02.06.1933
Efri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2705 í B-deild Alþingistíðinda. (4413)

198. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Bjarni Snæbjörnsson:

Það, sem kom mér til að standa upp, var þetta sama sem hv. 2. þm. S.-M. sagði, að þeir, sem með till. þessari væru, vildu sýna meinfýsi mönnum, sem vildu fiska hér. Eins og ég gat um við 2. umr. þessa máls, þá var ég þess fúsastur, að frv. yrði drepið án brtt., enda var sú brtt., sem þá var borin fram, krappari en þessi, og kom ekki að þeim notum, sem mér hefði fundizt æskilegt.

En ef um nokkra meinfýsi má tala í þessu sambandi, þá get ég ekki skilið, að hún sé sýnd öðrum en þeim, sem draga fram lífið á sjávarútvegi á þessum svæðum, ef Ísfirðingar, Vestmannaeyingar og Austfirðingar mega koma og eyðileggja kolaveiðarnar á þessum svæðum. Að leyfa slíka eyðileggingu á fiskimiðunum nær ekki nokkurri átt, að þingið samþykki. Þetta veit ég, að hver heilskyggn maður hlýtur að sjá, og þá auðvitað jafnsanngjarn maður og hv. 2. þm. S.-M. Ég tel einnig sjálfsagt að útiloka Dani frá þessari veiði. Ef það er meiningin að leyfa hverjum sem er að fiska á þessum slóðum og eyðileggja veiðina fyrir þeim, sem eiga heima í þeim lögsagnarumdæmum, sem liggja að þeim, þá álít ég það beinlínis meinfýsi í garð þeirra, sem undir þessum búsifjum eiga að liggja.

Hvernig svo sem litið er á þetta mál með fullri sanngirni, þá hljóta menn að vera með þessari brtt. og samþ. hana í því trausti, að málið nái fram að ganga í Nd. fyrir því.