þeim, sem á móti hafa mælt. En ég ætla að fara nokkrum orðum um brtt. hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Snæf. Þarf ég ekki að fjölyrða um hana, því að hv. þm. Hafnf. lýsti till. svo vel, að ég get það ekki betur. Hann gat um það, hve tilganglaus till. væri og að frv. væri ekki annað en viðrini, ef hún væri sett inn í það. Hann var líka svo hreinskilinn að segja það, að till. væri borin fram í því skyni að eyðileggja málið. Þarf ég þar engu við að bæta. Ég vil aðeins undirstrika orð hv. þm. um það, hvernig 1. skyldi framfylgt. Sagði hann, að verða myndi sjóstríð út af öllu þessu, ef till. yrði samþ. Getur verið nokkuð til í því. (HSteins: Það ætti að mega hafa landhelgisgæzlu). Já, en hún verður þá að vera betri en nú er. Held ég, að landhelgisgæzluna verði að skerpa, og lasta ég það sízt. En það er rétt hjá hv. þm. Hafnf., að ófriður myndi af þessu verða og að ógerningur yrði að framfylgja 1., enda er það skiljanlegt, þegar till. er borin fram til þess að eyðileggja málið.