31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2687 í B-deild Alþingistíðinda. (4397)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég hafði nú haldið, að langar umr. um þetta mál hefðu ekki mikla þýðingu, því að málið hefir komið til skoðunar áður, og ég hugsa, að atkv. dm. séu nokkurnveginn ráðin, en ég kann þó ekki við að sitja hér hjá án þess að segja nokkur orð frv. til meðmæla.

Ég man eftir því allt frá barnæsku, að það hafa verið töluverðar deilur um það, hvort rétt væri að leyfa sjómönnum að veiða fisk á einn eða annan hátt. Í minni barnæsku var ekki um neitt meira talað en það, hvort það mundi ekki gera út af við fiskveiðar landsmanna á þessum og þessum stað á hinum og öðrum tíma. Samskonar deila hefir alltaf haldið áfram enn þann dag í dag og kemur nú fram í umr. um þetta frv.

Sú vissa er fyrir hendi með þann fisk, sem veiddur er, að úr honum má gera eitthvert verðmæti, en sá fiskur, sem bannað er að veiða, verður landsmönnum aldrei að gagni. Ég held, eins og málum horfir nú, að það sé á tvennt að líta í þessu efni. Annað er það, að að því leyti, sem við eigum nú hægt með að koma þessari vöru til útlanda á góðan markað, þá er von til þess, að þetta geti orðið sæmilega arðsöm atvinna, og mér finnst sjálfsagt að leyfa landsmönnum að nota þetta tækifæri. Svo er á hitt að líta, að þetta er atvinna fyrir fleiri heldur en sjómenn. Við tilreiðslu þessarar vöru til útflutnings get ég hugsað, ef maður gerir ráð fyrir svona 14 þús. smálestum, að mundi verða borguð í verkalaun um 140 þús. kr. Það munar þó nokkuð um það yfir nokkra sumarmánuði. Svo er ýmislegt fleira, t. d. vinnulaun við að búa til umbúðir, og svo flutningsgjald til útlanda. Allt eru þetta peningar, sem koma inn í landið, ef fiskurinn er veiddur, en ekki ef það er bannað. Mótbárur hv. þm. Snæf. gegn þessu frv. út af því, að slík veiði hafi ekki borgað sig 1931, koma ekki til greina að því er snertir þann afla, sem hægt var að gera markaðshæfan fyrir tilstilli sænska frystihússins hér í Rvík, því að það er álitið, að fyrir þann afla muni fást svo mikið verð, að þetta borgi sig. En hinsvegar ætti þessi röksemdafærsla hans að útiloka allan ótta um það, að hægt sé að misnota þessa heimild með því að fiska til útflutnings þar fram yfir eða á annan hátt. Og hættan af því er útilokuð af fleiri en einni ástæðu. Fyrst og fremst álít ég í lófa lagið, og það muni ekki kosta annað en nefna það, að útiloka það, að þetta fyrirtæki hér í bænum, sem sé frystihúsið, láti nokkurn utanhéraðsmann sitja fyrir um viðskipti, hvort sem það væri útlendingur eða innlendur aðkomumaður hér í bænum. Ég veit, að aðstaða þessa fyrirtækis er slík, að það mundi ekki þurfa annað en að nefna það við það að láta bátana, sem hér veiða, sitja fyrir öllum kaupum. (HSteins: Danir mundu veiða jafnt fyrir það). Nú gleymir hv. þm. því, að við erum búnir að gera samninga við Englendinga, sem hafa það í för með sér, að ríkisstj. á að hafa í hendi sér allan útflutning á þessum frysta fiski til Englands. Hvað mundi þá þýða fyrir Dani að veiða hér kola og flatfisk og fá svo ekki að senda hann á enskan markað? Því að það er ekki ætlunin, að aðrar þjóðir fái hlutdeild í þeim kvóta, sem við megum flytja þangað inn. Það er engin hætta að leyfa þetta, vegna þess, að það má gera ráð fyrir, að það sé rétt, að markaðsskilyrðin passi það, að aðrar veiðar geti orðið arðberandi heldur en þær, sem byggjast á þessum möguleikum frystihússins. Og með þeim lögum, sem samþ. hafa verið í sambandi við ensku samningana, er íslenzku stj. gefin heimild til þess að hindra það, að þeir menn, sem hún óskar ekki eftir að hleypa inn á okkar markað, geti notið sín.

Ég læt þessi fáu orð nægja sem meðmæli frá minni hálfu með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Ég tel ekki nauðsynlegt að setja inn í lögin þau ákvæði, sem brtt. fela í sér. Ég tel, að það muni koma af sjálfu sér í framkvæmdinni. Þessar veiðar munu alls ekki verða arðberandi nema að því leyti, sem viðskipti sænska frystihússins ná til.