02.06.1933
Efri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2702 í B-deild Alþingistíðinda. (4410)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. 1. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Fyrir hönd minni hl. get ég fallizt á þessa brtt. hv. 2. þm. Árn., og er það í samræmi við það, að ég flutti sjálfur við 2. umr. brtt., sem gekk í svipaða átt.

Út af þeim ummælum hv. 2. þm. S.-M. við 2. umr. þessa máls, að brtt. mín gerði frv. að óskapnaði, vil ég vekja athygli manna á því, að þegar svipað frv. kom fram á sumarþingi 1931, flutti ég brtt. líks efnis, um að heimildin næði aðeins til þeirra, sem hefðu búsetu á svæðinu, og sú till. fékk svo eindregið fylgi í kjördæmi hv. 2. þm. S.-M., að tveim dögum eftir að brtt. kom fram bárust þinginu símskeyti af Austfjörðum, þar sem skorað var á þingið að samþ. hana.

Maður talaði við mig í morgun, sem er fylgjandi frv. Hann sagði, að frv. væri ágætt, ef mín till. hefði verið samþ. við 2. umr. Að vísu sagði hann, að óþægilegt gæti verið fyrir menn hér, sem vildu ef til vill fara til dragnótaveiða til Breiðafjarðar, að geta það ekki, en úr þeim ágalla er að fullu bætt með brtt. hv. 2. þm. Árn. En þeir menn, sem fylgja þessu máli og bera innlenda menn fyrir brjósti, ættu að geta fallizt á þessar brtt. Það eru aðeins þeir, sem bera hagsmuni útlendinga fyrir brjósti, sem ekki geta aðhyllzt þessar till. Hér er ekki um hagsmuni Austfirðinga að ræða, því að þeir myndu aldrei stunda dragnótaveiði hér, og hv. þm. Vestm. viðurkenndi í hv. Nd., að hann bæri þetta frv. fram aðeins af föðurlegri umhyggju fyrir Reykvíkingum, svo að ekki álítur hann, að Vestmannaeyingar hafi sérstaklega gott af þessu. Ég vona því, að hv. þdm. veiti þessari brtt. velviljaðan stuðning, eins og við höfum sýnt frv. með því að synja ekki um afbrigði, sem við þó áttum kost á.