31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2689 í B-deild Alþingistíðinda. (4398)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Halldór Steinsson:

Ég get ekki kannazt við það, sem hv. 1. landsk. sagði, að það væri algerlega óhætt að leyfa þessar veiðar, því að það mundu ekki koma utanaðkomandi menn til þess að nota þær. Ég get ekki verið á sömu skoðun. Ég hugsa, að það mundu margir vilja nota sér þetta, menn víðsvegar að af landinu, og auk þess að sjálfsögðu Danir. En ég held, að það sé engin ástæða hjá hv. þm. að halda því fram, að Danir mundu ekki komast að hér með sinn fisk, því að Íslendingar hefðu gert samning við Englendinga um það, hvað mikið þeir mættu flytja af fiski til Englands. Danir hafa einnig slíka samninga við Englendinga, og gætu þeir komið sínum fiski í gegnum þá. En hv. 1. landsk. fór framhjá aðalatriðinu í þessu efni, þeirri ósanngirni, að taka út úr fiskimiðum landsins 2 flóa og ófriða þá bæði fyrir Dani og Íslendinga, hvar sem þeir eru búsettir á landinu. Ég skal t. d. taka Breiðafjörð og Faxaflóa. Það hagar svo til, að Breiðfirðingar þeir, sem dragnótaveiðar stunda, hafa ekki nema trillubáta til að stunda þær á, og á þeim geta þeir ekki farið langar leiðir, t. d. inn á Faxaflóa. Annað atriði er við þessar veiðar, og það er það, að Breiðfirðingar byrja aldrei þessar veiðar fyrr en seinni part sumars.

Afleiðingin af þessu yrði því sú, að þessi veiðisvæði mundu yfirfyllast af aðkomubátum áður en Breiðfirðingar gætu komið því við að nota þau. Aftur á móti gætu Breiðfirðingur alls ekki notað Faxaflóa til þessara veiða, og að því leyti kemur þetta ranglátlega niður, en það á brtt. okkar að girða fyrir.