31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2697 í B-deild Alþingistíðinda. (4401)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Bjarni Snæbjörnsson:

Það hefir verið minnzt á, að ég álíti, að frv. yrði að óskapnaði, ef brtt. yrði samþ., en ég myndi greiða atkv. með brtt. til þess að fella frv. sjálft. Ég vil benda hv. 2. landsk. á, að hann hefir gert alveg hið sama í ríkislögreglumálinu. (JBald: En ég áleit brtt. til bóta). Hann samþykkti brtt., sem hann hélt, að yrði frv. að falli, og það sama vakti fyrir mér.

Hv. 1. landsk. og hv. 2. landsk. lögðu báðir áherzlu á það, að þetta yrði til tekjuauka fyrir Reykjavík. En mér er spurn, — á þá að níðast á Garðbúum og Hafnabúum fyrir fáeina menn hér í Rvík? Ég verð fyrir mitt leyti að taka það skýrt fram, að ég álít, að engan veginn megi gera verri aðstöðu þessara manna, sem búa við miðin og eiga afkomu sína undir því, að veiðin bregðist ekki. Það dettur engum manni í Garði í hug að fara á dragnótaveiðar, af því að þeir halda, að slíkt mundi spilla haustveiðinni, og ég álít, að það þurfi að taka fullt tillit til þessara manna. Það, sem ég sagði áðan, var, að krafa flestra sunnanbúa væri, að landhelginnar væri gætt vel; svo þegar sá tími er útrunninn, þá er kolinn uppausinn eftir 2—3 nætur, og þá verða bátarnir að leita eitthvað annað. Ég álít, eins og sakir standa, að taka þurfi fullt tillit til þeirra fátæku fiskimanna, sem þarna stunda sjóróðra. Mörg sjávarpláss eru risin upp þarna með tilliti til þorskveiðanna, og ef þeim verður spillt, þá flosna smáútvegsmennirnir upp, og sveitarþyngslin eru ærin fyrir þar um slóðir, og ekki mundi það bæta úr, ef þeir, sem helzt geta borið sveitina uppi, yrðu gjaldþrota. Það verður því að taka tillit til, hvað þessir menn segja, og til athafna þeirra, sem aldrei fara á dragnótaveiðar einmitt til þess að vernda atvinnu sína.

Hv. 1. þm. Reykv. minntist á skjal, sem nokkrir Keflvíkingar hefðu sent til þess að mæla með samþykkt þessa frv. En þessir sömu menn kæra sig ekkert um, að málið gangi fram. Mér er kunnugt um, að einn þessara manna, sem hv. 1. þm. Reykv. talaði um, var orðinn þveröfugrar skoðunar, þegar suður í Hafnarfjörð kom. Það er því ekki ástæða til að leggja mikið upp úr þessum meðmælum, og þó að hv. 2. þm. S.-M. vildi gera lítið úr hreppstjóranum í Gerðum, þá legg ég meira upp úr áliti þeirra manna, sem þetta hafa athugað um langan aldur og breytt samkv. því. Og ef menn gera lítið úr slíkum rökum, þá er a. m. k. ekki ástæða til að taka meira tillit til þessara Keflvíkinga, sem ýmist eru með eða gallharðir á móti.